Gary Gillespie, aðalhagfræðingur skosku ríkisstjórnarinnar, segir í samtali við Morgunblaðið að löndin sem taki þátt í velsældarþinginu (e. Wellbeing Economy Forum) sem lýkur Hörpu í dag séu hvert með sín áhersluatriði og úrlausnarefni.
Gillespie er meðal framsögumanna á þinginu, sem haldið er árlega.
Hann segir aðspurður að velsældarmál séu víðfeðmt svið. „Ein af áskorunum er að vera skýrari í skilgreiningum. Við í Skotlandi höfum verið að horfa á baráttu gegn fátækt, græna hagkerfið, loftslagsmál og annað í tengslum við efnahaginn m.a. Wales hefur sett fókus á kynslóðir framtíðarinnar. Velferð og heilsa eru áberandi málefni hjá Íslandi, Kanada og Finnlandi. Þannig að forgangsmálin eru aðeins ólík eftir löndum í þessu samstarfi,“ segir Gillespie, sem hefur látið sig velsældarhagfræði varða sl. átta ár. „Velsældarmál þarf að skoða í samhengi við jafnrétti, loftslagsmál, náttúruna og lífrænan fjölbreytileika. Svo þarf að líta á hlutverk hagfræðinnar í öllu saman.“
Á velsældarþinginu koma fulltrúar landanna saman og ræða málin, deila sjónarmiðum og þekkingu til að læra hvert af öðru.
Spurður hvort breytingar í hinu alþjóðlega landslagi síðustu mánuði vegna ákvarðana Bandaríkjastjórnar og tollastefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta muni hafa áhrif á umræðuna á þinginu svarar Gillespie játandi, enda séu mikil tengsl milli landanna og breytingar á reglum í alþjóðaviðskiptum hafi áhrif á alla.
Spurður hvort Skotland geti eitthvað lært af Íslandi í velsældarmálum segir Gillespie að Skotland geti m.a. lært ýmislegt af jafnréttisáherslum Íslands. „Á velsældarráðstefnunni í fyrra hittum við líka fulltrúa úr ýmsum geirum, eins og ferðaþjónustu, jarðhita og kolefnisföngun. Ísland er að okkar mati með skilvirka félagslega þjónustu en þarf einnig að glíma við náttúruna, eins og jarðhræringarnar á Reykjanesi síðustu ár. Skotland og Ísland deila áhuga á grænni orku, sjálfbærri ferðamennsku og auðlindastjórnun. Það er margt sem hægt er að læra af Íslandi,“ segir Gillespie að lokum.
Embætti landlæknis stendur fyrir velsældarþinginu í samstarfi við fjölda innlendra og erlendra aðila.
Í tilkynningu frá embættinu segir að Ísland hafi verið leiðandi á sviði velsældarmála á alþjóðavettvangi og ríkisstjórn Íslands hafi meðal annars innleitt 40 velsældarvísa með það að markmiði að auka velsæld og lífsgæði og um leið seiglu samfélagsins til að takast á við krefjandi áskoranir.
Á þinginu í ár verður fjallað um hvernig hægt sé að nota velsældarviðmið við opinbera stefnumótun og í atvinnulífinu, hvernig mælikvarðar geti betur endurspeglað raunverulega líðan og lífsgæði fólks og hvaða hlutverk stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur gegni í uppbyggingu velsældarhagkerfis.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.