c

Pistlar:

12. júní 2024 kl. 20:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Amsterdam: Frjálslyndasta borgin

Hollendingar eru þjóða fremstir í að nema land úr sjó en um tveir þriðju landsins er undir sjávarborði. Amsterdam, hvers nafn vísar til stíflu, er þremur metrum undir sjávarmáli og Schiphol flugvöllur tveimur metrum betur. Einu löndin sem komast í hálfkvisti við Holland í því að nema land úr sjó eru smáríki eins og Mónakó og Singapore en um 25% af furstadæminu við Miðjarðarhafið er á landfyllingum enda freistandi að ráðast í slíkar framkvæmdir þegar þar er að finna hæsta fermetraverð í heimi.amsterdam2

Af þessu sést að undirstöður Amsterdam er einstakar enda er helsta einkenni borgarinnar skurðir sem eru þvers og kruss um alla borg og tengja saman einstaka borgarhluta og hafnarsvæði. Um 800 brýr eru á þessum skurðum sem borgin er byggð við. Hluti byggðarinnar er reist á staurum eins og Feneyjar og helsta vandamálið er þegar súrefni kemst að staurunum, en þá byrja þeir að fúna. Amsterdambúar leysa það eins og annað.

Pistlaskrifari keypti bók um Amsterdam í frábærri bókabúð, The American Books Center, þar sem enskar bækur eru seldar á þremur hæðum í nánast ótrúlegu úrvali. Sannkallað himnaríki bókaáhugamannsins. Bókin Amsterdam. A History of the World’s Most Liberal City eftir bandaríska blaðamanninn Russell Shorto er í upplýsandi rabbtakti og upplifun hans sem Bandaríkjamanns af frjálslyndi Amsterdambúa er áhugaverð. Hann fléttar þannig saman sögu og eigin upplifun af Amsterdam nútímans þar sem hann meðal annars undrast hvernig Rauðu ljósa hverfið og vændiskonurnar hafa orðið hluti af bæjarlífinu. Amsterdam búar verða seint sakaðir um að vera teprulegir í þeim málum.amsterdam

Sofið undir vatnsborðinu

Við leigðum litla stúdíóíbúð í kjallara húss frá 1657 á Zandhoek veg við Westerdok í Prinseneiland. Húsið er fimm hæðir til viðbótar og glæsilega uppgert eins og húsaröðin öll. Verð á landi og tilkostnaður við gerð þess kallar á að húsin séu byggð á hæðina. Eigendur hússins voru hjón með börn á aldrinum 12 og 14 ára og höfðu sett mikla vinnu við að bæta húsið sem var hluti af fallegri húsaröð, öll glæsilega uppgerð.

Eigandinn sagði okkur að kjallarinn hefði verið grafin út og mér sýndist hann vera aðeins undir vatnsborði síkisins fyrir utan. Kjallarann leigja þau til ferðamanna og reyndust áhugasamir spjallarar um borgina sína. Þarna á svæðinu voru gömul hús eins og við bjuggum í í blandi við nýrri fjölbýli. Vel hafði tekist til við að blanda saman því nýja og gamla og hverfið hlýlegt og notalegt. Þaðan var um 10 mínútna gangur að göngugötunni Haarlemer Houttuinen sem rann síðan saman við aðrar verslana- og göngugötur og niður í miðbæ Amsterdam var því um hálftíma ganga. Við höfðum sama hátt á og vanalega og borðuðum á veitingastöðum í nágrenninu og tókst vel til þó verðlag væri talsvert hærra en í Portó sem varð að umræðuefni hér í pistli fyrir stuttu.amsterdam3

Fæðingastaður kapítalismans

Að sumu leyti má segja að Amsterdam sé fæðingarstaður kapítalismans en þar er elsta kauphöll í heimi og þar var fyrsta almenningshlutafélagið skráð árið 1602 en það var hollenska Austur-Indíafélagið. Þetta má að hluta til rekja til viðhorfsbreytinga sem áttu sér stað í kringum siðaskiptin þegar afstaðan til atvinnurekstrar og vinnu breyttist. Samhliða nýttu Hollendingar sér siglingaþekkingu sína og hófu útrás til fjarlægra staða í landafundastemmningu sem var þó heldur hógværari en hjá öðrum ríkjum Evrópu.

Hollenska Austur-Indíafélagið var þannig fyrsta alþjóðlega stórfyrirtæki heims og það fyrsta sem gaf út hlutabréf. Á hátindi sínum hafði það nánast völd á við sjálfstætt ríki eins og Breska Austur-Indíafélagið sem var stofnað tveimur árum áður. Þessi félög ráku eigin flota og háðu stríð við önnur ríki, gáfu út eigin mynt og stofnuðu og stýrðu eigin nýlendum. Félagið var í rekstri í 200 ár og mótaði sögu Hollands en þó ekki síður Amsterdams.

Það er reyndar svo að síldin í Norðursjó var örlagavaldur fyrir Amsterdambúa því fljótlega upp úr aldamótunum 1400 hófu þeir að sækja út á sjó og vinna og salta síld sem var þar í miklu magni og reyndist eftirsótt vara. Skipin stækkuðu og þörfin fyrir samrekstur og sameiginlegar varnir lagði grunn að borgarsamfélaginu í Amsterdam. Í dag býr tæplega milljón manns í borginni en hún er ein sú skemmtilegasta til að heimsækja.