Drápið á Hassan Nasrallah, leiðtoga Hezbollah, markar þáttaskil í átökunum í Miðausturlöndum að mati margra sérfræðinga. Bæði Nasrallah og samtökin sem hann stýrði voru hert í áratuga átökum innan Líbanon, fyrst í stríði gegn Ísrael og síðar í Sýrlandi. Bæði Nasrallah og Hezbollah hafa verið öflug pólitísk og félagsleg öfl með mikil áhrif innan Líbanon og fyrir botni Miðjarðarhafsins þó að samtökin hafi verið stofnuð að frumkvæði Írana til að stunda hryðjuverkastarfsemi gegn Ísrael. Nú telja Ísraelsmenn sig geta gengið milli bols og höfuðs á samtökunum og næstu vikur geta orðið örlagaríkar fyrir framtíð Hezbollah eins og við fylgjumst með daglega.
Það er forvitnilegt að velta fyrir sér hugmyndafræði leiðtoga eins og Hassan Nasrallah og mikilvægt að skilja hana í tengslum við þá hugmyndafræði sem stýrir núna öfgafyllstu íslamistum Miðausturlanda. Segja má að Nasrallah hafi verið innblásinn af hinni nýju hugmyndafræði íslamista sem breiddist út um Miðausturlönd á seinni helmingi síðustu aldar. Einnig mun hann hafa sótt í kenningar líbanska klerksins Musa al-Sadr, fæddur í Íran 1928, sem reyndi einmitt að virkja sjíta í Líbanon til að styrkja stöðu trúarhreyfingarinnar í þessum heimshluta.
Í bók sinni Miðausturlönd - fortíð, nútíð og framtíð ræðir höfundurinn Magnús Þorkell Bernharðsson talsvert um hugmyndafræði þá sem íslamistar styðjast við og er það fróðleg lesning enda má segja að seinni tíma íslamismi móti mjög hugmyndaheim Araba, viðbrögð við vestrænum áhrifum og sýn þeirra á umheiminn. Að þessu hefur oft verið vikið í pistlum hér.
Barnakennarinn sem sá djöfulinn
Fyrst tiltekur Magnús Egyptann Sayyid Kutb (1906-1966) sem starfaði sem barnakennari og starfsmaður í menntamálaráðuneyti Egyptalands. Á stríðsárunum hafði hann byrjað að taka virkan þátt í starfsemi Bræðralags múslíma sem var einskonar stjórnarandstöðuafl í egypskum stjórnmálum. Þannig gagnrýndi Bræðralagið sérstaklega hversu höll ríkisstjórn Egyptalands var orðin undir vestræn áhrif sem voru talin varhugaverð af sanntrúuðum múslímum.
Kutb fór til Bandaríkjanna til námsdvalar. Þar varð hann fyrir kynþáttafordómum og það og önnur samskipti við Bandaríkjamenn urðu til þess að hann nánast umhverfðist. Kutb taldi að búið væri að snúa siðgæðinu á hvolf og djöfullinn sjálfur léki lausum hala í bandarísku samfélagi, skrifar Magnús. Þegar heim kom sagðist Kutb sannfærður um að ekkert væri að læra af Bandaríkjamönnum (og öðrum Vesturlandabúum). Frekar ættu íbúar Miðausturlanda að horfa inn á við og skapa sitt draumaland eftir eigin forskrift og leiðsögn Kóransins. Kutb er því með réttu kallaður faðir „Salafi-jihadista“, trúar- og stjórnmálakenningarinnar sem liggur til grundvallar hugmyndafræðilegum rótum alþjóðlegra jihadistasamtaka eins og al-Qaeda og ISIS eða Íslamska ríkisins. Margir fræðimenn hafa reynt að setja sig inn í þennan hugmyndaheim og áhrif hans á alþjóðastjórnmál nútímans.
Magnús er eðlilega hugsi yfir þessari stöðu og skrifar: „En hvernig ætti að breyta samfélögum Mið-Austurlanda í fyrirmyndarríki? Hvaða leiðir væru færar? Á síðari hluta 20. aldar tók að bera æ meira á hugmyndum íslamista í stjórnmálaumræðu Mið-Austurlanda. Íslamistar vilja stuðla að því að íslamvæða samfélagið samkvæmt ákveðinni forskrift. Hugmyndafræðin er margvísleg en hugmyndir og aðgerðir þeirra eru væntanlega það sem hvað mest hefur ögrað heimsbyggðinni nú í byrjun 21. aldar.“ (bls. 247).
Sayyid Kutb og Ayatollah Komeini
Magnús segir að tveir menn hafi öðrum fremur mótað þessa hugmyndafræði íslamista sem viðbrögð við vestrænni menningu og vestrænum áhrifum. Það voru einmitt áðurnefndur Sayyid Kutb og síðan sjálfur Ayatollah Komeini (1901-1989) en kenningar hans mynduðu grunntón í írönsku byltingunni 1979 og leiddu til stofnunar íslamska lýðveldisins í Íran. Magnús tekur þó fram að hugmyndir tvímenninganna hafi um margt verið ólíkar og haft mismunandi áhrif enda Kubt súnní-múslími á meðan Komeini var sjíti. Það breytir því ekki að átakasaga þessa heimshluta ekki skilin án þess að setja sig inn í hugmyndafræði tvímenninganna og skilaboð þeirra til fylgismanna sinna.
Kjarninn í þessari hugmyndafræði er djúpstæð andúð og jafnvel hatur á Vesturlöndum og vestrænni menningu. Um leið telja íslamistar að það verði að móta samfélög múslíma undir sterkri trúarlegri forystu, þar sem dóms- og framkvæmdavaldið falli að lagakerfi íslams. Vestræn lýðræðis- og mannréttindahugsun á því augljósleg ekkert sameiginlegt með íslamisma Miðausturlanda.
Sannleikurinn í hryðjuverkum
Magnús Þorkell bendir á að eitt af einkennum þessarar stefnu sé hlutverk ofbeldis í að ná fram ætlunarverki sínu. Fyrir vikið veigri íslamistar sér ekki við að beita hryðjuverkum eða öðrum slíkum aðferðum í baráttu sinni. Íslamismi er túlkun þeirra á íslam. Fyrir þeim er túlkun þeirra ekki túlkun, heldur sannleikurinn. Að þeirra mati er þetta eina leiðin að fyrirmyndarríkinu segir Magnús.
Stundum virka vestrænir fréttaskýrendur heldur barnalegir í greiningu sinni á því sem í grunninn er ofstækisfull pólitísk hreyfing sem boðar hryðjuverk og hatur og hefur yfirtekið daglegt líf fólks í Miðausturlöndum. Hreyfingar eins og Hezbollah, Hamas og Hútar eru fyrst og fremst hryðjuverkasamtök sem eiga þann hugmyndafræðilega grunn sem hér hefur verið rakinn.