Landsvirkjun og líftæknifyrirtækið MýSköpun hafa samið um að skoða staðsetningu á hugsanlegri framleiðslu örþörunga nálægt Þeistareykjastöð eða í Bjarnarflagi við Mývatn. Um leið verður skoðað hvort fýsilegt sé að tengja starfsemina beint við virkjun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.
MýSköpun hefur starfað á Kísiliðjulóðinni í Bjarnarflagi frá árinu 2013 og sérhæft sig í rannsóknum og ræktun hagnýtra örþörunga. Fyrirtækið var stofnað af heimamönnum og fyrirtækjum í Mývatnssveit og hefur að undanförnu unnið að áætlun til framtíðarvaxta.
Í lok árs 2024 sótti MýSköpun aukið fjármagn til hluthafa sinna og hyggst byggja nýtt framleiðsluhúsnæði til að auka verulega við örþörungaframleiðsluna. Meðal stærstu hluthafa í MýSköpun eru Þingeyjarsveit, Nýsköpunarsjóðurinn Kría, Jarðböðin við Mývatn og KEA. Nýi samningurinn við Landsvirkjun formfestir samstarf sem hefur staðið yfir um árabil og markar næsta skref í þróun verkefnisins.
Í tilkynningunni segir að tilgangur samningsins sé að styðja við verðmætasköpun og fjölgun starfa á svæðinu með nýtingu á auðlindastraumum frá virkjunum Landsvirkjunar. Framlag Landsvirkjunar næstu mánuði felist aðallega í aðstoð, aðstöðu og ráðgjöf og muni aðilar skoða leiðir til að þróa áfram samstarfið.
„Þetta samstarf við Landsvirkjun er stórt skref í átt að framtíðarsýn okkar um uppbyggingu umhverfisvænnar örþörungaræktunar á Norðausturlandi. Með uppbyggingu á slíkri örþörungaræktun með beintengingu raforku frá virkjun Landsvirkjunar getur orðið til ný atvinnugrein á okkar starfssvæði sem mun fjölga atvinnutækifærum og efla atvinnulífið. Framtíðaráætlanir okkar gera ráð fyrir mikilli uppbyggingu og á næstu fimm árum gætu orðið til á bilinu 20 til 40 ný störf á svæðinu,” er haft eftir Dr. Ingólfi Braga Gunnarssyni, framkvæmdastjóra MýSköpunar, í tilkynningunni.
„Við hjá Landsvirkjun tökum því fagnandi að eiga áfram aðkomu að spennandi starfsemi MýSköpunar á vinnslusvæði okkar við Mývatn. Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að vilja vinna með nærsamfélagi sínu, vera góðir grannar og nýta auðlindir náttúrunnar með ábyrgum hætti til verðmætasköpunar, svo ég hef mikla trú á þessu samstarfi,“ segir Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun, í tilkynningunni.