Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Hvað má til bragðs taka þegar vondir menn komast til valda?
Dæmin sýna að spilltu og grimmu fólki er ekki hægt að steypa svo glatt af stóli, jafnvel þegar blasir við að samfélagið allt myndi græða á því ef betra fólk tæki við stjórnartaumunum.
Fyrir hverja byltingarhetjuna sem tókst að bola illum leiðtogum frá völdum eru tíu þúsund sem enduðu fyrir framan aftökusveit. Þegar vondir menn eru við stjórnvölinn er það gáfulegasta sem venjulegt fólk getur gert oft að láta lítið á sér bera.
Eitt dæmi (af mörgum!) sem sýnir þetta vel var Goldenberg-hneykslið í Kenía á 10. áratugnum, spillingarmál sem teygði anga sína um hér um bil allar valdastofnanir landsins.
Á þessum tíma, sem oft áður, glímdi Kenía við mikinn efnahagsvanda og fékk alþjóðlega fjárhagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með tilteknum skilyrðum um að örva útflutningsgreinar landsins. Gripu stjórnvöld því til þess ráðs að greiða völdum útflytjendum sérstakan styrk í réttu hlutfalli við andvirði þess varnings sem þeir seldu úr landi.
Um svipað leyti setti hópur vel tengdra manna á laggirnar félagið Goldenberg, sem skyldi sérhæfa sig í útflutningi á gulli, með sérlegu einkaleyfi frá stjórnvöldum í skiptum fyrir árlega lágmarksgreiðslu til seðlabankans. Lögum samkvæmt átti félagið rétt á 20% útflutningsstyrk og fjármálaráðherra landsins tók sig til og lét bæta við 15% til viðbótar, svo að styrkurinn nam samtals 35% af söluverði gullsins.
Reksturinn fór mjög vel af stað hjá Goldenberg og þegar best lét flutti fyrirtækið út gull fyrir mörg hundruð milljónir dala árlega.
Ævintýrinu lauk hins vegar árið 1993 þegar David Munyakei, starfsmaður hjá seðlabanka Kenía, var að fara yfir styrkjagreiðslurnar og fór að gruna að maðkur væri í mysunni, enda ekkert gull að finna í jörðu í Kenía! Fljótlega varð ljóst að Goldenberg hafði, í nánu samstarfi við herskara athafna- og embættismanna, ýmist falsað útflutningspappíra eða smyglað inn gulli frá öðrum löndum til að flytja út og fá þannig innflutningsstyrkina.
Og hvað haldið þið að hafi gerst næst hjá okkar manni Munyakei? Fyrst var hann handtekinn og fékk að dúsa í steininum þar til dómari úrskurðaði að engar forsendur væru fyrir handtökunni. Svo var hann rekinn úr starfi sínu hjá seðlabankanum, og að lokum þurfti hann að leggjast á flótta enda vildu margir hann feigan fyrir að ljóstra upp um svindlið.
Upp frá þessu lifði Munyakei við bág kjör og gekk illa að finna sér vinnu. Að lokum flutti hann út í sveitina í Kenía og stundaði þar sjálfsþurftarbúskap. Hann lést árið 2006, aðeins 38 ára gamall.
Enginn einasti maður sem hagnaðist á kræfu svindli Goldenberg var sóttur til saka, en talið er að hátt í 500 manns vítt og breitt um stjórnkerfið hafi fengið í sinn hlut einhvern skerf af ránsfengnum, og er áætlað að tjón ríkissjóðs hafi numið einhvers staðar á bilinu frá 600 til 1.500 milljóna bandaríkjadala.
Undanfarin ár hefur verið nokkurn veginn jafnt á milli þeirra Írana sem styðja klerkastjórnina og þeirra sem eru andvígir henni. Kannanir sýna að heilt á litið eru um og yfir 50% landsmanna andvíg og 43-44% fylgjandi. Andstaðan er mest hjá unga fólkinu, og mælist hún 61% hjá Írönum undir 30 ára aldri, en liðlega 60% landsmanna tilheyra því aldursmengi.
Óánægjan og eymdin sést m.a. á því að í könnun sem gerð var árið 2023 sagðist fjórði hver Írani vilja flytja úr landi, fyrir fullt og allt, og er það tvöfalt hærra hlutfall en þegar sambærileg könnun var gerð árið 2014. Hjá fólki á aldursbilinu 15 til 29 vilja tveir af hverjum fimm kveðja Íran og aldrei koma til baka.
Samt tekst klerkastjórninni að ríghalda í völdin, bæði með því að hafa stóran hluta atvinnulífsins undir sinni stjórn og með aðstoð fantanna í íslömsku byltingarvarðsveitinni sem hefur á að skipa um 600.000 hermönnum ef varaliðið er talið með. Til samanburðar er íbúafjöldi Írans 90,6 milljónir og lætur nærri að rúmlega einn af hverjum 40 karlmönnum í landinu tilheyri byltingarhernum.
Óánægjan náði að krauma upp á yfirborðið í mótmælunum sem brutust út árið 2022 og 2023 eftir að Mahsa Amini lést í haldi lögreglu, en eins og lesendur muna var hún handtekin fyrir að hylja ekki hár sitt nægilega vel. Mótmælunum var svarað af hörku og talið að um 550 almennir borgarar hafi fallið en rúmlega 19.000 manns verið handtekin. Stjórnvöld „náðuðu“ mótmælendur þegar það versta var afstaðið en þeir sem höfðu sig mest í frammi: mannréttindafrömuðir, fjölmiðlafólk, íþróttastjörnur, og listamenn, sitja enn á bak við lás og slá.
Ég hef ekki heyrt annað en góða hluti um fólkið í Íran. Íranar eru þekktir fyrir að vera vingjarnlegir, gestrisnir, snjallir, vinnusamir og elskulegir. Írönsk stjórnvöld eru aftur á móti grimm, ljót og vægðarlaus.
Á föstudag gerði Ísraelsher hnitmiðaða árás á skotmörk í Íran, með það fyrir augum að veikla íranska herinn, útiloka að írönsk stjórnvöld geti komið sér upp kjarnavopnum, og taka úr umferð efsta lag byltingarvarðsveitarinnar. Fregnir herma að æðstiklerkurinn sjálfur hefði verið sprengdur í loft upp ef Trump hefði ekki talið það óráðlegt.
Aðgerðin fékk yfirskriftina „rísandi ljón“, sem hefur vísan til ljónsins sem var á þjóðfána Írans allt þar til klerkarnir sölsuðu undir sig völdin árið 1979. Eftir að fyrstu skotflaugarnar höfðu hæft skotmörk sín flutti Benjamín Netanjahú sjónvarpsávarp þar sem hann sagði að nú hefði almenningur í Íran tækifæri til að sópa harðstjórunum og ofsatrúarmönnunum í burtu. „Við höfum núna rutt fyrir ykkur brautina,“ sagði Bíbí og endurtók slagorð andstæðinga klerkastjórnarinnar: Zan. Zendegi. Azadi. – Kona. Líf. Frelsi.
„Íranar og Ísraelsmenn hafa verið sannir vinir allt síðan á tímum Kírósar mikla. Nú er runninn upp tíminn fyrir ykkur að sameinast að baki fána ykkar og arfleifð, og losna undan oki ógnarstjórnar,“ sagði ísraelski forsetinn. „Eins og ég hef oft sagt á Ísrael ekki í stríði við ykkur – almenning í Íran sem við bæði dáumst að og virðum – heldur eigum við í stríði við sameiginlegan óvin okkar: grimma harðstjóra sem bæði kúga ykkur og halda ykkur í fátækt.“
Greinendur eru ekki á einu máli um hvort Netanjahú verði að ósk sinni eða hvort árásir undanfarinna daga muni þvert á móti valda því að fylkja írönskum almenningi á bak við stjórnvöld á meðan sprengjunum rignir. Sumir benda á að ef eitthvað er hafi árásir Ísraelshers veikt andstæðinga stjórnvalda í Íran, enda er núna hægt að stimpla hvers kyns andstöðu við klerkastjórnina sem stuðning við gyðingana í Ísrael.
Og það hversu vel Ísraelsher tókst að miða skotflaugum sínum nánast inn um svefnherbergisgluggann hjá sumum írönsku herforingjunum sýnir að í Íran er enginn hörgull á ísraelskum njósnurum og samverkamönnum.
Það er ekki erfitt að réttlæta árás Ísraels á Íran. Allar forsendur breyttust eftir voðaverkin 7. október 2023 og ekki var lengur hægt að búa með hættunni á að ráðamenn í Íran gætu gert endanlega út af við ísraelsku þjóðina: annaðhvort með kjarnorkusprengju eða með því að siga bandamönnum sínum á ísraelskan almenning, en ísraelsk stjórnvöld fullyrða að Íran hafi verið nálægt því að ljúka smíði kjarnorkusprengju – sem ráðamenn í Teheran þverneita.
Íran hefur verið einn helsti bakhjarl Hamas, og einnig stutt dyggilega við Hezbollah í Líbanon, og Hútana í Jemen, að ónefndum vígasveitum sjítamúslima í Sýrlandi og Írak. Undanfarna 600 daga hefur Ísraelsher þrengt jafnt og þétt að Hamas, og lamað Hezbollah. Með falli Bashars al-Assad – sem einnig var mikill vinur Írans – var leiðin greið fyrir ísraelskar herþotur að ráðast á skotmörk á íranskri grundu.
Hernaðarlegir yfirburðir Ísraels fara ekki á milli mála. Því miður urðu ísraelsku skotflaugarnar nokkrum almennum írönskum borgurum að bana, en setja þarf þau dauðsföll í samhengi við umfang árásarinnar. Skotmörkin voru fleiri en 100 talsins og Ísrael sendi yfir 200 herþotur af stað. Íran getur ekki varið eigin lofthelgi, og meirihluti þeirra skotflauga sem Íransher skaut til baka hæfði ekki skotmörk sín og var mann- og eignatjón ekki mikið miðað við aðstæður.
Nú er bara að sjá hvað gerist næst, og kannski er ágætt fyrir frjálshyggjufólk að muna að stjórnmálamönnum og embættismönnum er ekkert frekar treystandi þegar kemur að hernaði en á öðrum sviðum. Þegar sprengjurnar fljúga þarf að taka öllu sem þeir segja með verulegum fyrirvara.
Hitt er fer ekki á milli mála að Ísrael hefur styrkt stöðu sína í heimshluta þar sem oft er ekki annað í boði en að sýna fulla hörku. Vei þeim sem lætur sér detta í hug að abbast upp á Ísrael.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.