Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Ummæli innviðaráðherra, Eyjólfs Ármannssonar, í kjölfar ákvörðunar Arctic Fish um að flytja fóðurstöð sína frá Þingeyri til Ísafjarðar, hafa vakið athygli. Ráðherrann gagnrýnir fyrirtækið harðlega fyrir skort á samfélagslegri ábyrgð. Samhliða því hefur hann gefið í skyn að rekstrarskilyrði fyrirtækisins kunni að verða endurskoðuð, enda muni hann beita sér fyrir því að snúa þessari ákvörðun við.
Þessi orð ráðherrans eru ekki einungis til marks um óánægju með einstaka ákvörðun fyrirtækisins heldur má skilja þau sem óbeina hótun. Ráðherrann gefur í skyn að fyrirtæki sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar þurfi að lúta boðvaldi og þóknun stjórnmálamanna. Slíkt setur hættulegt fordæmi og skapar óvissu í atvinnulífinu.
Það er óumdeilt að fyrirtæki beri samfélagslega ábyrgð. Þau greiða skatta, skapa störf, fylgja almennt lögum og reglum, sinna umhverfismálum og taka þátt í samfélaginu á þeim svæðum sem þau starfa. En samfélagsleg ábyrgð þýðir ekki að fyrirtæki beri beina ábyrgð á þróun einstakra byggðarlaga eða eigi að halda uppi atvinnu á stöðum þar sem slíkt stenst ekki út frá rekstri.
Það eru fyrst og fremst stjórnvöld sem bera ábyrgð á að skapa raunhæfar forsendur fyrir atvinnulíf um land allt. Með skýrum leikreglum, fjárfestingu í innviðum og hvötum geta stjórnvöld skapað grundvöll fyrir atvinnuuppbyggingu.
Fyrirtæki bera sínar skyldur gagnvart hluthöfum, starfsfólki og samfélaginu í heild, en þær skyldur felast meðal annars í því að tryggja sjálfbæran og arðsaman rekstur. Að ætlast til þess að þau viðhaldi atvinnu á ákveðnum stað þvert á eðlilegar rekstrarlegar forsendur er ekki aðeins óraunhæft, heldur getur slíkt grafið undan rekstrinum sjálfum og sett framtíð fyrirtækisins í hættu.
Þessi umræða takmarkast því miður ekki við landsbyggðina. Á höfuðborgarsvæðinu hafa fyrirtæki árum saman glímt við óskýrt regluverk, seinagang í leyfisveitingum og borgaryfirvöld sem virðast ekki hafa áhuga á að hafa rekstur innan borgarlandsins, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um vilja til að efla atvinnulíf og nýsköpun.
Ef stjórnvöld vilja raunverulega styðja við byggðir landsins og skapa sjálfbært atvinnulíf þurfa þau fyrst og fremst að beina sjónum að eigin verkefnum. Með því að tryggja skýrt og sanngjarnt regluverk, fjárfesta í innviðum og skapa raunhæfa hvata fyrir fyrirtæki leggja þau grunn að verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu til framtíðar.
Það skapar ekki störf, styrkir ekki byggðir og eflir ekki samfélagið að beita fyrirtæki þrýstingi eða gefa í skyn að rekstrarskilyrði þeirra ráðist af því hvort ákvarðanir þeirra falla í kramið hjá ráðherrum landsins. Slíkt viðhorf dregur úr fjárfestingu og býr til óvissu sem skaðar ekki aðeins einstök fyrirtæki heldur samfélagið í heild.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.