Í gær átti ég þess kost að fara á sjávarútvegssýninguna sem haldin var í Smáralind í Kópavogi. Það er alltaf fróðlegt að fara á sjávarútvegssýningar og sjá hvað menn hafa fram að færa í nýjustu tækni og búnaði. Sýningin var vel heppnuð og margt að sjá sem vekur forvitni enda mörg fyrirtæki að kynna vörur sínar. Að þessu sinni var ég með gest með mér, mann frá Filippseyjum, sem meðal annars hefur starfað í ráðuneyti sjávarútvegsmála þar í landi. Hann þekkir ágætlega til íslensks sjávarútvegs eftir að hafa starfað fyrir fyrirtæki hér á landi að þróun nýs hugbúnaðar.
Það getur verið gaman að upplifa hlutina með augum gestsins og satt best að segja var félagi minn standandi hissa á því sem hann sá á sýningunni. Hann undraðist þá tækni sem var verið að kynna þar og þann búnað sem íslenskur sjávarútvegur notar. Honum fannst hann nánast kominn til annarrar plánetu miðað við það sem hann átti að kynnast af heima fyrir. Við Íslendingar tökum þessu sem sjálfsögðum hlut og dags daglega er íslenskur almenningur ekki að setja sig mikið inn daglegan rekstur og umgjörð sjávarútvegsins. Margir hafa það eitt að segja um sjávarútveginn að óska eftir því að hann greiði hærri auðlindagjöld.
Gjörnýting fisksins er undrunarefni
Það að útskýra sjávarútvegskerfið og fyrirkomulag fiskvinnslu, sölu og útgerðar fyrir útlendingum er alltaf forvitnilegt. Sérstaklega þegar bent er á að Íslendingar hafi ekki efni á öðru en að reka sjávarútveg með hagnaði. Efnahagur landsins leyfir ekki fjárhagslega tilfærslu til sjávarútvegsins, svo mikilvægur er hann í íslenska hagkerfinu.
Nú er svo komið að íslenskur fiskur er eftirsóttur um heim allan enda með margfalt minna kolefnisspor en annað dýraprótein, veiddur með sjálfbærum hætti, heilnæmur og umhverfisvænn og markar því undirstöðuna í fæði þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum. Útlendinga rekur í rogastans þegar þeir eru upplýstir um nýtingu á íslenskum fiski og að stefnt sé að því að nýta hann til fullnustu.
Loðnan og makríllinn bregðast
En íslenskur sjávarútvegur hefur orðið fyrir nokkrum búsifjum þetta árið þó að ekki sé um það mikið rætt. Hér var fyrir stuttu fjallað um loðnuvertíðina sem ekki varð en einnig hefur veiði á makríl verið sáralítil. Þetta hefur eðlilega áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna og hluthafar þeirra sitja uppi með tjónið.
En á sama tíma hefur nýjasta stoð sjávarútvegsins, fiskeldi, verið að sýna styrk sinn. Á síðasta ári var fiskeldið talsvert í fréttum vegna áfalla sem það varð fyrir vegna sýkinga, laxalúsar og stroks úr kvíum. En eftir þessi áföll í laxeldinu í fyrra hefur eldið gengið mjög vel síðan. Í gær var greint frá því í Morgunblaðinu að mikil afköst væru hjá laxavinnslunni Drimlu í Bolungarvík þar sem 125 tonn af eldislaxi fóru í gegnum vinnsluna á níu tíma vinnudegi. Þar er nú stórt sláturhús sem veitir mörgum atvinnu og flytur út afurðir til þriggja heimsálfa. Rétt eins og í íslenskum sjávarútvegi virðast gæðin núna framúrskarandi. Mjög hátt hlutfall laxins fer í fyrsta flokk eða um 97% frá áramótum. Það er mjög hátt á heimsvísu og lax úr einstaka kvíum fer upp í 99% í fyrsta flokk. Vonandi bendir þetta til þess að laxeldið sé að ná tökum á framleiðslunni.
Styður fiskeldið við krónuna?
Það er athyglisvert að skoða útflutningsverðmæti eldisafurða sem nam rúmlega 3,4 milljörðum króna í ágúst samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Það er hátt í 60% aukning miðað við ágúst í fyrra á föstu gengi. Á fyrstu átta mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða þar með komið í 30,7 milljarða króna. Það hefur aldrei verið meira á tilgreindu tímabili og er um 22% aukningu að ræða frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi.
Samkvæmt upplýsingum frá SFS má reikna með að næstu mánuðir verði stórir þegar kemur að útflutningi á eldisafurðum, sér í lagi á laxi. Ef allt gengur eftir má reikna með að fiskeldi muni skila meiri gjaldeyristekjum í þjóðarbúið í ár en nokkru sinni fyrr. Það eru ánægjuleg tíðindi og vonandi að við getum horft á fiskeldi sem sterka og trausta útflutningsstoð. Ekki veitir af.