Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, segir að uppgjör flugfélaganna hafi verið sterk. „Icelandair skilaði besta fyrsta ársfjórðungi í rekstri síðan 2019. Hér þarf að horfa til þess að engir páskar voru á fyrsta ársfjórðungi 2025 og lítur því út fyrir að uppgjörið hafi verið það besta í áratug,“ segir hann og bætir við að það hafi jafnframt verið viðsnúningur hjá Play en afkoman var óbreytt þrátt fyrir enga páska.
„Hér er rétt að benda á að áhrif páska eru meiri hjá Play en félagið hefur í auknum mæli einbeitt sér að þjónustu við Íslendinga og að fljúga með þá í fríið og eru áhrif páska því mikil. Til skamms tíma er útlitið bjart en það er meiri óvissa um veturinn vegna afleiddra eftirspurnaráhrifa af tollum í BNA,“ segir Snorri.
Icelandair hefur gefið út að félagið hyggist skila hagnaði í ár og segir Snorri að það séu yfirgnæfandi líkur á rekstrarhagnaði hjá Icelandair. Hann segir margt benda til þess að hagræðingaraðgerðir félagsins séu að skila árangri.
„Ég horfi lítið til hagnaðar eftir skatt og horfi á sjóðstreymi. Inn í hagnað koma sveiflur í núvirði kaupréttarsamninga og afkoma hlutdeildarfélaga sem skiptir ekki máli fyrir rekstur. Það eru þó mjög miklar líkur á hagnaði,“ segir Snorri.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að félagið sjái afkomubata á fyrsta ársfjórðungi sem sé mjög jákvætt og til skemmri tíma sjái félagið fram á bætta afkomu á öðrum og þriðja ársfjórðungi.
„Hins vegar er ákveðin óvissa ef horft er lengra fram í tímann og það hefur hægst á langtímabókunum. Þetta er í takt við það sem við höfum séð áður þegar óvissa ríkir í alþjóðaumhverfinu en reynslan sýnir okkur líka að hlutirnir geta breyst hratt ef óvissa minnkar. Af þessum sökum staðfestum við ekki þá afkomuspá sem var gefin út 30. janúar sl. með uppgjörinu núna og erum þar með ekki með útgefna afkomuspá fyrir árið í heild sinni,“ segir Bogi.
Flugfélögin Icelandair og Play birtu uppgjör sín eftir lokun markaða á þriðjudag.
Icelandair tapaði 44 milljónum bandaríkjadala, eða um 6,1 milljarði króna, á fyrsta fjórðungi þessa árs samanborið við 59,4 milljóna dala tap á sama tímabili í fyrra. Heildartekjur flugfélagsins jukust um 11% og námu 39,6 milljörðum króna.
Eigið fé Icelandair í lok fjórðungsins nam 241 milljón dala og var eiginfjárhlutfallið 13%.
Tap eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2025 hjá flugfélaginu Play nam 26,8 milljónum dala, eða sem nemur 3,7 milljörðum króna, samanborið við 27,2 milljónir dala árið áður.
Eigið fé Play var neikvætt um 60,4 milljónir dala, sem nemur um 8 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins er nú -16,6% en var -6,1% í lok sama ársfjórðungs í fyrra.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.