Í Mið-Pennsylvaníu rekur Íslendingurinn Gunnar Birgisson eitt örast vaxandi mjólkurvörufyrirtæki Bandaríkjanna, Reykjavik Creamery. Fyrirtækið, sem sérhæfir sig í framleiðslu á skyri og grískri jógúrt, hefur vaxið um 70-100% árlega frá árinu 2021 og er nú á lokastigi undirbúnings 10.000 fermetra viðbyggingar – sem þrefaldar núverandi framleiðslugetu.
Gunnar starfaði áður sem fjármálastjóri Vífilfells en hugmyndin um að stofna sitt eigið fyrirtæki í Bandaríkjunum kviknaði þegar hann tók þátt í þróun Einstök bjórs eftir hrun. Árið 2016 fór hann til Danmerkur til að kynna sér mjólkurvinnslu í verki og lét hanna sérhæfðan búnað til skyrframleiðslu. Hann prófaði vöruna í Kaliforníu, en þegar tilvalið húsnæði losnaði í Pennsylvaníuríki gafst honum einstakt tækifæri til að hefja eigin rekstur.
Framleiðslan hófst árið 2019, og í ár stefnir Reykjavik Creamery að því að framleiða um 36 milljónir skyr- og jógúrtdósa. Á næsta ári er gert ráð fyrir 55 milljónum. Það er meira en allur innanlandsmarkaðurinn á Íslandi.
„Við framleiðum eingöngu fyrir bandaríska aðila,“ segir Gunnar, sem staðfestir að ekkert skyr frá fyrirtækinu verði flutt til Íslands: „Markaðurinn er of lítill og flutningskostnaður of hár.“
Stærsti viðskiptavinur Reykjavik Creamery eru systurnar á Painterland, sem reka stærsta lífræna kúabú í Pennsylvaníu. Þær leituðu til Reykjavik Creamery í leit að lausn þegar erfitt var að koma mjólkinni í verð.
„Í dag fer öll mjólkin þeirra, ásamt mjólk frá tugum bænda í grenndinni, í okkar vinnslu,“ segir Gunnar. Vörur Painterland Sisters eru seldar í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og eru í dag með hraðasta vöxt á jógúrtmarkaði landsins.
Ný viðbygging áætluð á 1,5 milljarða króna er fullfjármögnuð, að Gunnars sögn. „Við höfum fengið vilyrði frá viðskiptabanka okkar í Bandaríkjunum og þurfum ekki á öðrum fjármögnunaraðilum að halda að sinni,“ segir hann. Reykjavik Creamery fjárfesti fyrir 1,1 milljarð í fyrra og áætlar 800 milljóna króna fjárfestingar í ár.
Gunnar útilokar ekki framtíðarsölu eða sameiningu. „Við eigum í óformlegum viðræðum við stóran evrópskan framleiðanda um samstarf á Bandaríkjamarkaði,“ segir hann. „Markaðsskráning í Bandaríkjunum er ekki raunhæf núna, en skráning á Íslandi gæti komið til greina innan þriggja ára.“
Hann segir það vera sambland margra viðskiptavina sem drífur vöxtinn áfram, en Painterland Sisters skera sig þó úr. „Einnig framleiðum við lífræna gríska jógúrt fyrir annað vörumerki sem hefur nífaldast í sölu frá því það færðist yfir til okkar,“ segir hann. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu fyrir aðra og býður bæði sérhæfða tækni og sveigjanleika sem stórir framleiðendur ráða oft ekki við.
Reykjavik Creamery hefur einnig haft áhrif á byggðaþróun í heimahéraði. Með því að skapa eftirspurn eftir lífrænni mjólk hefur fyrirtækið breytt starfsumhverfi fjölmargra bænda, aukið verðmætasköpun í sveitum og stuðlað að umhverfisvænni landbúnaði. „Viðskiptamódelið okkar styður bæði við smærri framleiðendur og nýsköpun,“ segir Gunnar, sem sér mikil sóknarfæri áfram – m.a. í samstarfi við veitingakeðjur og heilsuvörumerki.
Fyrirtækið er með um 45 starfsmenn í dag en stefnir á 80 þegar nýbyggingin verður tekin í notkun. „Enginn starfsmanna okkar er innan verkalýðsfélaga, en allir fá heilbrigðistryggingar, lífeyrismótframlag og laun langt yfir lágmarki,“ segir Gunnar og bætir við að starfsánægja og umbun sé lykillinn að velgengninni.
Rekstrarumhverfið í Bandaríkjunum þykir Gunnari betra en á Íslandi: „Það er meira jákvætt viðhorf gagnvart frumkvöðlum, bæði í stjórnmálum og fjölmiðlum,“ segir hann. „Það er sveigjanlegra og umbun frekar en hindranir er í forgrunni.“
Þrátt fyrir góðan stuðning í Bandaríkjunum segir hann aðstoð frá íslenskum stjórnvöldum hafa verið litla. „Við leituðum til viðskiptafulltrúans í New York, en sá aðili reyndist okkur ekki nytsamlegur. Bandarísk stjórnvöld hafa hins vegar sýnt okkur verulegan stuðning,“ segir Gunnar.
Þótt bandaríska hagkerfið hafi haldist stöðugt og eftirsókn eftir próteinríkum mjólkurvörum aukist bendir Gunnar á að hækkandi verð á innfluttum varahlutum og búnaði geti haft áhrif. „En dollarinn hefur ekki haft neikvæð áhrif til þessa – við finnum enn fyrir mikilli eftirspurn og stöðugleika í rekstri.“
„Þetta er ekki auðveld leið, en ef þú ert harðákveðinn og með mikið úthald – og tilbúinn að læra og leita ráða – þá eru tækifærin gríðarleg,“ segir Gunnar. „Það þarf hugrekki og þrautseigju. En bandaríska kerfið verðlaunar þá sem nenna að leggja á sig.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.