c

Pistlar:

30. nóvember 2024 kl. 18:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Óþarfi Íslendingurinn og gerendur sögunnar

Ein af mörgum aðferðum til að greina kosningabaráttu hvers tíma getur falist í að horfa til framtíðar með fortíðina í farteskinu. Allir stjórnmálaflokkar reyna að sannfæra kjósendur sína um að þeir hafi betri og skynsamlegri lausnir á því sem bíður okkar næstu vikur, mánuði og ár. Um leið eru stjórnmálaflokkarnir að nokkru leyti bundnir af arfleifð þjóðarinnar hvort sem hún birtist í menningu eða sögu hennar. Stjórnmálamenn þurfa að fást við að skilgreina hvað gerir okkur að þjóð, sérstaklega þegar við reynum að sameinast undir tiltekinni stefnu eða merkjum einstakra flokka til að takast á við framtíðina. En sagnfræðin er vandasöm fylgdarkona og nú þegar fullveldisdagurinn bíður að lokinni kosninganótt rifjast upp að við Íslendingar deilum um ansi margt sem lýtur að sjálfstæði okkar, fullveldi og sögu. Jafnvel hvað gerir okkur að Íslendingum.land

Óþarfi Íslendingurinn

Ein birtingarmynd þess er óþol gagnvart landi og þjóð og ýktasta mynd þess birtist í þeirri ósögðu skoðun að farsælast sé að skipta um þjóð í landinu. Þannig geta tiltekin atvik í þjóðarsögunni orðið mönnum tilefni til að gera upp við þennan óþekka eða jafnvel óþarfa Íslending. Inn á þetta svið stíga bæði sagnfræðingar og skáld og færa okkur sína eigin útgáfu af sannindum sögunnar.

Halldór Kiljan Laxness lagði Jóni Prímusi fræg orð í munn í bók sinni Kristnihaldi undir Jökli. Þar skrifar hann: „Saga er einlægt eitthvað alt annað en það sem hefur gerst. Staðreyndirnar eru roknar frá þér áðuren þú byrjar söguna. Saga er aðeins staðreynd útaf fyrir sig. Og því nær sem þú reynir að komast staðreyndum með sagnfræði, því dýpra sökkurðu í skáldsögu. Af því meiri varfærni sem þú útskýrir staðreynd, þeim mun marklausari fabúlu veiðirðu úr ginnúngagapi. Sama gildir um veraldarsöguna. Munurinn á sagnaskáldi og sagnfræðíngi er sá að hann sem ég nefndi fyr lýgur vísvitandi að gamni sínu; sagnfræðíngurinn lýgur í einfeldni sinni og ímyndar sér að hann sé að segja satt."

Stundum má gruna Laxness um græsku, hann skrifi hlutina bara af því að þeir hljómi vel og vissulega er oft erfitt að taka Kristnihaldið alvarlega. Táknfræði verksins er eiginlega fyrst og fremst fyrir lengra komna bókmenntafræðinga þó að almennir lesendur skemmti sér yfir ólíkindum verksins. En þetta stefnumót sagnaskáldsins og sagnfræðingsins er enn í gangi.

Baskavígin og sjálfsmynd þjóðarinnar

Morgunblaðið í gær færði okkur áhugavert viðtal við skáldið Jón Kalman Stefánsson sem tekur fyrir hin illa þokkuðu Baskavíg í nýjustu skáldsögu sinni Himintungl yfir heimsins ystu brún. Þar segir Jón: „Fortíðin á alltaf erindi til okkar. Við erum hér og erum eins og við erum vegna þess sem átti sér stað í fortíðinni. Ef við viljum skilja okkur sjálf og samtímann verðum við að geta horfst í augu við fortíðina. Allir atburðir, hvort sem þeir eru hræðilegir eins og Baskavígin eða ekki, segja okkur alltaf eitthvað um okkur sjálf sem manneskjur, og sem þjóð,“ segir Jón Kalman um sögusvið bókarinnar.

Augljóslega er Jón Kalman hér að velta fyrir sér hvernig atburðir sem þessir gætu átt sér stað og hann fullyrðir hreint og beint að Baskavígin rími illa við sjálfsmynd þjóðarinnar. „Þetta var efni sem hefur fylgt mér lengi eða frá því ég las um vígin fyrst fyrir góðum 30 árum. Mig grunaði strax að ég yrði fyrr eða síðar að takast á við þetta efni. Þetta eru ógnvægilegir atburðir og einstakir í okkar sögu. Fyrir utan það hvers eðlis þeir eru, öll sú dramatík og grimmd sem þar er fannst mér það sláandi hversu lítið þá hafði verið fjallað um atburðina, það hefur sem betur fer breyst í seinni tíð. Það var til dæmis mikill munur á því hvernig fjallað var um þessi víg og síðan Tyrkjaránin sem voru tíu árum síðar. Það var varla til það barn sem ekki þurfti að gera ritgerð í grunnskóla um Tyrkjaránin á meðan ekkert var fjallað um Baskavígin í skólabókum, að minnsta kosti ekki meðan ég var í skóla. Þetta eru atburðir sem við höfðum sópað undir teppið og neitað að horfast í augu við þá. Ef til vill vegna þess að þeir ríma illa við sjálfsmynd okkar. Við höfum alltaf litið á okkur sem fórnarlömb í sögunni, mynd sem var til dæmis dregin upp í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld og í byrjun þeirrar 20. og hefur farið inn í merginn okkar. En í Baskavígunum erum við Íslendingar í hlutverki ofbeldismanna, við vorum grimmdin, við vorum gerendur sem rímaði illa við sjálfsmynd okkar og var þar af leiðandi sett til hliðar.“umhverfi

Þolendur og gerendur

Það er forvitnilegt að Jón Kalmann sjái samlíkindi með Baskavígunum og Tyrkjaráninu sem einmitt var fjallað um hér ekki fyrir löngu. Pistlaskrifari kann ekki heimildir þess efnis að sagnfræðingar hafi blandað þessu saman þó að ekki sé langt á milli þeirra í tíma. Þó má segja að báðir þessir atburðir hafi fengið aukna athygli í seinni tíð og allmargar bækur verið birtar um það, ýmist studdar heimildum eða skáldaðar. Augljóslega voru Íslendingar annars vegar þolendur og hins vegar gerendur en atburðirnir voru þó ólíkir í eðli sínu, annars vegar leiddi hörmuleg, óskipulögð og að mörgu leyti ófyrirsjáanleg atburðarás til þess að ráðist var á skipbrotsmenn baskneskra skipa í einhvers konar hysteríukasti. Hins vegar var um að ræða skipulega árás á land og þjóð þar sem fólki var rænt og selt á þrælamörkuðum þannig að það átti ekki afturkvæmt. Þeir sem reyndu að verjast voru miskunnarlaust drepnir. Að því leyti gengur hugsun Jóns Kalmanns illa upp, eins og hann orðar hana í Morgunblaðinu. Það er heldur ekki sanngjarnt að skilja eftir eitthvert sérstakt óbragð yfir íslenskri þjóð nú þegar höfundurinn sest í sagnaskáldasætið.

Heimspekingurinn og norrænufræðingurinn Sigurður Nordal taldi að á bak við allar athafnir mannsins stæði ákveðin hugmyndafræði og heimspeki. Hann horfði á lífið af stalli menntamannsins. Það má rifja upp að ekki er langt síðan íslenskir sagnfræðingar voru að reyna að skilgreina fyrir hvað þeir stæðu. Kom þá upp að sögukennsla og söguleg vitund ætti að snúast um að fólk væri eins alla tíð: Það finnur til, elskar, hatar, öfundar, þráir, vonar, þraukar. Úr þessu spratt áhugi á hversdagssögu, kistill förukonunnar varð jafn mikilvægur og skatthol efnakonunnar. Þannig varð nútímasagan smættuð, hugsanlega til að gefa okkur tilfinningu um að við stöndum öll fyrir eitthvað í sögu þjóðar okkar.

Hröð þróun nútímans í átt að innflytjendasamfélögum setur hins vegar nýjar áskoranir á samfélögin og hvað yfirhöfuð bindur þau saman þegar siðirnir eru orðnir margir. Það er hins vegar undarlegt að ætla að færa íslenska þjóð yfir í hóp stórra gerenda í sögunni vegna atburða sem áttu sér stað fyrir 400 árum. Það þarf ansi mikið sagnaskáld til að láta sér detta það í hug.