Ólíklegt er að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti frekar á árinu nema eitthvað breytist í umhverfinu, að mati Bergþóru Baldursdóttur hagfræðings hjá Íslandsbanka.
Bergþóra var gestur í viðskiptahluta Dagmála þessa vikuna og ræddi meðal annars um stýrivexti, efnahagshorfur og fasteignamarkaðinn.
Bergþóra segir hins vegar Íslandsbanka hafa gert ráð fyrir frekari lækkunum í Þjóðhagsspá sinni í maí.
„Við erum ekki að búast við mikilli hjöðnun verðbólgunnar. Hún verður í kringum 4% ef spá okkar raungerist. Miðað við hvernig þau í peningastefnunefndinni töluðu síðast, þegar þau lækkuðu vexti í maí um 25 punkta, þá sögðu þau að þau ætluðu ekki að lækka vexti frekar nema verðbólgan færi niður í 3,5%,“ segir Bergþóra.
Hún bætir við að litlar líkur séu á því að það gerist.
„Ólíklegt er að vextir muni lækka á árinu, ekki nema verðbólguhorfur batni að einhverju ráði,“ segir Bergþóra.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: