c

Pistlar:

4. október 2024 kl. 17:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Frakkland: Skattahækkanir og niðurskurður

Það getur verið tilviljunarkennt hvaða rata í fjölmiðla hér á Íslandi, sérstaklega þegar kemur að frönskum stjórnmálum. Síðasta þriðjudag hélt Michel Barnier forsætisráðherra Frakka sína fyrstu stefnuræðu á franska þinginu (Assemblée Nationale) og flutti löndum sínum heldur harðan boðskap. Niðurskurður og skattahækkanir eru nauðsynlegar til að þetta lykilríki Evrópusambandsins geti staðist þau fjárhagslegu skilyrði sem því bera að gera með þátttöku í Evrópusambandinu. Nú er komið að skuldadögunum, enn og aftur!aa

Barnier sagði að ríkisstjórn sín stefndi nú að því að ná skilyrðum Evrópusambandsins þegar kemur að halla á fjárlögum. Hallinn má sem kunnugt er nema 3% af landsframleiðslu og nú er ætlunin að ná því markmiði árið 2029, tveimur árum síðar en áður var áætlað. Forsætisráðherrann nýi sagði skuldir Frakka upp á yfir 3,2 billjónir evra - meira en 110% af landsframleiðslu - „hið sanna sverð Damóklesar“ sem væri hangandi yfir höfði allra Frakka. Ríkisstjórnin á að leggja fjárlagaáætlun sína fyrir árið 2025 fyrir þingið í næstu viku.

Sundurleit pólitísk hjörð

Michel Barnier snéri aftur til Assemblée Nationale í fyrsta skipti í 15 ár og enginn átti von á hlýjum viðtökum. Árið 2009 gat hann, sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Frakklands, reitt sig á óbilandi stuðning stórs hægri meirihluta með 332 þingsæti. Landslagið er gjörólíkt núna. Þegar Michel Barnier kom til að kynna vegvísi sinn fyrir næstu tvö og hálft ár, 26 dögum eftir skipun hans í embætti stóð hann frammi fyrir, að eigin sögn sundurleitri pólitískri hjörð. Svo mjög að Frakkar verða að fara aftur til ársins 1958 til að finna hliðstæðu. Enginn stjórnmálaflokkur hefur hreinan meirihluta og ómögulegt hefur verið að smíða traust bandalög úr samsetningu franska þingsins.

Stefnuræða nýs forsætisráðherra stóð í eina klukkustund og 23 mínútur og þótti óskýr um margt. Þannig þóttu menn stundum þekkja þá stefnu sem Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur fylgt undanfarin sjö ár og stundum ekki. Michel Barnier reyndi að láta hróp frá bekkjum róttæka vinstriflokksins La France Insoumise (honum hafði verið ráðlagt að bregðast ekki við) ekki á sig fá en hann virkaði óstyrkur á köflum, kannski í samræmi við hið veika umboð sem hann hefur.

Meiri samræður

Michel Barnier reyndi að útskýra nálgun sína með því að vísa til fyrrverandi forsætisráðherra, þeirra Pierre Mendès France (1954-1955, mið-vinstri) og Michel Rocard (1988-1991, sósíalisti). Hafði hann á orði að hann hygðist gera „samræður og málamiðlunarmenningu að meginreglu stjórnvalda.“ Hann sagði að það yrði að hlusta, virða og taka þátt í umræðu með þinginu, stjórnmálaöflum, sveitarfélögum, samstarfsaðilum og íbúum jaðarsvæða og fjarlægra nýlendna. Auðvitað sáu menn þetta sem óbeina gagnrýni á stjórnarhætti Macron undanfarin ár en Macron er oft sagður lítt tengdur almenningi og einráður eins og Zaki Laidi, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Science Po í París og Evrópuháskólann í Brugge í Belgíu, benti á í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrr á árinu.

Barnier kemur frá hægriflokknum Les Républicains (LR) sem er til að mynda ekki mjög hlynntur hlutfallskosningum og almennt andsnúinn breytingum á stjórnskipun Frakklands. Hann opnaði þó á að hefja umræðu um núverandi kosningakerfi við kjör þingmanna. Um frönsku kosningarnar hefur áður verið fjallað hér í pistli.

Skattahækkanir beinist að hátekjuhópum

Daginn eftir ræðu forsætisráðherra var komið að Antoine Armand, hinum unga fjármálaráðherra Frakklands. Hann hét því að þær skattahækkanir, sem stjórnvöld segja að þurfi til að koma fjármálum landsins á réttan kjöl, verði miðaðar við hátekjuhópa og takmarkaðar í tíma.

Michel Barnier hafði heitið því í sinni stefnuræðu að takast á við „gífurlegar“ skuldir Frakklands með niðurskurði útgjalda og nýjum sköttum en Antoine Armand sagði við RTL útvarpsstöðina að láglaunafólki og millitekjufólki yrði hlíft við aukinni skattabyrði. Þetta endurtók hann í franska útvarpinu og tók fram að lág- og millitekjufólki yrði forðað frá hækkunum skatta og lýsti skattahækkunum nú sem „óvenjulegu og tímabundnu átaki“ fyrir „þá sem hafa mjög háar tekjur“.

Stefna á 5% halla

Franska ríkisstjórnin ætlar að bæta fjárhagsstöðu sína um um 40 milljarða evra á næsta ári í þeirri von að koma halla hins opinbera í 5% af vergri landsframleiðslu (VLF) úr áætlaðri meira en 6% á þessu ári. Tveir þriðju hlutar þeirrar upphæðar eiga að koma frá útgjaldaskerðingu og afgangurinn með nýjum sköttum.

„Þegar okkur hefur tekist að skera verulega niður útgjöld, verður óvenjulegs og tímabundins átaks krafist af þeim sem hafa mjög háar tekjur,“ sagði Armand. Tekjuskattsþrep þeirra sem fara til vinnu á hverjum degi myndu ekki breytast, lofaði hann. Stór og mjög stór fyrirtæki verða einnig beðin um að greiða hærri skatta, sagði Armand, en útilokaði að slík aukabyrði „vari í nokkur ár“ ef einhver skyldi trúa því.