Eik fasteignafélag er vel í stakk búið fyrir innri og ytri vöxt að sögn Hreiðars Más Hermannssonar nýs forstjóra félagsins. Hann segir frá sinni sýn á rekstur Eikar, reynslu sinni á fjármálamarkaði og skoðun sinni á skuldsetningu félagsins ásamt fleiru.
Hreiðar lýsir því að hafa ávallt verið kappsamur og markviss – eiginleikar sem einkenna starfsferil hans frá unga aldri. Hann ólst upp í Fossvoginum en flutti ungur utan til náms. Hreiðar nam fyrst hagfræði og síðar fjármál í Danmörku og Bretlandi. Hann lauk meistaragráðu í fjármálum, bankastarfsemi og fjárfestingum frá London South Bank Business School í London.
Hreiðar starfaði lengi á erlendri grundu. Í Bretlandi starfaði hann hjá fyrirtæki sem sérhæfði sig meðal annars í ráðgjöf við gjaldþrotaskipti. Þar öðlaðist hann dýrmæta reynslu á sviði endurskipulagningar fyrirtækja í aðdraganda fjármálahrunsins.
Meðfram námi hóf Hreiðar störf hjá Kaupþingi aðeins 21 árs gamall og var síðar hjá Glitni eftir hrun. Hann kom síðar til starfa hjá VÍS þar sem hann starfaði við fjárfestingar félagsins. Þar nýtti hann sérfræðiþekkingu sína í eignastýringu og viðskiptaþróun, meðal annars við tilraun til yfirtökutilboðs í Kviku banka. Hann leggur sjálfur stundum áherslu á að nálgast fjárfestingar af hnitmiðaðri, leikrænni hugsun.
Árið 2019 hóf hann störf hjá Arion banka. Þar þróaði hann kreditstefnu bankans, tók þátt í þróun og sölu lánasafna og leiddi fjölmörg umbótaverkefni á fyrirtækjasviði. Hann gegndi lykilhlutverki í breytingum á áhættuvilja bankans, í yfirtöku- og almennum fjármögnunarverkefnum.
Hreiðar hefur starfað náið með fjölda lykilstjórnenda í íslensku atvinnulífi, þar á meðal Jakob Sigurðssyni, Ásgeiri Helga Reykfjörð Gylfasyni og Jóni Finnbogasyni, og lýsir hann mikilli aðdáun sinni á þeim sem samstarfsmönnum og leiðtogum.
Spurður hverjar séu helstu áskoranirnar sem hann hafi glímt við á ferlinum segist hann aldrei líta þannig á að verkefnin hverju sinni séu áskoranir.
„Ég hef verið virkilega þakklátur fyrir starfsferil minn. Ég trúi því varla að ég fái borgað fyrir að gera þetta þar sem mér finnst þetta svo skemmtilegt.“
Á meðan Hreiðar stýrði fyrirtækjaráðgjöf Arion banka stóð hann að baki mörgum af stærstu og eftirminnilegustu fyrirtækjaviðskiptum á Íslandi á síðustu árum. Með skýrri stefnu, mikilli elju og traustu sambandi við viðskiptavini leiddi hann fjölmörg stórverkefni til lykta.
Spurður hver hafi verið þau eftirminnilegustu rifjar Hreiðar upp eitt eftirminnilegasta augnablik ferilsins í ráðgjöfinni þar sem hann lýsir því þegar Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins hélt ávarp á skráningardegi félagsins á aðalmarkaði. Um borð í uppsjávarskipinu Sigurði VE-15 heyrði Hreiðar hlý orð um framlag sitt og ráðgjöf Arion banka, og er það stund sem hann minnist með mikilli hlýju. Sama dag var tekin mynd af Hreiðari ásamt Gunnlaugi, Guðbjörgu Matthíasdóttur og Einari Sigurðssyni með bjöllu kauphallarinnar í bakgrunni.
„Það er minning sem mér þykir sérstaklega vænt um og er virkilega eftirminnilegt augnablik, þetta er gott fólk sem hefur lagt gríðarlega til samfélagsins okkar í gegnum áratugina, okkur öllum til lífsgæðaauka,“ segir Hreiðar.
Annað stórt skref á þessum tíma var tilkynning um kaup PT Capital á öllum hlutabréfum í Nova, sem markaði mikilvægt augnablik á ferli hans. 16. júní 2021 stendur sérstaklega upp úr, þar sem viðskiptin voru bæði fjárhagslega sterk fyrir bankann og táknræn fyrir árangur ráðgjafar Arion.
„Yfirtökutilboð Strengs á Skeljungi var verkefni sem markaði vatnaskil í rekstri Arion banka, en hægt er að tala um Arion banka fyrir og eftir Skeljung. Við sem að því stóðum vitum hvaða áhrif það hafði innan bankans, að sjá fyrsta alvöru yfirtökutilboðið í meira en áratug fara í loftið og sjá aðferðirnar sem þar var beitt. Erlend reynsla teymisins og samstarfsaðila okkar í Taconic Capital skipti þarna öllu máli.“
Í janúar síðastliðnum upplifði Hreiðar annað stórkostlegt augnablik þegar hann stóð á kauphallargólfinu hjá New York Stock Exchange í New York og fylgdist með sameiningu JBT og Marel, sem markaði lúkningu á stærstu fyrirtækjaviðskiptum Íslandssögunnar. Hann segir að þó að nýir tímar séu runnir upp hjá Eik fasteignafélagi viðurkenni hann að hann muni alltaf sakna samstarfsfélaganna úr fyrirtækjaráðgjöfinni.
„Ég mun alltaf bera mikla virðingu fyrir teymi mínu hjá Arion banka. Það var mér bæði heiður og ánægja að starfa með þeim frábæru einstaklingum, og sá andi sem þar ríkti mun ávallt lifa með mér,“ segir hann.
Spurður hvað hann ætli að leggja áherslu á í störfum sínum og hvort hann sjái fram á að gera breytingar á fyrirtækjamenningunni eða rekstrinum segir Hreiðar að of snemmt sé fyrir hann að svara því.
Hann leggur þó áherslu á að hann komi til starfa sem orkumikill og árangursdrifinn leiðtogi.
„Ég get lofað einu – viðskiptavinir verða settir í fyrsta sæti og hluthafarnir líka. Fasteignafélög eru ekkert án góðra viðskiptavina.“
Hreiðar undirstrikar mikilvægi þess að Eik geti ekki gengið vel nema viðskiptavinunum gangi að minnsta kosti jafn vel og félaginu, helst betur.
Framtíðarsýn hans fyrir Eik er björt. Hann segir eignasafn félagsins vera „eins og að eiga einn milljarð evra í smurðri vél“ og lítur svo á að staða Íslands í alþjóðlegu samhengi, bæði fjárhagslega og efnahagslega, sé einstaklega sterk.
„Við eigum bara frábærar eignir á frábærum staðsetningum,“ segir hann og bætir við að hann vilji viðhalda þeirri stöðu og styrkja hana enn frekar.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.