c

Pistlar:

15. júní 2024 kl. 13:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskeldið sem klýfur þjóðina

Við venjulegar aðstæður ættu landsmenn að geta glaðst yfir því að útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 3,2 milljörðum króna í maí síðastliðnum en það er hvorki meira né minna en 80% aukning frá sama mánuði í fyrra. Á fyrstu fimm mánuðum ársins er verðmætið eldisafurða komið í 22,2 milljarða króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Í greiningu Radarsins, sem SFS stendur fyrir, er bent á að útflutningsverðmæti eldisafurða á fyrstu fimm mánuðum ársins hafi aldrei verið meira. Verðmæti eldisafurða er fyrir vikið rúmlega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu fimm mánuðum ársins og um 6% af verðmæti vöruútflutnings alls á tímabilinu. Þessi hlutföll hafa aldrei verið hærri og munu væntanlega halda áfram að hækka. Fiskeldi er orðið mikilvæg útflutningsgrein á Íslandi.fiskeldi

En það fer ekki framhjá neinum að mikill og djúpstæður ágreiningur er um áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Fyrir Alþingi er frumvarp um lagareldi. Í samráðsgátt stjórnvalda segir þetta um tilgang frumvarpsins: „Markmið frumvarpsins er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til verðmætasköpunar innan ramma sjálfbærrar nýtingar og með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagt er til að innleiddar verði þær aðgerðir sem fram koma í drögum að stefnu fyrir lagareldi sem hafa m.a. það að markmiði að lagareldi verði stjórnað á grundvelli skilgreindra mælikvarða sem stuðla þar með að því að greinin hafi sem minnst áhrif á umhverfi sitt, vistkerfi eða villta stofna, og sem tryggja að dýravelferð og sjúkdómar séu með besta hætti á heimsvísu.“

306 umsagnir við frumvarpið hafa borist þegar þetta er skrifað, mjög margar samhljóða og samræmdar. Augljóslega vekur frumvarpið sterk viðbrögð. Það er athyglisvert sem kemur fram í umsögn SFS að í 138 lagagreinum frumvarpsins sé vísað 118 sinnum til heimildar ráðherra til setningar reglugerðar. Ráðherra mun sitja uppi með mikla stjórnsýslu vegna málsins.

Áróðursstríð ólíkra hagsmuna

Almenningur verður var við mikið áróðursstríð um framvindu greinarinnar. Fiskeldisfyrirtækin og hagsmunasamtök þeirra birta stórar auglýsingar í fjölmiðlum og verja miklum fjármunum í kynningar. Sama má segja um Íslenska náttúruverndarsjóðinn (Icelandic Wildlife Fund) sem er kostaður af veiðiréttareigendum. Talsmenn þessara ólíku hagsmunasamtaka, Heiðrún Lind Marteinsdóttir hjá SFS og Jón Kaldal hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum eru dugleg að mæta í fjölmiðlaviðtöl og túlka sjónarmið skjólstæðinga sinna.

Þetta mál er að sumu leyti prófstein á hvernig Íslendingar skipuleggja atvinnulíf í landinu og hvernig ólík sjónarmið fá að vegast á. Fiskeldi er umsvifamikil atvinnugrein í mörgum löndum og framleiðir matvæli fyrir ólíka kaupendahópa. Eins og á við um margar atvinnugreinar þá á fiskeldi við margvísleg vandamál að etja. Það sama má reyndar einnig segja um veiðiréttareigendur sem um langt árabil hafa stöðugt hækkað verð á vöru sinni þó að líffræðilegar forsendur gefi ekki tilefni til þess. Veiði hófst að dragast saman í íslenskum laxveiðiám löngu áður en sjókvíaeldi hófst. Veiðileyfi í fæstum þeirra eru á verði sem íslensk alþýða ræður við.fiskeldi2

Það breytir því ekki að það má hafa áhyggjur af ýmsu er lýtur að fiskeldi í sjó. Það er enda engin ástæða til að gefa neinn afslátt af kröfum til rekstrarins en það er annað en að banna hann hreinlega eins og sumir virðast gera kröfur um. Við höfum séð að margt getur farið úrskeiðis og þó sumt megi skrifa á reynsluleysi og vanþekkingu á aðstæðum þá er mikilvægt að fiskeldisfyrirtækin nái tökum á starfsemi sinni og rekstrarleyfi miðist við það. Það er enda engin ástæða til að auka fiskeldi að einhverju verulegu leyti á meðan ekki hefur fengist sannfærandi reynsla á að menn ráði við verkefnið.

Flýtum okkur hægt

Því er það svo að þó að fiskeldi í sjó sé orðin mikilvæg atvinnugrein og geti orðið enn mikilvægari er ástæðulaust að flýta sér um of. Vitaskuld reka hagsmunaaðilar í greininni eftir því að fá að stækka rekstrareiningar, arðsemin eykst með því. Taka má undir með umsögn sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum sem benda á að nauðsynlegt sé að lagareldi sé byggt á vísindalegum grunni. „Að vísindalegri nálgun sé beitt við ákvarðanir sem varða áhrif á umhverfi, vistkerfi, dýravelferð og sjúkdóma en ekki pólitískri nálgun þar sem þrýstingur hagsmunaaðila getur haft áhrif á ákvarðanir.“ Allt er þetta satt og rétt.

Það er vonandi samdóma álit allra sem að málinu koma að það krefjist vandaðrar afgreiðslu þar sem reynt er að koma til móts við sjónarmið sem flestra. Ef vel tekst til getur fiskeldi í sjó reynst mikilvæg stoð fyrir íslenska hagkerfið og eflt mjög byggðir sem eiga undir högg að sækja. Um leið er óásættanlegt að hætta íslensku lífríki fyrir stundarhagnað. Við verðum að fikra okkur áfram með uppbyggingu þessarar atvinnugreinar og gera það í takt við þekkingu og vísindi.