c

Pistlar:

4. júní 2024 kl. 13:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stóriðjuöldin - til góðs eða ills?

Það er stundum undarlegt að hlusta á þá umræðu að stóriðja og virkjanir hafi litlu skilað til íslenska þjóðarbúsins en nú styttist í að það verði 60 ár síðan Íslendingar hófu virkjanaframkvæmdir á Þjórsársvæðinu og stóriðjuöldin hélt innreið sína. Rifja má upp að álverið í Straumsvík var fyrsta stóriðjuframkvæmdin á Íslandi og með því hófst í raun skeið stórframkvæmda hér á landi.orka1

Um líkt leyti höfðu útflutningstekjur landsmanna fallið um fjórðung vegna hvarfs síldarinnar en fram að því var sjávarútvegur eina útflutningstekjustoð landsmanna. Tvö mestu síldveiðiár Íslandssögunnar, 1965 og 1966, námu síld og síldarafurðir yfir 40% af útflutningstekjum landsins og talið var að 4% landsmanna hefðu unnið við að afla þeirra. Og svo hvarf hún bara. Engum duldist að Íslendingar voru fangar einhæfrar atvinnustefnu og gætu aldrei reist nútímasamfélag í takt við nágrannaþjóðir okkar ef ekki yrði breyting á því. Það var gert með myndarlegum hætti og fyrir tæplega 20 árum var svo komið að OECD varaði Íslendinga við því að álútflutningur væri að verða of hátt hlutfall útflutnings frá landinu. Uppbygging ferðaþjónustunnar hefur síðan orðið til að breyta því.

Búrfellsvirkjun var reist með lán frá Alþjóðabankanum sem krafðist þess að bandarískir verkfræðingar sæju um hönnun og hefðu yfirumsjón með verkinu. Sem betur fer voru Íslendingar í stakk búnir til að læra af þeim verkefnum sem hingað bárust og með hverri virkjuninni á Þjórsársvæðinu færðist meira af umsjón og hönnun í hendur íslenskra verkfræðinga. Í dag geta Íslendingar hannað og reist eigin virkjanir.

Undirstaða undir verkfræðilega þekkingu

Afrakstur þessa er sá, að við höfum byggt upp orkuiðnað sem veitir fjöldamörgum vellaunuð störf. Einnig höfum við fært nýja þekkingu inn í landið og segja má að stóriðjuframkvæmdirnar og þó sérstaklega virkjanir þeim tengdar hafi sett undirstöðu undir verkfræðiþekkingu landsmanna. Flestar stærstu verkfræðistofur landsins í dag hafa eflt starfsemi sína að stórum hluta á slíkum verkefnum. Við Íslendingar urðum verkfræðilega sjálfstæðir í kjölfar þessara framkvæmda. Það var síður en svo sjálfgefið að þetta yrði svona en sem betur fer vorum við í stakk búin til að nýta okkur framkvæmdirnar með þessum hætti. Utan á áliðnaðinn einan hefur síðan hlaðist annar þekkingariðnaður og afleidd störf teljast í þúsundum.

Allt hefur þetta skapað mikinn arð og styrkt atvinnulíf og efnahag landsins. Svo mjög að við erum á sumum þessum sviðum farin að flytja út þekkingu á sviði orkuiðnaðar. Það þarf ekki að taka fram að öll þessi vinna skapar miklar tekjur og störf sem greiða háa skatta til samfélagsins. Á seinni árum hefur reynst nauðsynlegt að rifja þetta upp í umræðu um að af þessu stóriðjubrölti hafi lítið sem ekkert skilað sér til þjóðarbúsins. Það má vissulega velta fyrir sér fyrirkomulagi ýmissa samninga en stærri myndin breytist ekki, af þessu hefur skapast mikill hagur fyrir land og þjóð. Og þá er ekki tekið tillit til verðmætis Landsvirkjunar sem hefur vaxið og dafnað í kringum þessa samninga og er farin að greiða háar arðgreiðslur í ríkissjóð á hverju ári.straumsv

Villandi málflutningur

Enn í dag er tekist á um þessa sögu og nýlegar greinar og ummæli manna eins Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi skattstjóra, og Stefáns Ólafssonar, prófessors emerítus, um að efnahagslegur ávinningur af þessum framkvæmdum hafi verið sorglega lítill eru furðuleg og beinlínis villandi. Það er til dæmis furðulegt að sjá Indriða gagnrýna stóriðju fyrir að stuðla að „einhæfu atvinnulíf á lágu menntunar- og tæknistigi.“

Hvernig á að segja þessa sögu? Þegar fyrstu stóriðjusamningarnir voru gerðir var enginn áhugi á að setja niður álver á Íslandi. Það varð að ganga ansi langt til að fá stjórnendur Alusuisse til að gefa því gaum að fjárfesta á Íslandi. Það er því fráleit nálgun að bera þá samninga saman við veruleikann í dag. Allur heimurinn upplifir nýja stöðu í orkumálum og eftirspurn eftir umhverfisvænni orku á Íslandi hefur aukist. Þá er Ísland ekki eina landið í heiminum til að gera sérstaka fjárfestingasamninga um stórframkvæmdir. Undanfarið hafa stór gagnaver hina alþjóðlegu netfyrirtækja risið á hinum Norðurlöndunum með sérstökum fjárfestingasamningum.

Staðreyndin er sú að með nálgun þeirra Indriða og Stefáns hefði aldrei orðið til stóriðja eða orðið af neinum virkjanaframkvæmdum. Við ættum þá ekki Landsvirkjun eða rafmagnsinnviði sem fer nálægt því að slá upp í hálfa landsframleiðslu í dag að verðmæti. Þessi uppbygging er í mörgum tilfellum forsenda fyrir því að við getum nú og í nánustu framtíð sótt ýmsa atvinnustarfsemi sem er orkufrek og þarf að búa við raforkuöryggi. Þess utan skapa þessir innviðir forsendur fyrir því að við getum farið mun hraðar í þau orkuskipti sem framundan eru en ef þeir væru ekki til staðar. Íslenskt nútímasamfélag væri ekki eins og það er ef ekki hefðu komið til þessar framkvæmdir.