Þó að við Íslendingar séum uppteknir af laxeldi þessa dagana þá stendur slíkt eldi aðeins undir á að giska einu prósenti af öllum framleiddum laxi í heiminum, en miðað við þau áform sem eru komin í farveg er gert ráð fyrir miklum vexti í landeldi sem gæti orðið umfangsmeira en sjóeldi á næstu árum. Þegar öll fyrirtækin sem eru komin af stað á Íslandi verða komin í fulla virkni má gera ráð fyrir um 150 þúsund tonna framleiðslu á ári. „Þá verða Íslendingar stærstir í landeldi á laxi í heiminum,“ sagði Lárus Ásgeirsson, starfandi stjórnarformaður Laxeyjar, í nýlegu samtali við Bændablaðið. Til samanburðar má benda á að í dag eru framleidd á bilinu 40 til 50 þúsund tonn af laxi í sjóeldi við Íslandsstrendur, en það má jafnframt búast við talsverðum vexti þar á næstu árum. Ef fer sem horfir verður lax mikilvægasta útflutningsvara Íslendinga.
Eins og kom fram í pistli hér fyrir stuttu höfum við Íslendingar fyrst og fremst verið að þróa strandeldi en miklar breytingar eru framundan. Undanfarin misseri hafa stjórnvöld unnið að því að skipuleggja þennan rekstur og hafa verið með áform um að smíða lagaumgjörð þar um þó að síðustu ríkisstjórn hafi ekki tekist að koma henni í gegn. Í desember fyrir ári síðan var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, um lagareldi. Frumvarpið var afrakstur stefnumótunarvinnu sem hófst í byrjun árs 2022. Skýrslan Staða og framtíð lagareldis á Íslandi birtist síðan í febrúar 2023. Enn á þó löggjafinn eftir að ljúka vinnu sinni.
Nýjar líffræðilegar áskoranir
Það skiptir vitaskuld miklu að sátt ríki um stefnu og lagagrundvöll. Eins og málin hafa þróast verður landeldi með talsvert öðru sniði en það eldi sem við þekkjum núna í fjörðum landsins. Í fyrsta lagi verður unnt að hafa mun meiri stjórn á ferlinu öllu og gera má ráð fyrir að vandamál tengd lús og sjúkdómum verði önnur og minni. Það færir kannski bara til hinar líffræðilegu áskoranir því það er líffræðilega flókið að rækta fisk í kerjum og auðvitað mun fjárfestingarfrekara en að rækta fisk í sjó. Þá þarf landeldið að gera sérstakar ráðstafanir til að koma af sér þeim úrgangi sem fellur til frá fiskunum. Ef hestamenn kvarta núna, hvað mun landeldið þurfa að borga?
Fyrirsjáanlegt er að úr fiskeldi á landi felli til mikill lífrænn áburður. Í áðurnefndu viðtali segir Lárus að Laxey áformi fyrst um sinn að dreifa honum á ógróið land, en langtímaáformin snúa að því að koma upp farvegi til að fullvinna áburðinn hérlendis.
„Við vorum kannski bjartsýnni fyrir ári síðan, en af þessu verður þegar landeldið er komið á fullan snúning. Þangað til munum við annars vegar dreifa úrgangi á sanda og hraun eða að við munum flytja þennan úrgang út,“ segir Lárus. Fyrirtækið hefur verið í samræðum við aðila sem flytja úrganginn með tankskipum og framleiða úr honum lífgas og áburð í Noregi.
Landeldi þarf mikla orku
Landeldi eins og hér um ræðir byggir á laxeldi í lokuðum landeldiskerjum þar sem fiskur er alinn frá hrogni upp í sláturstærð. Tæknin sem fyrirtækin nota er svokölluð „Hybrid flow-through“-tækni, eða gegnumstreymi með endurnýtingu. Allt byggist þetta á endurnýtingarkerfum (e. recirculating aquaculture systems, RAS). Það þýðir einfaldlega að vatn flæðir í gegnum stöðina, en í stað þess að fara beint í affall eftir að fiskurinn hefur nýtt það er það endurnýtt að stórum hluta, eða allt að 70 prósent. Sem gefur að skilja þurfa landeldisstöðvar aðgang að miklu vatni og sjó. Þá eru þær mun orkufrekari en kvíar í sjó.
Annað eignarhald
Einnig virðist eignarhald ætla að verða allt öðruvísi á landeldinu en norsk fyrirtæki hafa smám saman orðið ráðandi í strandeldinu og hefur það verið umdeilt. Íslenskir fjárfestar hafa hins vegar tekið rækilega við sér í strandeldinu og meðal annars hafa skráð sjávarútvegsfyrirtæki eins og Ísfélag Vestmannaeyja og Síldarvinnslan fjárfest í fiskeldi. Samherji hefur einnig uppi mikil áform á Reykjanesinu og reka nú þegar landeldi í Öxarfirði en þaðan er meðfylgjandi mynd.
Hér var í upphafi vikið að framkvæmdum við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmannaeyjum en þær hafa að sögn Lárusar gengið samkvæmt áætlun. Þetta eru mikil mannvirki og Laxey hefur lokið við gerð seiðahússins við Friðarhöfn og er það komið í fulla framleiðslu. Fyrstu hrognin voru tekin inn í nóvember í fyrra og síðan þá hefur verið tekið á móti þremur hópum. Nú eru um þrjár milljónir seiða í stöðinni í Friðarhöfn að því er kom fram í frétt í Bændablaðinu. Það eru augljóslega spennandi tímar framundan.