„Það er krefjandi að leiða alla demókrata saman. Við sögðum í Albany að þetta væri eins og að smala köttum,“ sagði Eric Adams borgarstjóri New York-borgar við flokkssystkini sín í Demókrataflokknum í upphafi kosningabaráttu Kamala Harris og varaforsetaefnis hennar, Tim Walz, ríkisstjóra Minnesota. Við Íslendingar þekkjum vel söguna af erfiðleikum Jóhönnu Sigurðardóttur við að smala köttum á vinstri vængnum en þegar borgarstjóri New York-borgar lét þessi orð falla var fjöldi demókrata í New York samankominn í Harlem. Þar var Eric Adams á heimavelli sem gamall lögreglustjóri í borginni. Adams ákvað að halda þessari myndlíkingu úr dýraríkinu áfram og bætti við: „En við vitum öll að þessir kettir, jú, við eigum eina rottu. Og það snýst um að vinna baráttuna um Hvíta húsið.“
Allir skildu hver rottan var eða ættum við að segja að það sé sjálfur refurinn í hænsnakofanum, ólíkindatólið Donald Trump? Einhverjum þótti sem Eric Adams væri að reka þarna slyðruorðið af sér en hann var talinn tregur við að gagnrýna Donald Trump sem dugar alveg til að setja af stað vangaveltur í hinum taugaveiklaða heimi stjórnmálanna. Það er reyndar ekki með öllu rétt, því ekki er langt síðan Adams sagði að hið alræmda Rikers Island-fangelsi í borginni yrði „tilbúið“ fyrir Trump ef hann yrði dæmdur í fangelsi.
Hvor verður á undan í fangelsið?
Borgarstjórinn hefur sagt Trump mann sundrunar og hefur kennt „Trump repúblikönum“ um að hafa ekki stutt við víðtækar umbætur í innflytjendamálum. Adams hefur einnig oft gagnrýnt Trump úr sæti borgarstjóra. En einhverra hluta vegna er sagt að Eric Adams sé á skjön við vinstri væng Demókrataflokksins og flokkurinn hefur svo sem mörg herbergi. Adams var meira að segja einu sinni skráður sem repúblikani, sjálfsagt á þeim tíma þegar Donald Trump var demókrati! Reyndar hefur Donald Trump borið blak af Adams í fyrri vandræðum hans en fyrir rúmu ári komu fram ásakanir á hendur honum fyrir ósæmilega kynferðislega hegðun sem átti sér stað 1993. Trump tók það sem dæmi um misnotkun laganna.
En nú er Eric Adams kominn í mikil vandræði. Svo mjög að honum er líkt við annan skrautlegan borgarstjóra úr röðum demókrata, sjálfan Marion Barry, fyrrverandi borgarstjóra í Washington, sem afrekaði að vera sviptur embætti og dæmdur í fangelsi á níunda áratug síðustu aldar. Sagt var að partýin hans væru svo villt að meira að segja lögreglan treysti sér ekki til að hafa afskipti af þeim.
Adams var kosinn 110 borgarstjóri New York fyrir þremur árum, meðal annars út á loforð um að berjast gegn glæpum. Nú er hins vegar búið að birta honum ákæru og honum gefið að sök alls konar sviksamleg athæfi, meðal annars tengt lóðabraski og óeðlilegri fjármögnun kosninga. Engin leið er að segja hvernig það endar en sumir spyrja sig hvort hann verði á undan Trump í fangelsið á Rikers-eyju.
Ríkisútvarpið sagði í frétt sinni að „ótal spillingarmál hafa komið upp í tengslum við Adams og bandamenn hans síðustu vikur og mánuði þar sem lögregla hefur meðal annars lagt hald á síma lögreglustjóra borgarinnar, varaborgarstjórans, yfirmanns skólamála og annarra.“ Fullyrt er að margir úr þessum hópi hafi þegar sagt af sér.
Gæludýraát í Springfield
En aftur að köttum, og reyndar einnig hundum. Í forsetakappræðunum á ABC-sjónvarpsstöðinni fyrr í mánuðinum sagði Trump: „Í Springfield eru þeir að borða hundana. Fólkið sem kom inn, það er að borða kettina. Þeir eru að borða - þeir eru að borða gæludýr fólksins sem býr þar.“ Sem gefur að skilja vöktu ummælin mikla athygli en með þessu var Trump að benda á þann mikla fjölda innflytjenda sem hefur nánast tekið yfir þennan 58 þúsund manna bæ sem er staðsettur milli Columbus og Dayton í Ohio sem er þekkt sveifluríki. Reyndar svo mjög að frá árinu 1980 og fram til síðustu kosninga höfðu atkvæði í Ohio undantekningalaust fallið með sigurvegara forsetakosninganna. Eða allt þar til Joe Biden vann Trump.
Ohio er því mikilvægt í forsetakosningunum og nú hafa ríflega 15 til 20 þúsund innflytjendur frá Haiti hreiðrað um sig í þessum litla bæ í Springfield og horfur á að margir þeirra geti kosið. Athygli hefur vakið að innflytjendum hefur gengið greiðlega að fá ökuskírteini og hefur það verið tengt vilja demókrata til þess að gera þeim kleift að kjósa. Það sjá allir að atkvæðamagn innflytjendanna getur haft talsverð áhrif þegar svona mjótt er á munum. Því er jafnvel haldið fram að það sé í raun það sem Trump vildi draga fram með ummælum sínum.
Sannleikurinn fyrsta fórnarlambið
Það er fróðlegt að lesa hvernig fjölmiðlar brugðust við ummælum Trumps um ætlað gæludýraát í Springfield. Hafa má í huga að margir fjölmiðlar settu upp „staðreyndavakt“ á ummælum Trumps og dagblaðið Washington Post fullyrti að það hefði talið hvorki fleiri né færri en 30.573 rangfærslur í forsetatíð hans. Allir vita að svokallaðir meginstraumsmiðlar eru ekki elskir að Trump sem hefur frá upphafi stjórnmálaferils síns tekist á við hliðvarðahlutverk þeirra. Ritstjórn Washington Post neyddist síðar til að draga til baka og biðjast afsökunar á ýmsum fullyrðingum um Trump. Í þessu stríði var sannleikurinn líklega fyrsta fórnarlambið.
Umfjöllunin um Trump var mjög keimlík og flestir fjölmiðlar töldu sig eiga auðvelt með að sýna fram á að ummælin stæðust ekki. Flestir létu sér nægja að spyrja yfirvöld í Springfield sem svöruðu því til að engar skráðar upplýsingar væru til um gæludýraát. Félagslega meðvitaðir fjölmiðlar eins og breska blaðið Guardian fóru á stúfana og fengu félagsfræðinga í lið með sér til að sýna fram á að slík ummæli um undarlegt mataræði væru dæmigerð kúgunartæki og hefðu verið iðkuð öldum saman. Ýmsir sérfræðingar hafa tekið til máls af líku tilefni en hugsanlega ætlaði Trump sér annað með ummælum sínum.
X fyrir gæludýraát
Á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) fer fram allt öðruvísi umræða. Þar er póstað myndskeiðum af áti hunda og katta og í sumum tilfellum er því haldið fram að það sé frá Springfield. Pistlaskrifari man reyndar eftir stuttu myndskeiði frá Ítalíu þar sem reið kona talar yfir hausamótunum á innflytjanda frá einhverju Afríkuríki sem er að grilla dýr torkennilegrar tegundar í almenningsgarði. Konan telur augljóslega að gæludýr séu á matseðlinum. Þá hafa sjálfstætt starfandi fréttamiðlarar og bloggarar, sem eru fjölmargir í Bandaríkjunum, hafið eigin rannsóknir og sumir dregið annað fram en kemur fram í yfirlýsingu yfirvalda í Springfield. Í það minnsta er undirliggjandi talsverð óánægja með hve fjölgun innflytjenda er mikil enda leggur það augljóslega mikið álag á samfélagið.
Til að flækja atburðarásina enn frekar eru umræður á X um að Eric Adams hafi ekki komist í vandræði fyrr en hann hafi farið að efast um innflytjendastefnu demókrata. Það skyldi þó ekki vera, að hann sé meiri rasisti en Trump?