Stjórnendur Landsvirkjunar hafa undanfarin ár ítrekað bent á þá staðreynd að arðsemi eigin fjár sé ekki mikil, en hafi þó farið vaxandi með árunum. Þetta kemur fram í svörum fyrirtækisins við fyrirspurn ViðskiptaMoggans í kjölfar umfjöllunar blaðsins um slaka arðsemi.
Bætt arðsemi sé meðal annars vegna endursamninga við núverandi viðskiptavini og tilkomu nýrra viðskiptavina sem greiði ásættanlegt verð. Hins vegar sé enn ósamið við stærsta viðskiptavininn, álver Alcoa á Reyðarfirði. „Alcoa notar um þriðjung allrar þeirrar raforku sem Landsvirkjun framleiðir og er því eins og fyrr segir lang stærsti viðskiptavinurinn.“
Nýtt raforkuverð tekur við árið 2028
Í samningi Landsvirkjunar og Alcoa er kveðið á um verðendurskoðun um miðbik samningsins og aðilar þegar farnir að ræða um endurnýjun. „Nýtt raforkuverð mun taka mið af markaðsaðstæðum og gera má ráð fyrir umtalsverðri verðhækkun líkt og reyndin hefur verið í endursamningum við aðra viðskiptavini síðastliðin ár.“
Í flestum nýlegum samningum sé raforkuverð nú verðtryggt í Bandaríkjadölum og tengt bandarísku neysluverðsvísitölunni. „Líkt og við þekkjum með verðtryggð lán á Íslandi hækka greiðslur í þess háttar samningum eftir því sem fram í sækir, og þar með eykst arðsemin eftir því sem líður á samningstímann.“
Hið opinbera skerðir samkeppnishæfni með sköttum og gjöldum
Landsvirkjun bendir á að engin auðlindarenta - hagnaður umfram eðlilega arðsemiskröfu – hafi enn skapast hjá fyrirtækinu. „Þrátt fyrir það liggja á borði stjórnvalda áform um að hækka fasteignaskatta og auðlindagjöld á nýjar virkjanir.“ Þá hafi flutningskostnaður og tengigjöld hækkað verulega og bitnar það á orkufyrirtækjum þar sem sá kostnaður er hluti af raforkuverði í samningum. „Flutningskostnaður á Íslandi er með þeim hæsta í heimi.“
Landsvirkjun nefnir einnig að skattbyrði fyrirtækisins sé meiri en hjá sambærilegum orkufyrirtækjum í Evrópu. „Landsvirkjun er sameignarfélag og greiðir því 37,6% tekjuskatt af hagnaði meðan sambærileg orkufyrirtæki á Norðurlöndunum og í Evrópu greiða um 20%.“
Þetta hafi „neikvæð áhrif á ásýnd arðsemi Landsvirkjunar í samanburði við raforkufyrirtæki á Norðurlöndunum og í Evrópu.“ Þetta dregur einnig úr arðsemi nýrra virkjana, þar sem hærri skattar bitni sérstaklega á fjárfestingum í nýjum mannvirkjum.
Leyfisveitingar og tafir valda kostnaði
Í svari fyrirtækisins er einnig bent á að þung og langdregin leyfisveitingarferli hafi valdið verulegum kostnaði. „Sem dæmi hafa tafir við leyfisveitingu Hvammsvirkjunar kostað gríðarmiklar fjárhæðir – ekki bara í auknum kostnaði við byggingu virkjunarinnar og kostnaði vegna leyfismála, heldur einnig töpuðum tekjum vegna seinkunar á gangsetningu.“ Þá er bent á að slíkar tafir skaði ekki aðeins fyrirtækið heldur allt samfélagið, með glötuðum tækifærum til verðmætasköpunar.
„Krafa um hærri auðlindagjöld og fasteignaskatta auka kostnað umtalsvert,“ segir jafnframt í svari Landsvirkjunar. Og enn fremur: „Hætta á orkuskorti eykst svo þegar ekki er unnt að koma virkjunum í gegn.“
Aðhald, fjárfestingar og stærsta framkvæmdaskeið í sögu fyrirtækisins
Landsvirkjun bendir á að fyrirtækið hafi skilað ríkissjóði um 150 milljörðum króna í arði og skattgreiðslum á síðustu fjórum árum, og á sama tíma hafi skuldir lækkað um 90 milljarða. „Lánshæfiseinkunn fyrirtækisins hefur samfara þessu hækkað jafnt og þétt og er nú í A-.“
Þrátt fyrir áskoranir sé áhersla á áframhaldandi aðhald og skynsama fjárfestingu. „Eitt mesta framkvæmdaskeið í sögu Landsvirkjunar er nýhafið og áskorun að auka arðsemina samhliða mjög miklum fjárfestingum næstu árin.“
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.