Sigrún Hildur Kristjánsdóttir, íbúi í Akrahverfi í Garðabæ, segir bæjaryfirvöld ekki hafa hlustað nóg á athugasemdir íbúa vegna gerðar deiliskipulags nýrrar byggðar í Arnarlandi sem fjallað var um í ViðskiptaMogganum fyrr í mánuðinum.
Fasteignaþróunarfélagið Landey er nú með Arnarlandið í heild sinni í söluferli og er deiliskipulag endanlega tilbúið og samþykkt.
Arnarlandið, sem er níu hektarar að stærð, liggur norðan Arnarnesvegar við Hafnarfjarðarveg. Samkvæmt deiliskipulagi á að reisa 450 íbúðir og 37 þúsund fermetra af verslunar-, skrifstofu- og þjónusturýmum.
Sigrún segir að umkvartanir íbúa snúi að tvennu. Annars vegar hafi íbúar á Arnarnesinu í Garðabæ og í Arnarsmára í Kópavogi óskað eftir því að hæstu byggingar yrðu lækkaðar til að útsýni yrði ekki skert. Þá muni háar byggingar valda mikilli skugga- og hávaðamengun. Hins vegar hafi íbúar í Akrahverfi gert athugasemdir við umferð út úr Arnarlandinu en beina á umferð úr hinu nýja hverfi að miklu leyti í gegnum Akrahverfið en einnig Fífuhvammsveg í Kópavogi, sem Kópavogsbúar séu einnig ósáttir við.
Sigrún segir að brugðist hafi verið við athugasemdunum með því að lækka húsin um tvær hæðir. Þá hafi verið brugðist við athugasemd um umferð með lítils háttar færslu sem ekki sé nægjanleg að mati íbúa.
Eins og haft var eftir Þorgerði Örnu Einarsdóttur framkvæmdastjóra Landeyjar í ViðskiptaMogganum var í skipulagsvinnunni haft gott samráð við alla hagsmunaaðila. Haldnir voru nokkrir íbúafundir og fólk gat sent inn ábendingar og athugasemdir sem höfðu mótandi áhrif á þróun skipulagsins í skipulagsferlinu.
Sigrún er ekki fyllilega sammála framkvæmdastjóranum og gagnrýnir bæjaryfirvöld í Garðabæ fyrir að hlusta ekki nægjanlega vel á íbúa. Haldnir hafi verið fundir og undirskriftum safnað, án árangurs.
„Það er enginn ósáttur við að verið sé að byggja upp Arnarlandið. Hins vegar teljum við margir íbúar í nágrenninu að byggingarmagnið sé allt of mikið á litlum fleti og ekki sé hugsað nægjanlega fyrir inn- og útkomu úr hverfinu.“
Eins og Sigrún útskýrir átti öll umferð úr hverfinu upphaflega að koma í undirgöngum undir Arnarnesveginn og fram hjá Hofakri, efstu götunni í Akrahverfinu. Þaðan færi hún svo á lítið hringtorg, þá fram hjá Krónunni og yfir á næsta hringtorg uppi á Arnarnesveginum. „Þessu var síðan breytt, meðal annars vegna þess að íbúar við Hofakur voru komnir með lögfræðing í málið. Þá færði bærinn göngin örlítið austar, til móts við Línakur, sem er í raun engin lausn. Þarna er mikil umferðarteppa síðdegis og á morgnana og það að hleypa umferð úr heilu hverfi þarna í gegn, 3.500 bílum, eykur einungis á vandann. Auk þess er Krónuverslunin mjög vinsæl og mikil umferð í hana bæði úr Garðabæ og Kópavogi.“
Spurð að því hvaða lausn hún og aðrir íbúar hefðu viljað sjá segir Sigrún að best hefði verið að umferðin úr Arnarlandinu færi beint út á næstu stofnbraut, Hafnarfjarðarveginn. „Bærinn segir okkur hins vegar að Vegagerðin hafi ekki viljað þá lausn,“ segir Sigrún að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.