Á undanförnum árum hafa greiðslulausnir tekið örum breytingum, en fáar breytingar eru jafn róttækar og þær sem fylgja bálkakeðjutækninni og rafmyntum. Þróunin er ekki lengur tilgáta eða spádómur, hún er að gerast núna, í rauntíma, með þátttöku stærstu fjártæknifyrirtækja heims.
Undirritaður sótti ráðstefnu sem rafmyntakauphöllin Coinbase hélt í New York í síðustu viku. Á ráðstefnunni var tilkynnt um samstarf Coinbase og Shopify sem er stærsta netverslunarkerfi í heimi. Fjártæknirisinn Stripe er einnig hluti af samstarfinu og sér um tæknilega innleiðingu.
Samstarfið felur í að sér að nú í fyrsta skipti verður boðið upp á greiðslur með stöðugleikamyntinni USDC beint inn í greiðslukerfi Shopify. Þetta er í fyrsta skipti sem rafmyntir eru samþættar með þessum hætti inn í stórt alþjóðlegt netverslunarkerfi.
Stöðugleikamyntir eins og USDC eru rafrænir dollarar, hannaðir til að halda sama virði við bandaríkjadal. Á bak við hverja einingu af USDC sem gefin er út á bálkakeðju er samsvarandi fjárhæð af hefðbundnum dollurum geymd í varasjóði, annaðhvort á bankareikningum eða í ríkisskuldabréfum með skamman líftíma. Þetta tryggir að notendur geti ávallt skipt USDC yfir í hefðbundna dollara á jöfnu gengi, 1:1.
Útgefandinn, í þessu tilviki bandaríska fyrirtækið Circle (sem nýlega var skráð á markað), birtir reglulega úttektir og endurskoðaðar skýrslur um stöðu varasjóðsins til að tryggja gagnsæi og traust til markaðarins. Þetta gerir USDC að traustri brú milli hefðbundins fjármálakerfis og rafmyntaheimsins.
Stöðugleikamynt eins og USDC er í raun stafræn útgáfa af gjaldmiðli sem nýtir bálkakeðjutækni til að gera greiðslur hraðari, ódýrari og gagnsærri. Með þessari nýju lausn geta notendur verslað á netinu með USDC, án þess að greiðslurnar fari í gegnum hefðbundna banka eða kortafyrirtæki. Greiðslurnar fara fram á Base-netinu (sem er hluti af Ethereum-netinu), og klárast á nokkrum sekúndum fyrir brotabrot af hefðbundnum kostnaði.
Hvað þýðir þetta í raun? Þessi þróun felur í sér að notendur njóta hraðari, öruggari og aðgengilegri greiðslumáta, verslanir fá lægri gjöld og beina tengingu við viðskiptavini um allan heim án milliliða.
Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að bálkakeðjutæknin muni verða notuð í meira og minna öllum viðskiptum yfir internetið á komandi árum. Nú eru risastórir netverslunaraðilar eins og Shopify farnir að sjá hag sinn í að nota þessa nýju innviði og það er bara byrjunin.
Þessi þróun felur í sér að notkun rafmynta í viðskiptum eykst gríðarlega og þar með notkun þeirra grunninnviða sem rafmyntir keyra ofan á. Ef við skoðum eingöngu stöðugleikamyntir þá er heildarútgáfa þeirra í dag um 250 milljarðar dollara og hefur útgáfan aukist um 54% sl. 12 mánuði. Þessar rafmyntir keyra að langstærstu leyti ofan á bálkakeðjunum Ethereum, Tron og Solana.
Flestir sérfræðingar í geiranum spá því að notkun stöðugleikamynta muni aukast gríðarlega á komandi árum og má búast við að útgáfa þeirra verði komin yfir 1.000 milljarða dollara áður en langt um líður. Því meiri sem notkun stöðugleikamynta verður, þeim mun meira verðmæti færist yfir á undirliggjandi bálkakeðjur á borð við Ethereum og Solana.
Við Íslendingar ættum að fylgjast vel með þessari þróun. Ísland er lítið og sveigjanlegt hagkerfi með aðgang að tæknimenntuðu fólki og góðum netinnviðum. Við getum aðlagað okkur hratt, ef vilji er fyrir hendi. Nú er rétti tíminn til að Ísland móti stefnu um rafmyntir og greiðslumiðlun framtíðarinnar. Ef við bregðumst hratt við, getum við verið í fremstu röð í þessari þróun.