Ný ríkisstjórn hefur bryddað upp á þeim nýmælum að óska eftir hagræðingar- og sparnaðartillögum frá kjósendum landsins nú þegar þeir eru nýbúnir að ganga í gegnum kosningar. Ef marka má fréttir þá rignir tillögum inn í samráðsgátt stjórnvalda þó að sumir kjósendur spyrji eðlilega hvort að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki haft plan þegar þeir gengu til kosninga.
En tökum viljann fyrir verkið og vissulega er hægt að hagræða og lækka kostnað í opinberum rekstri eins og oft hefur verið vikið að hér í pistlum. Undirtektirnar í samráðsgáttinni sýna að landsmenn vilja gjarnan hagræða hjá hinu opinbera en hafa má hugfast að halli ríkissjóðs nemur nú 2% af landsframleiðslu og Ísland verið í efstu sætum útgjalda hin opinbera. Til samanburðar er hann 14% hjá Evrópusambandinu sem sama ríkisstjórn vill nú ganga inn í, væntanlega til að geta kynnt þeim íslenska sparnaðar- og hagræðingarhagstjórn!
160 stofnanir og 60 sveitarfélög
En þegar kemur að hagræðingu má hafa hugfast að það eru næstum 160 stofnanir á Íslandi, flestar litlar og fámennar. Þá eru ótalin opinber hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða lögaðilar sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins. Sjálfstæðar stjórnsýslunefndir telja svo á sjöunda tuginn.
Þá má minna á að sveitarfélögin í landinu eru rúmlega 60 sem kallar á samsvarandi fjölda bæjarstjóra og bæjarstjórna. Sveitarfélögin hafa stundum sameinast um rekstur slökkviliðs en virðast ekki geta hugsað sér að reka sameiginlega bæjarskrifstofu. Hugsanlega óttast Hafnfirðingar, Garðbæingar eða Kópavogsbúar að glata sjálfstæði sínu við sameiningu! Víða eru augljós tækifæri en á Vestfjörðum eru til að mynda átta sveitarstjórnir og rúmlega 7000 íbúar.
Eitt prósent hagræðing gæti skilað 20 milljörðum
En ef ríkisstjórnin meinar eitthvað með að hagræða í opinbera rekstrinum erum við að ræða þessar tölur á ársgrundvelli, miðað við rekstur 2023. Ríkissjóður velti 1.407 milljörðum króna og sveitarfélögin 590 milljörðum. Þetta gera næstum 2.000 milljarða króna í rekstur hins opinbera, sé miðað við tölur ársins 2023. Eins prósents hagræðing skilaði sem sagt 20 milljörðum króna á ári, svo dæmi sé tekið.
Þjóðin vill hagræða
Árið 2025 er áætlað að útgjöld íslenska ríkisins verði um 1.550 milljarðar króna eða 16 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu, sem skiptast í grófum dráttum í laun og rekstrarkostnað, fjárfestingar, tilfærslur og bætur. „Því er til mikils að vinna. Með hagsýni í rekstri ríkisins förum við betur með fé og sköpum þar með tækifæri til að efla opinbera þjónustu og aðra þætti samfélagsins um land allt,“ segir í samráðsgátt stjórnvalda. Fjölmiðlar flytja nú reglulega uppfærðar fréttir um hve margar tillögur berast inn en innan við sólarhring eftir að samráðsgáttin opnaði voru komnar yfir 1.100 umsagnir. Þjóðin vill hagræða!
Á að miða við hlutfall landsframleiðslu?
Til þessa höfum við vanist því að ríkið taki stöðugt meira til sín af landsframleiðslunni og að opinberum starfsmönnum fjölgi stöðugt. Árið 2023 tók hið opinbera til sín 45,5%, sem var heldur lægra hlutfall en árið áður, þegar hið opinbera tók 46,6%. Þetta stafar þó ekki af því að hið opinbera hafi verið á útgjaldabremsunni, heldur vegna þess að landsframleiðslan óx hratt.
Því má segja að þróunin hafi verið jákvæð, en hlutfallið ískyggilegt, því 45,5% þýðir að nærri önnur hver króna sem verður til í landinu fer til hins opinbera.
Samfylkingin búin að skipta um skoðun?
Þegar svo er komið ætti að vera ástæða til að staldra við, stíga á útgjaldabremsuna og gera allt sem unnt er til að skilja meira eftir í vösum skattgreiðenda. Þetta vissu ríkisstjórnarflokkarnir og tóku þó ekki undir umræðu um hagræðingu í kosningabaráttunni. Rifja má upp að í kosningabæklingi Samfylkingarinnar kom fram að kosningaloforð hans feli „í sér aukin rekstrarútgjöld upp á u.þ.b. 1,75% af vergri landsframleiðslu“.
Þetta eru gríðarleg viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð, nánar tiltekið um það bil 77 milljarðar króna. Það er svo svimandi tala að erfitt er að skilja hana, en til að setja hana í samhengi við heimilisbókhaldið, þá eru þetta 200.000 krónur á mann hér á landi á ári, unga sem aldna, starfandi og ekki. Fyrir fjögurra manna fjölskyldu þýðir þetta 800.000 krónur að meðaltali á ári. Er það ætlun forsætisráðherra núna að spara fyrir þessum útgjöldum? Er það ekki dálítill umsnúningur á ekki lengri tíma?