Bandaríski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Francis Fukuyama segir að gríðarsterkur sigur Donalds Trump og Repúblikanaflokksins í síðustu viku muni leiða til mikilla breytinga á mikilvægum málaflokkum, allt frá innflytjendamálum til stríðsins í Úkraínu. Hann segir að þó að mikilvægi kosninganna nái langt út fyrir þessi tilteknu málefni. Niðurstaðan tákni í raun afgerandi höfnun bandarískra kjósenda á ákveðinni tegund frjálslyndis og þeirri sérstöku leið sem skilningur á „frjálsu samfélagi“ hefur þróast síðan á níunda áratugnum. Til viðbótar þessari greiningu Fukuyama koma djúpstæðar efnahagslegar breytingar sem hafi gefið mörgum Bandaríkjamönnum þá tilfinningu að þeir hafi verið skyldir eftir í efnahagslegu tilliti og um leið sviptir þeirri sem felst í ameríska draumnum.
Demókratar viðskilja við vinnandi fólk
Þetta skilja flestir alvarlegir stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum þótt ekki örli á neinu slíku meðal hérlendra slíkra spekinga. Það heyrðist ágætlega í þættinum Sprengisandi síðasta sunnudag þegar stjórnmálafræðingurinn (og demókratinn) Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir var enn að leita á röngum slóðum í leit að skýringum á tapinu sem meginstraumsfjölmiðlar sáu ekki fyrir. Farsælast hefði verið fyrir hana að hlusta betur á sessunaut sinn, hagfræðinginn Þorstein Þorgeirsson, sem hefur rakið þá þróun sem hefur gert Demókrataflokkinn viðskilja við vinnandi fólk í Bandaríkjunum. Ein birtingarmynd þess var ofuráhersla kosningavélar Demókrata á að fá frægðarfólk á kosningafundi Kamelu Harris. Þannig kom söngkonan Beyoncé í fjórar mínútur á kosningafund Kamelu en hún á sér sögu um að styðja forsetaframbjóðendur demókrata, allt til ársins 2008, þegar hún kom fram ásamt eiginmanni sínum, rapparanum Jay-Z, á kosningafundi fyrir Barack Obama daginn fyrir kjördag.
Annar rappari, Eminem, steig inn á pólitískan vettvang í Detroit, heimabæ sínum, þar sem hann talaði stuttlega á fundi fyrir baráttu Kamelu Harris áður en hann bauð Barack Obama fyrrverandi forseta velkominn á sviðið. Svar Trumps var að fá rapparann Trick Trick með sér á fund í borginni en Trick Trick var áður í samstarfi við Eminem í laginu „Welcome 2 Detroit“. En þekktasti stuðningsmaður Kamelu Harris úr heimi fræga fólksins er án efa sjónvarpskonan Oprah Winfrey en hún hefur síðan orðið að verjast frásögnum um að hafa fengið greitt fyrir það að varaforsetinn kæmi í sjónvarpið til hennar. Oprah segir það rangt en kostnaður vegna þáttarins, meðal annars laun til starfsfólksins, hafi þó komið úr hinum gríðarmiklu kosningasjóðum demókrata. Talið er að Kamala Harris hafi haft úr einum milljarði Bandaríkjadala að moða, margfalt það sem Trump hafði yfir að ráða. Síðast en ekki síst þá studdi poppstjarnan Taylor Swift Kamalu Harris í Instagram-færslu sem var undirrituð með heitinu „Childless Cat Lady“ augnabliki eftir lok forsetakappræðna gegn Donald Trump. Tilvísunin var augljóslega í ummæli varaforsetaframbjóðanda Trumps, JD Vance. Allt kom fyrir ekki, almenningi var alveg sama hvað stórstjörnur vildu að hann kysi.
Stórfyrirtækin studdu Demókrata
Þessi gríðarlega mikli munur á kosningasjóðum frambjóðendanna stafar af því að miklu fleiri stórfyrirtæki og milljarðamæringar styðja Demókrata. Einungis einn af tíu ríkustu Bandaríkjamönnunum studdi Trump, en það var Elon Musk. Þá eru meðaltekjur kjósenda Demókrata mun hærri en kjósenda Repúblikanaflokksins. Sýnir þetta að Demókrataflokkurinn er í raun flokkur yfirstéttarinnar í Bandaríkjunum.
Kamela Harris getur ekki kennt neinum öðrum en sjálfri sér um tapið. Þó að demókratar þreytist ekki á að gagnrýna persónu Donalds Trumps þá virðast bandarískir kjósendur hafa hafnað Kamelu Harris. „Sem sitjandi varaforseti gat Harris ekki aðskilið sig frá óvinsælum forseta og sannfært kjósendur um að hún gæti staðið fyrir þeim breytingum sem þeir þráðu nú þegar verulegar efnahagslegar áhyggjur sækja að fólki,“ skrifar Courtney Subramanian ritstjóri hjá BBC. Kjarni málsins er að bandarískir kjósendur skynjuðu að engar breytingar voru líklegar til að fylgja Kamelu.
Vitaskuld hjálpaði það Kamelu að hún réði ekki við að fara í viðtöl nema hafa lært svörin við spurningunum fyrirfram. Þá var hún algjörlega háð lesspjöldum (Telepromter) þegar hún flutti ræður. Hún virtist ráðvillt um leið og vikið var frá textanum. Jafnframt reyndi hún að breyta ýmsum stefnumálum á lokavikunum, en netið gleymir engu. Það blasir því við að Kamela var ómögulegur frambjóðandi þótt ýmsir hér á landi hafi reynt að telja fólki trú um að svo væri ekki.
Úkraínumenn taka mark á Trump
Í ViðskiptaMogganum í dag er áhugavert viðtal við fjárfestirinn og stórmeistarann Margeir Pétursson sem um árabil hefur starfað í Úkraínu en hann er hluthafi og stjórnarmaður í Bank Lviv í Úkraínu. Margeir var spurður hvort Úkraínumenn teldu Trump trúanlegan þegar hann gefur til kynna að hann myndi sem forseti ljúka Úkraínustríðinu með samningum. „Ég varð var við það fyrr á þessu ári að málsmetandi mönnum sem ég ræddi við leist alls ekki illa á að Trump myndi sigra. Hann hefur hamrað á því að stríðið yrði að hætta svo fólk hætti að deyja og limlestast. Pútín hefur ekki viljað semja en Trump gæti þvingað hann að borðinu. Það er ekkert leyndarmál að úkraínska þjóðin er orðin stríðsþreytt þótt baráttuþrekið sé vissulega til staðar. Ég held að fólk bindi ákveðnar vonir við að þetta muni taka enda núna með einhverjum hætti, t.d. að víglínan verði fryst og síðan yrði samið út frá því. Rússnesk stjórnvöld verða samt að gjalda fyrir sína svívirðilegu framgöngu og stríðsglæpi,“ segir Margeir Pétursson.
Francis Fukuyama bendir á að í kjölfar kosningaúrslitanna virðist sem svo að það hafi verið Biden-forseti sem var í raun frávikið og að Trump sé að hefja nýtt tímabil í bandarískum stjórnmálum og kannski fyrir heiminn í heild. „Bandaríkjamenn greiddu atkvæði með fullri vitneskju um hver Trump væri og fyrir hvað hann stóð,“ segir Fukuyama og kannski tímabært að íslenskir stjórnmálaskýrendur vakni og finni lyktina af kaffinu.