María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans segir í samtali við ViðskiptaMoggann að áhugaverðar breytingar séu að eiga sér stað á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði. Samkeppnisumhverfið hafi sjaldan eða aldrei verið jafn líflegt. María Björk er viðmælandi í miðopnuviðtali ViðskiptaMoggans þessa vikuna.
Í stað þess að einblína á línulegar íþróttaútsendingar hefur Síminn ákveðið að styrkja enn frekar sína eigin efnisveitu. „Við skrifuðum nýverið undir sögulegan samning við Warner Bros. Discovery eftir margra mánaða viðræður. Við verðum þeirra samstarfsaðili á Íslandi og áskrifendur Símans munu fá aðgang að öllu efni HBO Max, þar á meðal vinsælustu þáttunum þeirra. Þetta er framhald af farsælu samstarfi við HBO, en nú förum við á næsta stig.“
Hún segir þessa þróun í takt við það sem sést erlendis: streymisveitur sem áður seldu einungis beint til neytenda hafa nú í auknum mæli leitað í samstarf við fjarskiptafyrirtæki til að ná meiri útbreiðslu og stöðugri tekjugrunni. Dæmi um slíkt séu til dæmis Sky Q-boxið frá Sky í Bretlandi og MagentaTV-boxið frá Deutsche Telekom.
„Viðskiptavinir fá þannig aðgang að streymisveitum í gegnum sitt fjarskiptafyrirtæki – allt á einum stað, sem bætir upplifunina. Þetta er ákveðin „win-win-win“-leið – fjarskiptafyrirtækin geta skapað aukið virði fyrir viðskiptavini sína, streymisveiturnar ná meiri útbreiðslu og geta dregið úr sölu- og markaðskostnaði, og notandinn getur keypt og nálgast allt sitt efni á einum stað og þarf ekki að flakka milli tækja og viðmóta.“
Síminn hefur einnig gert samstarfssamning við streymisveituna Hayu, sem er í eigu Comcast og sérhæfir sig í raunveruleikaefni. „Við munum bæta við meira en þúsund klukkustundum af efni frá þeim í okkar viðmót. Þetta er efni sem höfðar sterkt til stórs hóps og mælist jafnvel með mun meira áhorf en stórir fótboltaleikir. Þetta er því skref í að fjölga kostum og ná til stærri markhópa.“
Spurð út í þróunina á vörumerki Símans og hvernig hún meti stöðu þess á markaðnum segir María Björk að hún meti hana góða.
„Við höfum í gegnum stefnumótunarvinnu síðasta árs velt því fyrir okkur hvernig vörumerki Símans endurspeglar ekki bara söguna okkar – sem fyrirtæki með 120 ára sögu – heldur líka framtíðarsýn okkar,“ segir María. Hún bætir við að sú staða að hafa áður þjónustað alla landsmenn hafi skapað ákveðna ímynd, en að í gjörbreyttu landslagi sé mikilvægt að endurstaðsetja vörumerkið.
„Við fórum í ítarlega markhópagreiningu og sáum að kjarnahópar okkar eru annars vegar upptekið fjölskyldufólk sem vill einfaldleika og þægindi í amstri dagsins, og hins vegar fólk sem er búið að koma sér fyrir í lífinu, komið í gegnum barnauppeldi og kýs áreiðanleika og gæði. Þannig fókusum við á að staðsetja vörumerkið nálægt þessum hópum, en framúrskarandi upplifun viðskiptavina er auðvitað rauði þráðurinn í báðum tilfellum. Sími, net og sjónvarp er þjónusta sem fólk vill einfaldlega að virki og það er okkar mikilvægasta verkefni að standa undir stöðugt vaxandi kröfum um hraða og gæði þjónustunnar.“
Hún segir að öflugt markaðsteymi Símans hafi leitt þessa vinnu og að ásýnd vörumerkisins hafi tekið breytingum. „Við höfum unnið með hugmyndina um léttleika, afþreyingu og skemmtun – en alltaf með kjarnann í fyrirrúmi: traust og áreiðanleika.“
Síminn hefur einnig dregið styrk úr þeirri stöðu að vera traustur tækniaðili á fjártæknimarkaði. „Það er engin tilviljun að fólk treystir okkur fyrir greiðslumiðlun undir merkjum Símans Pay. Þegar þú notar greiðslulausnir viltu vita að það sé traustur aðili á bak við kerfið. Hvað þá þegar fyrirtæki kjósa aðila til að stýra öllum kreditkortum fyrirtækisins, þá skiptir öllu máli að þau geti treyst því að þjónustuaðilinn sé traustur og verði til staðar til framtíðar. Við höfum verið hér í 120 ár og byggjum á trausti á þessum markaði eins og öðrum sem við störfum á.“
Aðspurð hvort það komi til greina að hætta að nota vörumerki á borð við Noona og selja lausnirnar undir merkjum Símans segir María skýrt: „Það hvarflar ekki að okkur að hætta með Noona. Þetta er gríðarlega sterkt vörumerki og mikilvæg viðbót í vistkerfi Símans.“
Spurð hvað sé fram undan hjá Símanum segir María Björk að margt sé á döfinni.
„Símamótið er í gangi þessa helgina, en það er okkar stærsta samfélagsverkefni, og hefur aldrei verið stærra. Við erum stolt af því að sýna frá Símamótinu í beinni útsendingu og leyfa ættingjum og vinum um land allt að fylgjast með hetjunum sínum.“
Hún segir að haustið verði risastórt í sjónvarpi: „Við verðum með verulegt úrval af efni, nýju samstarfsverkefnin með HBO Max og Hayu, og meiri áherslu á innlenda dagskrárgerð en nokkru sinni fyrr. Ice Guys 3 fer í loftið í lok sumars og í kjölfarið fylgja fleiri stórar íslenskar þáttaraðir sem munu vekja mikla athygli.“
Fram undan sé áframhaldandi sókn bæði í innri og ytri vexti.
„Við ætlum að horfa til frekari vaxtar, styrkja vistkerfið okkar og bæta við tekjustoðum í reksturinn. Við búum að sterkum efnahagsreikningi og góðu sjóðstreymi, og erum því vel í stakk búin fyrir ytri vöxt, sem við höfum verið opin með að við horfum sterklega til. En um leið ætlum við aldrei að missa sjónar á því að reka félagið skynsamlega, stýra kostnaði og skila hluthöfum góðri ávöxtun. Við erum í sóknarhug,“ segir María Björk að lokum.
Innleiða gervigreind í reksturinn
Sífellt fleiri fyrirtæki eru að huga að innleiðingu gervigreindar inn í sinn rekstur.
María segir að Síminn vinni nú að fjölmörgum spennandi tækniverkefnum, þar á meðal í tengslum við gervigreind. „Við myndum helst vilja vera komin lengra í þessum efnum, en veruleikinn er sá að við erum legacy-fyrirtæki með tæknilegt umhverfi sem ber þess merki. Síðustu tvö til þrjú ár hafa þó markað mikilvæg tímamót í stafrænu umbreytingarferli okkar.“
Fyrirtækið hafi í byrjun árs 2023 tekið meðvitaða ákvörðun um að byggja traustan grunn í stað þess að plástra ofan á gamla innviði. „Við ákváðum að fara þessa leið, að vanda til verka og gera hlutina í réttri röð, og við höfum náð miklum árangri. Nú erum við komin að skemmtilegri kafla þar sem við förum að byggja nýjar lausnir ofan á þennan sterka grunn. Næstu tvö til þrjú árin verða virkilega spennandi á þessu sviði.“
Kjarninn í allri stafrænni þróun innan Símans sé að upplifun viðskiptavinarins verði sem best. „Við höfum fjárfest mikið í sjónvarpskerfunum okkar og höfum tekið gagnrýni á viðmót kerfanna alvarlega. Það hefur þegar dregið verulega úr gagnrýnisröddum og við vitum að upplifunin mun halda áfram að batna.“
Hún segir sjónvarpskerfið hjá Símanum, bæði tæknina og notendaviðmótið, vera orðið eitt það öflugasta á landinu. „Það kom okkur að einhverju leyti á óvart hversu hratt Sjónvarp Símans hefur vaxið. Kannanir sýna að það er vinsælasta sjónvarpskerfið meðal Íslendinga í dag til þess að nálgast innlendar veitur og sjónvarpsstöðvar.“
Síminn hafi einnig vakið athygli erlendis fyrir tæknina. „Við höfum fundið áhuga frá erlendum aðilum á að nýta sjónvarpskerfi Símans fyrir dagskrárstýringu, auglýsingakerfi og fleira. Það sýnir okkur að við erum á réttri leið og getum jafnvel orðið fyrirmynd fyrir aðra markaði.“
Það hefur gengið afar vel að innleiða nýja stefnu fyrir félagið, og í raun hraðar en við áttum von á fyrst segir María og horfir yfir árið sem hún hefur gegnt forstjórastöðunni.
„Við hófum strax í upphafi að stilla upp réttu skipulagi, og fyrsta skipuritsbreytingin var gerð aðeins tveimur vikum eftir að ég hóf störf.“
Hún segir að strax hafi verið lögð áhersla á að móta sterkt stjórnendateymi og fara í gegnum heildstæða stefnumótunarvinnu. „Við nýttum haustið í þá vinnu, að horfa fram á við, skilgreina tækifæri og skrifa næsta kafla í sögu Símans. Við kynntum svo nýja stefnu í janúar og hófum strax innleiðingu, og það hefur þegar margt áunnist.“
Samhliða kynningu á nýrri stefnu var gerð önnur breyting á skipuriti, og fyrirtækja- og einstaklingssviðum skipt upp. „Markmiðið var að markaðir fengju fullan fókus í sölu, þjónustu og vöruþróun. Samhliða færðum við vörustýringu af tæknisviði yfir á tekjusviðin þannig að hún yrði nær viðskiptavininum og hlutverk hennar skýrara.“
Hún segir kjarnann í stefnunni skýran: viðskiptavinamiðaða nálgun, þar sem þjónusta, lausnir og ferlar eru hannaðir út frá raunverulegri reynslu og þörfum fólks. „Við áttum okkur líka á því að ákveðið tómarúm hafði myndast eftir sölu Mílu. Félagið var að koma út úr löngu tímabili þar sem stefnan var að einfalda fyrirtækið, selja eignir og hagræða. Það var gert með mjög góðum árangri, en það var kominn tími til að huga að uppbyggingu á ný.“
Hún segir að Síminn standi á traustum grunni, félagið sé vel rekið, hafi öfluga innviði, sterkt vörumerki og einstakan mannauð. „Við byggjum á grunni sem hefur reynst mjög vel og það sem við erum að gera núna er að nýta þann grunn í frekari vöxt. Við viljum þróa vöruframboðið okkar enn frekar og skapa fleiri snertifleti við okkar stóra hóp viðskiptavina.“
Reksturinn hefur einnig gengið vel. „Við höfum lengi lagt áherslu á að stýra kostnaði af skynsemi, og það hefur skilað sér í traustri afkomu og sterku sjóðstreymi. Við höfum einnig verið staðföst í því að leyfa hluthöfum að njóta þessa góða árangurs í gegnum arðgreiðslur og endurkaup.“
María segir þó að félagið hafi þurft að lækka afkomuspá í febrúar vegna sektar sem félaginu var gert að greiða í kjölfar hæstaréttardóms í enska bolta-málinu svokallaða. „Við uppfærðum spána og hún stendur nú í 6,6-7 milljörðum í EBITDA og 3,2-3,6 milljörðum í EBIT. Ef við leiðréttum fyrir sektinni, þá er spáin fyrir EBITDA 7-7,4 milljarðar og EBIT 3,6-4,0 milljarðar, sem felur í sér umtalsverðan vöxt frá fyrra ári þegar EBIT var 2,9 milljarðar króna.“
Hún segir að áhrif enska boltans komi einkum fram í lægri afskriftum en erfiðara sé að spá um áhrif á tekjur. „Enski boltinn er vinsælt sjónvarpsefni en enginn ómissandi burðarás í rekstri Símans. Þegar lá fyrir að við myndum missa réttinn fórum við strax í að endurskoða vöruframboðið okkar. Sjónvarp Símans hefur aldrei verið öflugra, en við höfum nú þegar kynnt tvær spennandi nýjungar í sjónvarpsþjónustunni okkar auk þess að hafa aldrei verið virkari í innlendri framleiðslu á leiknu gæðaefni. Því til viðbótar erum við með fjölmörg spennandi verkefni í gangi – sérstaklega þegar horft er til innri vaxtar og nýrra tekjustrauma.“
María segir að það hafi verið í anda skýrrar stefnu Símans að leggja ekki í það að bjóða enn hærra verð í réttindin á enska boltanum. „Við metum allar fjárfestingar út frá gögnum og forsendum. Miðað við okkar greiningar buðum við það verð sem við töldum skynsamlegt og treystum okkur í – en annað fyrirtæki bauð hærra. Við höfum því ákveðið að beina fókusnum annað.“
Lesa má viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.