Sterkur vöxtur var í tekjum og EBITDA hjá fasteignafélaginu Eik á fyrstu þremur mánuðum ársins og var reksturinn í takt við áætlun. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Rekstrartekjur félagsins námu 2.964 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2025 og jukust um 9,4% m.v. sama tímabil 2024. Þar af voru leigutekjur 2.589 milljónir króna og var raunvöxtur um 4,7% á milli ára. Rekstrarkostnaður nam 1.147 milljónir króna.
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu, söluhagnað og afskriftir nam 1.817 milljónir króna samanborið við 1.700 milljónir króna á sama tímabili árið áður og jókst um 6,9%. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.708 milljónir króna og heildarhagnaður samstæðunnar á fyrstu þremur mánuðum ársins 2025 nam 1.366 milljónir króna.
NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 69,6% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2025 samanborið við 71,0% fyrir sama tímabil 2024.
Heildareignir félagsins námu 160.890 milljónum króna þann 31. mars 2025. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 147.606 milljónir króna og eignir til eigin nota námu 5.816 milljónum króna. Eigið fé félagsins nam 54.027 milljónum króna í lok tímabilsins og var eiginfjárhlutfall 33,6%. Á aðalfundi félagsins þann 10. apríl 2025 var samþykkt að greiða út arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2024 að fjárhæð um 3.393,4 milljónir króna sem samþykkt var að greiddur yrði í tveimur greiðslum.
Óbreyttar horfur
Horfur félagsins fyrir árið 2025 eru óbreyttar frá því sem birt var þann 5. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 spáir félagið því að rekstrartekjur félagsins verði á bilinu 12.055 – 12.545 milljónir króna á föstu verðlagi m.v. vísitölu neysluverðs í janúar 2025. Þar af eru leigutekjur áætlaðar á bilinu 10.375 – 10.800 milljónir króna og m.v. miðgildi spárinnar væntir félagið u.þ.b. 5% raunvexti leigutekna. Þá áætlar félagið að EBITDA ársins verði á bilinu 7.620 – 7.940 milljónir króna.
Markmið félagsins er að í árslok 2025 verði virðisútleiguhlutfall félagsins orðið 95% ásamt því að skrifað hafi verið undir samninga um 6.400 fermetra af þróunarfermetrum til viðbótar við þá 4.600 fm. þróunarfermetra sem nú þegar hefur verið skrifað undir. Gangi þær áætlanir eftir væntir félagið að á ársgrundvelli muni leigutekjur m.v. núverandi eignasafn hækka um 540 – 570 milljónir króna m.v. framangreinda spá.