Arðsemi eiginfjár sem tilheyrir hluthöfum Arion banka var 12,8%, samanborið við 9,1% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Hagnaður sem tilheyrir hluthöfum Arion banka var 6,4 milljarðar króna á fjórðungnum, samanborið við 4,4 milljarðar króna á sama tíma í fyrra.
Þóknanastarfsemin skilaði 4,5 milljörðum króna, samanborið við 3,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, og er þetta besti fjórðungur frá árinu 2022 þegar kemur að þóknunum.
Aðrar rekstrartekjur voru 3,3 milljarðar króna sem skýrist að mestu af virðishækkun þróunareigna. Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), jukust um 15,4% í samanburði við sama tíma í fyrra.
Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 21,5% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 18,3% í lok mars. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
Haft er eftir Benedikt Gíslasýni bankastjóra Arion banka í tilkynningu að afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi hafi verið í samræmi við markmið þrátt fyrir ýmsar áskoranir í ytra umhverfi.
„Það var góður meðbyr á nær öllum sviðum starfseminnar en styrkur Arion samstæðunnar er ekki síst fjölbreytni þjónustunnar sem nær til flestallra sviða fjármála heimila, fyrirtækja og fjárfesta. Tekjusköpun er því mjög fjölbreytt sem hefur sveiflujafnandi áhrif og eykur áhættudreifingu í starfsemi okkar. Áfram er fjárhagslegur styrkur samstæðunnar mikill og eigin- og lausafjárstaða góð sem gerir okkur kleift að efla þjónustu okkar og takast á við margvíslegar áskoranir í ytra umhverfi," er haft eftir Benedikt.