c

Pistlar:

25. september 2024 kl. 10:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sænskar glæpaklíkur gera strandhögg

Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra upplýsti fyrir stuttu að sænsk­ir glæpa­hóp­ar hefðu verið send­ir gagn­gert til Íslands til að fremja af­brot. Þar var dómsmálaráðherra að vísa til atviks þegar kveikt var í bíl lög­reglu­manns fyr­ir utan heim­ili hans í ág­úst á síðasta ári. Það atvik fól í sér ákveðna stigmögnun í skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi. Nú liggur fyrir að gerend­ur í mál­inu voru að vinna eft­ir pönt­un frá sænsku glæpa­gengi en málið var á sín­um tíma rann­sakað sem hefnd­araðgerð gagn­vart þess­um til­tekna lög­reglu­manni.aaa

Í samtali við Morgunblaðið upplýsti Run­ólf­ur Þór­halls­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá grein­ing­ar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, að það væri staðfest að hingað hefði komið hópur manna gagngert til að fremja þennan verknað. „Málið sem við upp­lýst­um dóms­málaráðherra um var þannig að verknaður­inn var í raun pantaður af glæpa­hópi í net­heim­um. Þá ferðast menn oft yfir landa­mær­in í þeim til­gangi að fremja af­brotið,“ seg­ir Run­ólf­ur og greindi um leið frá því að pönt­un­in hafi komið frá Kronogård-geng­inu í Troll­hatt­an sem hann sagði vera fjölþjóðlegt glæpagengi stýrt af Palestínu­mönn­um.

Hið alræmda Ali Khan-glæpaklan

Það er ljóst að umrætt gengi er hið alræmda Ali Khan-glæpaklan (sumir vilja tala um fjölskyldu) sem heitir Familjen. Við verðum að ætla að þetta sé einstakt tilfelli en þó eru það nokkur tíðindi að einhver af sænsku glæpaklíkunum skuli tengjast refsimáli hér á landi. Um fjölskylduna hefur mikið verið fjallað og meðal annars skrifuð umtöluð bók um hana þó að varla sé eingöngu hægt að tengja hana við Palestínumenn en hún hefur sterkar líbanskar tengingar.

Það er þekkt í Svíþjóð að Kronogården, sem er umráðasvæði Ali Khan-glæpaklansins, sé svokallað „no-go zones“ eða svæði sem fólki er ráðlagt að leggja ekki leið sína til. Allir vita að Ali Khan-fjölskyldan í Gautaborg hefur margvísleg tengsl við glæpi og glæpatengsl. Fólk úr fjölskyldunni er hluti af glæpasamtökum í Frölunda, Hjällbo og Hammarkullen. Segja má að þessir hlutar fjölskyldunnar séu glæpasambönd í sjálfu sér.

Pistlaskrifari spurði Íslending í Gautaborg um þessar síðustu vendingar. „Það er ekki skrifað mikið um þessar klíkur frekar en neitt annað sem segir frá slæmum afleiðingum af innflytjendastefnu Svíþjóðar síðustu áratugina. Það er mikil þöggun þó að það sé örlítið farið að segja frá. Meðlimir þessara glæpaklíka eru að lang, langmestu leyti ekki Svíar.“

Sjónvarpsmaðurinn í skotheldu vesti

Það vakti eftirtekt á síðasta ári þegar spurt var í sænskum fjölmiðlum hver réði yfirhöfuð yfir Kronogården og því svarað að augljóslega væri það ekki Trollhättan sveitarfélagið eða lögreglan. Það varð öllum ljóst eftir að SVT sjónvarpsstöðin gat ekki sjónvarpað umræðu sinni þaðan en til stóð að senda út umræðuþáttinn „Sverige möts.“ Fréttamaðurinn Joakim Lamotte mætti í skotheldu vesti en andrúmsloftið var strax spennuþrungið en glæpaklíkurnar amast eðlilega mjög við fjölmiðlum.aa

Eins og áður sagði er Ali Khan-glæpaklanið vel þekkt í Svíþjóð þar sem fjölmörg glæpagengi, flest með erlendar tengingar, takast á. Það var margverðlaunaður blaðamaður, Johanna Bäckström Lerneby, sem skrifaði umdeilda bók, Familjen, um umsvif fjölskyldunnar, og lesendur undruðust að slíkt fyrirbæri fengi að þrífast óáreitt í Svíþjóð. Glæpaklanið vill ekki gangast við því að starfa sem mafía (svo!) og kalla sig vandamálsleysara (s. problemlösare) í samtali við fjölmiðla.

Um stutt skeið var hægt að segja að fjölmenning ríkti í hinum ýmsu hverfum Gautaborgar en smám saman hafa einstaka þjóðir eða ættbálkar tekið yfir hverfin og þau þannig í raun orðið einsleit og ótrygg fyrir utanaðkomandi. Það gerðist í Trollhättan og fátt í þessum hverfum minnir á þá mynd sem menn höfðu af sænsku þjóðfélagi áður en straumur innflytjenda hófst. Í raun er búið að skipta um fólk og trú og réttarríkið á undir högg að sækja eins og margoft hefur verið vikið að hér í pistlum.

Ný tegund af réttlæti

Johanna segir í bók sinni að á svæðum þar sem samfélagið eða ríkisvaldið brestur séu einfaldlega aðrir tilbúnir að taka að sér að koma á sinni tegund af „réttlæti“ og taka þannig í raun völdin. Eins og Al Khan-fjölskyldan sem er nú talin stjórna Angered, um það bil 60 þúsund manna hverfi í Gautaborg. Í meira en áratug hefur Johanna fylgt fjölskyldunni og skoðað áhrif ofbeldis á samfélagið og vanmáttugar tilraunir yfirvalda til að halda því saman og reyna að ná stjórn á samfélaginu sem virðist við það að liðast í sundur. Árið 2014 komu meðlimir gengisins í veg fyrir að unnt væri að kjósa á kjörstað í hverfinu sem sýnir glögglega að þeir eru farnir að hafa áhrif á hina lýðræðislegu virkni samfélagsins. Hér til hliðar má sjá mynd af Johönnu taka viðtal við Hashem Ali Khan sem er óformlegur leiðtogi fjölskyldunnar.aa

Þá er einnig til forvitnileg heimildarmynd um gengjastríðið sem nú hefur stað í á annan áratug sem heitir „Gängkrigens tid“ eða Tími gengjastríðanna. Þar er um að ræða heimildarmynd í tveimur hlutum sem er talin gefa einstaka innsýn í gengjastríðið í Biskopsgården sem hefur haft í för með sér dráp á að minnsta kosti 20 manns, þar af tveimur börnum. Blaðamaður að baki þáttunum er Karwan Faraj, sem ólst upp í áðurnefndu úthverfi Angered í Gautaborg en hann hlaut Grand Journalist Prize árið 2019. Hér er aftur ítrekuð áskorun til Ríkissjónvarpsins að sýna þessa þætti.