c

Pistlar:

3. júní 2024 kl. 10:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Efnahagslegar raunir í kjölfar forsetakosninga

Íslendingar hafa kosið sér forseta sem mun taka við embætti eftir tvo mánuði og hugsanlega mun nýr forseti fá stjórnarkreppu í morgungjöf því ljóst er að ríkisstjórnin á erfiða tíma fyrir höndum. Ríkisstjórnarsamstarf þriggja flokka var talið velta á forsætisráðherranum fyrrverandi, Katrínu Jakobsdóttur, sem lengst af var mun vinsælli en ríkisstjórnin sem hún stýrði. Hún virtist hins vegar draga með sér óvinsældir stjórnarinnar inn í forsetabaráttuna og að endingu vildi aðeins um fjórðungur þjóðarinnar hana sem forseta. Að sumu leyti merkileg niðurstaða þegar horft er til þess að lengi vel naut Katrín trausts og tiltrúar almennings og var sögð vera límið í ríkisstjórninni sem mynduð var þvert á flokkslega hagsmuni eins og þeir birtast í hugmyndafræði stjórnarflokkanna. En niðurstaðan núna er áminning um að það er erfitt að safna innistæðum hjá kjósendum.kata

Undanfarnar vikur hefur landstjórnin verið í skjóli en framundan er stutt þing þar sem þarf að ljúka málum sem án efa reyna á stjórnarsamstarfið. Nægir þar að nefna breytingar á lögum um hælisleitendur og innflytjendur, ákvörðun um hvalveiðar og meðferð frumvarps um fiskeldi í sjó. Öll þessi mál ættu að vera hluti af stefnumótun til langs tíma en eru eigi að síður stöðugt í smáskammalækningu stjórnmálanna og undir árásum pólitískra upphlaupa og lobbýista. Katrín er frambærileg manneskja og hefur þroskast mikið í sínum stjórnmálum en að endingu var það eðlislæg óvild vinstri manna sem kom í bakið á henni. Þeim virðist ekki áskapað annað en að drepa yndið sitt.

Vanþroskuð stjórnmál

Öll þessi mál sýna að íslensk stjórnmál eru að mörgu leyti vanþroskuð og eiga erfitt með að takast á við mál sem krefjast úrlausnar sem byggist á yfirferð og vandlegri greiningu og einhverskonar sameiginlegri sýn. Ekki er langt síðan allir stjórnmálaflokkar Danmerkur tóku þátt í að breyta öryggisstefnu landsins í ljósi ógna frá Rússlandi. Allir flokkarnir tóku svo þátt í að kynna stefnuna og útfærsluna fyrir almenningi. Er til of mikils mælst að íslenskir stjórnmálamenn beiti svipuðum nálgunum, til dæmis þegar kemur að málefnum hælisleitenda? Þá meðal annars til að tryggja íslenska velferðakerfinu skjól í nokkur ár á meðan verið er að vinna úr því álagi sem óheft stefna til þessa hefur kallað yfir okkur?bessastaðir

En það verður ekkert velferðakerfi ef efnahagsmálin eru ekki í lagi. Nú blasir við að loðnubrestur setur sterkan svip á þjóðhagsreikninga fyrsta ársfjórðungs. Þannig skrapp landsframleiðsla saman um 4% milli ára og er fjórðungurinn sá fyrsti í þrjú ár þar sem samdráttur mælist. Útlit er fyrir hægan hagvöxt í ár þó hafa megi væntingar um að vöxturinn glæðast eftir ekki svo langan tíma. En það eru víða neikvæð teikn í efnahagslífinu og ekki má mikið út af bregða til þess að óstöðugleikaöfl vinnumarkaðarins fari að byrsta sig. Verðbólga er þrálátari en menn væntu og er mjög eyðileggjandi enda finna heimili landsins fyrir verðlagshækkunum. Heimatilbúinn vandamál á íbúðamarkaði, þar sem stefnuleysi og skortur á lóðum ræður ríkjum, er að valda miklum vandamálum.

Sáralítill hagvöxtur og aðlögun

Fjárfesting er enn talsverð en teikn eru á lofti um að erfiðleikar fyrirtækja eigi eftir að koma fram í gjaldþrotahrinu, þá sérstaklega í veitingageiranum og ferðaþjónustunni. Á sumum sviðum getur því orðið sársaukafull aðlögun og við erum að sjá hópuppsagnir hjá fyrirtækjum eins og Icelandair. Vaxtastigið í landinu er atvinnulífi og heimilunum erfitt. Hlutabréfamarkaðurinn hefur verið fjárfestum andsnúin og allt birtist það með skýrum hætti í því að nýleg tilraun til að skrá Íslandshótel á markaðinn mistókst algerlega. Það var íslenskum fjármálamarkaði og ferðaþjónustunni stærra áfall en margir átta sig á.

Í nýbirtri þjóðhagsspá Íslandsbanka er því spáð að hagvöxtur mælist 0,9% á þessu ári. Það er býsna hægur vöxtur í sögulegu tilliti og árið markar í raun hagsveifluskil þótt líklega verði ekki samdráttur á ársgrundvelli. Þróun innan ársins verður væntanlega spegilmynd af þróun síðasta árs í þeim skilningi að vöxtur verður lítill framan af en aukinn þróttur færist síðan í neyslu og fjárfestingu þegar lengra líður á árið segja þeir Íslandsbankamenn. Guð láti gott á vita segja efahyggjumenn en vonandi hafa stjórnmálamenn landsins gæfu til að auka ekki á hina efnahagalegu erfiðleika sem eru framundan.