c

Pistlar:

2. janúar 2025 kl. 17:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ruslið eftir partýið!

Það má hafa gaman af því að þegar gengið er um hverfið eftir áramót er það svolítið eins og vígvöllur en út um allt má sjá umbúðir utan af flugeldum sem hafa verið skildir eftir svo að þeir skotglöðu komist aftur sem fyrst inn í hlýjuna. Ruslið eftir partýið bíður því eftir nýju ári en þá eru reyndar allar sorptunnur fullar. Yfirvöld í borginni eru stöðugt að reyna að minna íbúa á að hver og einn beri ábyrgð á eigin rusli þó að sumir haldi því fram að það sé einmitt ein af skyldum borgarinnar við íbúa sína að þrífa og halda umhverfinu hreinu og fallegu. Líklega verðum við að líta svo á að það sé sameiginleg skylda íbúa og borgar að taka höndum saman við að flokka og farga rusli.aasorp

En stundum flækjast málin og borgararnir eru skildir eftir stöðugt meiri ábyrgð og vinnu vegna sorpmála og það í borgarumferð sem auðveldar ekki málið. Nú er það til dæmis svo að ruslið eftir flugeldaskothríð áramótanna má ekki fara í venjulegar sorptunnur heldur á að fara með umbúðirnar í sérstaka ruslagáma sem eru á völdum stöðum um borgina. Þessir gámar eru ekki í göngufæri fyrir alla og það kostar því talsverða fyrirhöfn fyrir þá samviskusömu en verður einfaldlega til þess að slúbbertarnir láta ruslið liggja og gera það að áhyggjuefni annarra.

Móttökustöðvar og bíllaus lífsstíll

Það er svo að ríflega 623 kg af rusli liggja eftir hvern landsmann á ári (tölur frá 2021) og landsmönnum er gert að bæta sig verulega í meðhöndlun á sorpi og öðru rusli. Reyndar er það svo að móttökustöðvar fyrir rusl eru ekki margar á höfuðborgarsvæðinu og eftir að hafa farið í nokkur skipti í móttökustöðina á Sævarhöfða í jólahreingerningunum fer maður að velta fyrir sér hvernig fólki sem ekki á bíl gengur yfir höfuð að losa sig við ruslið? Fer það með rusl á móttökustöðvar í strætó eða leigir það bíl? Það er nefnilega ein af mótsögnum nútímasamfélagsins að færri og færri eiga bíl, lengra og lengra verður í móttökustöðvarnar og meira og meira rusl á að fara í flokkun þangað. Gengur þetta upp?aasorp

Fyrirhugað var að opna nýja mót­töku­stöð Sorpu í lok árs 2024 við Lambhaga­veg 14. Stöðin verður skammt frá stór­versl­un Bauhaus og mun þjóna íbú­um í stór­um hverf­um á borð við Grafar­holt, Grafar­vog og Úlfarsár­dal. Hún kem­ur í stað stöðvar­inn­ar við Sæv­ar­höfða sem verður lokað vegna upp­bygg­ing­ar á því svæði. Sem þýðir þá að við í póstnúmeri 104 og víðar verðum að fara alla leið upp á Lambhaga­veg 14 til að losna við rusl. Það er talsvert ferðalag og varla til að einfalda málin fyrir íbúa í austurhluta Reykjavíkur.

Inni á vef Umhverfisstofnunar er frétt frá því í nóvember síðastliðnum þar sem kemur fram að Ísland þurfi að spýta í lófana til að ná markmiðum sínum fyrir árið 2025 í úrgangsmálum. Þetta sýnir nýleg úttekt frá Eftirlitsstofnun EFTA sem gerð var á stöðu Íslands gagnvart þeim markmiðum landsins í úrgangsmálum sem snúa að heimilisúrgangi. Í úttektinni er miðað við tölfræði ársins 2021 en síðan þá hefur þó margt vatn runnið til sjávar. Nýrri tölfræði er þó ekki til en þá var heildarmagn úrgangs á landsvísu 1.580.987 tonn. Úrgangur er mikilsverður hagvísir og með aukinni neyslu eykst úrgangur enda sáum við eftirtektarvert fall í sorpmagni eftir bankahrunið 2008. Gera má ráð fyrir að úrgangur undanfarin ár hafi aukist umtalsvert.

Náum varla markmiðum

Samkvæmt áðurnefndri skýrslu er Ísland ekki á leiðinni að ná eftirfarandi markmiðum án frekari aðgerða. Markmiðið er að 55% af öllum heimilisúrgangi verði undirbúin fyrir endurnotkun eða endurunnin árið 2025. Staðan árið 2021 var sú að 26% endurunnið og dróst hlutfallið meira að segja saman árið 2022 og var þá 23%. Þetta þýðir að við þurfum að auka endurnotkun og endurvinnslu úrgangs um helming. Á sama tíma verður stöðugt erfiðara fyrir almenning, vegna breytinga í skipulags- og samgöngumálum, að uppfylla þessi skilyrði. Eðlilegt er að spyrja; gengur þetta upp?aasorp

Verður sveitarfélögum refsað?

Skýrsluhöfundar nefna þrjár helstu orsakir fyrir því að Ísland sé ekki á leið að ná ofangreindum markmiðum. Í fyrsta lagi þurfi að bæta sérsöfnun úrgangs, sérstaklega lífúrgangs, textíls, plasts, málma og glers. Í öðru lagi þurfi að vera til staðar innviðir til að meðhöndla allan þann lífúrgang sem fellur til. Þriðja atriðið snýr að því að koma upp hvötum til þess að beina úrgangi í annan farveg en urðun, en skortur á hvötum er ein ríkasta ástæðan fyrir því hversu mikið er urðað á Íslandi.

Síðustu tilmælin í skýrslunni snúa að því að skoða möguleikann á refsiúrræðum fyrir þau sveitarfélög sem ekki ná að uppfylla markmið sín í úrgangsmálum. Ljóst er að öll þrjú tilmælin krefjast ríkrar samfélagslegrar umræðu og samvinnu verði þeim hrint í framkvæmd segja skýrsluhöfundar.