Það eru örlög Íslendinga að vera nágrannar þeirra þjóða sem hafa það einna best í heiminum. Norðurlandaþjóðirnar skora nánast hæst á öllum þeim samanburðarprófum sem sett eru fram um lífsgæði. Meira að segja þegar hamingja er rædd þá eru þessar þjóðir ofarlega á blaði með hina „þunglyndu“ Finna í efsta sæti. Stjórnin sem var mynduð 2009, í kjölfar bankahrunsins, kaus að skilgreina sig sem „norræna velferðarstjórn“, sem átti að vera einhvers konar afturhvarf til annarra og betri gilda. Þeim þótti best að tengja sig við norræna módelið.
Með því vildi Jóhönnu-stjórnin bregða hagrænum forsendum undir efnahagsstjórn sína og tengja sig við þau lönd sem almennt voru talin búa fólki sínu best lífsskilyrði. Margt í þessari tengingu reyndist villandi svo ekki sé meira sagt. Hér á Íslandi var augljóslega gengið mun lengra til vinstri en gert hafði verið á Norðurlöndunum þar sem systurflokkar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs höfðu til dæmis í fæstum tilvikum fengið völd á við það sem VG fékk hér á landi. Þeir hafa löngum verið taldir illa stjórntækir á hinum Norðurlöndunum. Sögulegar forsendur gerðu það hins vegar að verkum að VG fékk einstakt tækifæri til að setja mark sitt á hagstjórn hér á landi með stjórnarmynduninni 2009. Nú 15 árum síðar, þegar myndin hefur skýrst, fáum við fyrst og fremst þá tilfinningu að þar hafi vanhæfnin tekið við. Skýrast birtist þetta í upplýsingum sem koma fram í dagbókum Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, sem hér hefur verið fjallað um.
Íslendingar bera sig saman við Skandinava þegar þeim hentar en líta fram hjá þeim öðrum stundum. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, sem haldinn var í Hádegismóum fyrir skömmu. Um leið benti seðlabankastjóri á að þjóðir Skandinavíu hafi allar valið mismunandi leiðir í peningamálastjórnun. Finnar eru með evruna, Danir tengja sína krónu við evru og Norðmenn og Svíar með fljótandi mynt og verðbólgumarkmið.
Myntin ekki aðalmálið heldur hagstjórnin
„Allar þessar þjóðir eru ánægðar með sitt val. Það er ekki myntfyrirkomulagið sem er aðalmálið heldur hagstjórnin. Sama á við þegar kemur að samanburði á lífskjörum á Íslandi við Norðurlönd. Þar er aðeins vísað til frændþjóðanna ef samanburður við þær er talinn sýna að lífskjör hér séu lakari. Sannleikurinn er hins vegar sá að við höfum verið í sérflokki hér á Íslandi hvað varðar launahækkanir og kaupmátt eftir lok covid-heimsfaraldursins sem endurspeglar mikinn hagvöxt hérlendis,“ sagði Ásgeir.
Gjaldmiðlar hafa tilhneigingu til að sveiflast og laga sig þannig að framleiðslugetu hagkerfisins. Ásgeir benti á að segja megi að við Íslendingar höfum unnið til baka það framleiðslutap sem við urðum fyrir í covid-faraldrinum.
Kaupmáttur hér hafi vaxið töluvert þrátt fyrir verðbólgu en minnkað annars staðar á Norðurlöndum. „Sérstaklega á þetta við um Noreg og Svíþjóð en gjaldmiðlar þessara landa hafa fallið töluvert samhliða því að hagvöxtur hefur verið hverfandi eða jafnvel neikvæður. Raunar má segja að Norðurlöndin hafi ekki enn náð sér eftir faraldurinn. Lífskjörin á Íslandi eru því mjög góð miðað við Skandinavíu og kaupmáttur íslensku krónunnar hefur verið mjög mikill fyrir Íslendinga á ferðalögum erlendis,“ sagði seðlabankastjóri.
Norræna efnahagsmódelið
Economist-tímaritið fjallaði rækilega um norræna efnahagsmódelið (sænska módelið er það einnig kallað) í 14 síðna blaðauka árið 2013 og var þá til þess vísað í pistli hér. Það er lærdómsríkt að rifja það upp. „Helsti lærdómur frá Norðurlöndunum snýr ekki að hugmyndafræði, heldur hagsýni,“ sagði í leiðara blaðsins. Sú lýsing sem þar var dregin upp kemur nákvæmlega heim og saman við það sem Dr. Nils Karlson, forstöðumaður Ratio-stofnunarinnar í Stokkhólmi, sagði í fyrirlestri í heimsókn hingað til lands skömmu á undan. Þeirri heimsókn var allt of lítill gaumur gefinn í íslenskum fjölmiðlum. Karlson rakti í fyrirlestri sínum reynslu Svía sem komust í ógöngur í upphafi tíunda áratugs tuttugustu aldar og kusu að skipta um kúrs í kjölfarið. Atvinnufrelsi var aukið í Svíþjóð og skattar lækkaðir, alveg öfugt við það sem „velferðarstjórn“ Jóhönnu Sigurðardóttur réðist í að gera. Á þeim tíma sá enginn hinar augljósu mótsagnir.
Norræna velferðarmódelið
Economist veltir því fyrir sér hvernig Norðurlöndunum hafi tekist að byggja upp þjóðfélög sem í senn bjóði þegnum sínum upp á velferð og hagvöxt. Hugsanlega er það tengt því hvernig þessu tvennu er forgangsraðað. Í grein í Fjármálatíðindum árið 2005 skrifaði Jónas H. Haralz (1919-2012) hagfræðingur áhugaverða og upplýsandi grein um námsár sín í Svíþjóð. Þar segir Jónas frá því að vorið 2004 hafi hann farið í stutta heimsókn til Svíþjóðar. Svo vildi til að einmitt um það leyti hélt sænski jafnaðarmannaflokkurinn nokkurra daga aukaþing. Talið var að þingið hefði upphaflega átt að vera til undirbúnings þeim umskiptum í forystu flokksins að Anna Lindh tæki við af Göran Persson. Vegna hörmulegs fráfalls hennar gat þetta þó ekki orðið og snerist þingið því um stefnumál jafnaðarmanna en ekki forystuskipti.
Hagvöxtur á undan velferð
Það var Jónasi minnisstætt að einkunnarorðin sem við blöstu á mikilfenglegum veggspjöldum um allt í Svíþjóð voru hagvöxtur og velferð - För tillväxt och välfärd. „Að hagvöxtur var nefndur á undan velferðinni var sjálfsagt ekki tilviljun, heldur vottur um þann skilning að hagvöxtur sé forsenda velferðar. En hvernig hugsaði flokkurinn sér þá að efla mætti hagvöxtinn svo að velferðin blómgaðist,“ spyr Jónas í grein sinni. Hann sagði að jafnaðarmannaþingið hafi í raun haft lítið um það að segja. Það voru fyrst og fremst skattamál sem sett voru á oddinn, en þó ekki neitt fráhvarf frá þeirri háskattastefnu sem tengist miklum útgjöldum til velferðar í Svíþjóð. Jónas rifjar upp að helstu atriðin voru niðurfelling eignarskatts, nokkur slökun á sköttun fyrirtækja og lækkun jaðarskatta einstaklinga með lágar tekjur, í því augnamiði að örva inngöngu á vinnumarkaðinn. Jafnvel um þessi atriði lágu þó ekki fyrir ákveðnar tillögur, þar sem ekki hafði tekist að ná um þær samstöðu við þá bandalagsflokka ríkisstjórnarinnar sem stóðu til vinstri við jafnaðarmenn. Rétt eins og VG gerði hér. Lögð var áhersla á stuðning við smá fyrirtæki og meðalstór, sem oftast eiga mestan þátt í atvinnuaukningu. Sjónarmið sem hægri stjórnir fyrir bankahrun gættu því miður ekki nægilega að og „velferðarstjórnin“ hundsaði síðan.
Skattahækkanir og aukin samneysla getur haft neikvæð áhrif á hagvöxt til lengdar. Án hagvaxtar er hins vegar ekki hægt að tryggja velferð til lengdar. Þetta vita þeir sem skilja hið norræna velferðarþjóðfélag sem rekið er áfram af markaðssinnuðu hagkerfi. Of miklir skattar draga úr getu ríkisvaldsins til að reka það velferðarkerfi sem við viljum hafa. Það ætti ný ríkisstjórn hér á landi að hafa í huga ef hún hyggst áfram bera sig saman við þá bestu.