Fyrsta stopp Heima-appsins utan Íslands varð óvænt Holland eins og Alma Dóra Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri og einn stofnenda útskýrir í samtali við ViðskiptaMoggann.
Appið er notað til að einfalda heimilishaldið og hvetja börnin til virkrar þátttöku. Geta þau safnað stigum fyrir unnin heimilisstörf og fengið umbun.
20% notenda eru Hollendingar og 80% Íslendingar.
„Eins og flest íslensk fyrirtæki hugsuðum við okkur að hefja útrásina í hinum norrænu löndunum. Dag einn sumarið 2023 hafði hollensk sjónvarpsstöð óvænt samband við mig. Þáttagerðarfólkið langaði að fjalla um íslenska kvennaverkfallið og jafnréttismál almennt á Íslandi. Þau höfðu heyrt af Heima og enduðu á að taka viðtöl við okkur Sigurlaugu Guðrúnu Jóhannsdóttur annan meðstofnanda minn og fylgja fjölskyldu eftir í einn dag, sem notaði appið.“
Hún segir að eftir viðtalið hafi einhver tími liðið og þau hjá Heima hafi ekki mikið verið að spá í hollenska þáttinn. „Svo kvöld eitt í nóvember sama ár hrynur vefþjónustan okkar og við vitum í fyrstu ekkert um ástæðuna. Ég var í útlöndum þegar þetta gerðist og fæ samtal frá Sigurlaugu. Hún spyr mig hvort ég sé að fylgjast með tölfræðinni okkar á netinu og segir að ekki sé um tölvuárás að ræða heldur séu raunverulegir notendur að flykkjast inn. Þarna hafði þátturinn verið sýndur í hollensku sjónvarpi og holskefla af þarlendum notendum sótti sér appið með þessum afleiðingum.“
Alma segir að hún hafi ekki vitað fyrirfram hvað Hollendingar væru í raun líkir Íslendingum. „Þau spá mikið í sömu hlutina. Hollendingar eru mjög meðvitaðir um jafnréttismál og jafnvægi milli starfs og einkalífs. Á sama tíma eru þeir mjög skipulagðir og blátt áfram. Þetta er markaður sem hentar vel fyrir lausn eins og Heima.“
Alma bætir við að notkun gervigreindar sé hafin hjá Heima en tæknin hjálpar til við að stilla upp verkefnum innan heimilisins. „Við grínumst stundum með þegar rætt er um að gervigreind eigi eftir að útrýma störfum, hvort hún muni ekki líka taka að sér heimilisstörfin,“ segir Alma að lokum.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.