Allt frá iðnbyltingunni hafa rík lönd að mestu vaxið hraðar en fátæk. En í um það bil tvo áratugi eftir 1995 birtist eftirtektarverð undantekning frá þessu ferli. Á þessu tímabili minnkaði bilið á mörgum sviðum, fyrst í vergri landsframleiðslu en svo tók sárafátækt (extreme poverty) að dragast saman og lýðheilsa og menntun á heimsvísu batnaði til muna. Meðal annars með stórfelldu falli í malaríu- og ungbarnadauða. Menntun batnaði, skólasókn jókst og margir urðu bjartsýnir um að þriðji heimurinn væri að þróast til betri vegar. En um þetta ríkir ekki sátt frekar en margt annað og margir af gagnrýnendum hnattvæðingarinnar sögðu að óhóf kapítalismans og alþjóðlega fjármálakreppan ættu fremur öðru að skilgreina þetta tímabil, sem meðal annars birtist hér á landi með bankakreppunni. En það er líka umdeilanleg nálgun og leiðarahöfundur breska viðskiptatímaritsins The Economist skrifaði um mitt síðasta ár að þetta tímabil ætti að skilgreinast af þeim „kraftaverkum“ (miracles) sem hefðu gerst í mörgum löndum heims.
En líklega var aðeins um stundarfyrirbæri að ræða og í dag segir blaðið að þessi kraftaverk séu vart annað en dauf minning og margt hafi snúist á verri veg síðasta áratug en um þennan bjartsýna tón var fjallað hér á sínum tíma. Þannig hafi sárafátækt ekki minnkað að neinu ráði síðan 2015. Um leið hafi mælingar á alþjóðlegri lýðheilsu sýnt að það hafi hægst á framförum seint á tíunda áratug síðustu aldar og í reynd þróast aftur á við eftir heimsfaraldurinn. Malaría drap meira en 600.000 manns árið 2020 og var komin aftur á sama stig og 2012. Mest um vert er að síðan um miðjan síðasta áratug hefur hagvöxtur staðið í stað. Auðvitað fer það eftir því hvar mörkin eru dregin á milli ríkra og fátækra landa, en þau verst settu hafa hætt að vaxa hraðar en þau ríkari, eins og þau þó gerðu um tíma, eða jafnvel dregist lengra aftur úr. Fyrir meira en 700 milljónir manna sem eru enn í sárri fátækt - og þá 3 milljarða sem eru bara fátækir - eru þetta heldur ömurlegar fréttir.
Bágborið stjórnarfar hindrar þróun
Þegar alþjóðastjórnmálin eru skoðuð í dag blasir við að um 70% þjóða heimsins búa við ákaflega bágborið stjórnarfar sem í fæstum tilfellum stenst neinar lýðræðislegar kröfur. Í slíkum heimi getur alþjóðlegt samstarf eða þróunarhjálp verið vandasamt því sjaldnast er nein trygging fyrir því að fjármunir eða hjálpargögn berist til réttra aðila. Þetta hefur meira að segja verið vandamál í Úkraínu sem meðal annars nýtur beinna framlaga frá okkur Íslendingum. Nú síðast þegar nýr utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lét verða sitt fyrsta verk að heimsækja landið og heita fullum fjárhagslegum stuðningi.
Í fátækustu löndum heims hefur menntun og (sérstaklega) heilsa verið háð því að gjafarar heimsins skrifi stórar ávísanir. En jafnvel þótt aðstoð hafi dregið úr sjúkdómum hefur hún ekki leyst sjálfbæran vöxt úr læðingi. Breytir engu þó að markaðshugsandi tæknikratar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum stýri ferðinni. Hafa má í huga að vestrænar stofnanir hafa komið mest við sögu í Afríku og Rómönsku-Ameríku, þar sem vöxtur hefur verið ójafn og allt of mikið háður hrávöruverði.
300 krónur á dag, er það svo erfitt?
Skoðum aðeins hvernig málin hafa þróast. Nú mun vera einum milljarði manna færri sem lifa af minna en 2,15 Bandaríkjadali á dag en árið 2000. 2,15 dalir er það viðmið sem Alþjóðabankinn notar við skilgreiningu á sárafátækt. Miðað við nýjasta gengið er það um 300 krónur. Á hverju ári frá aldamótum hefur hópur hjálparstarfsmanna, embættismanna og góðgerðarsinna, sem oft segjast eiga heiðurinn af þessari ótrúlegu breytingu á sárri fátækt, hittast í hliðarsölum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna til að fagna framþróun mála. Um leið hampa þeir framgangi „sjálfbærra þróunarmarkmiða“ þó að hægst hafi á eins og bent var á hér að framan.
Eins og áður sagði náðust næstum allar framfarir í baráttunni gegn fátækt á fyrstu 15 árum þessarar aldar. Mjög hefur hægt á framförum í baráttunni gegn smitsjúkdómum sem þrífast í fátækustu löndunum. Ef hlutfall fólks sem smitast af malaríu hefði haldið áfram að lækka á sama hraða og frá 2000 til 2012, hefðu tilfellin verið helmingi færri en þau voru í raun árið 2022. Þess má geta að eitt af baráttumálum stjórnmálafræðingsins Bjorns Lomborg hefur verið að þjóðir heims setji sér raunhæf og skynsamleg markmið til þess að taka á meinsemdum eins og sjúkdómum og hefur hann beint orðum sérstaklega að malaríu sem hann telur unnt að útrýma. Þetta vill hann gera í stað fjarlægari og óljósari markmiða eins og birtast í loftslagsmálum.
En aftur að breytingum í fátækari löndum. Það var mikið fagnaðarefni að barnadauða í þróunarlöndunum fækkaði úr 79 í 42 dauðsföll á hverja 1.000 fædda á árunum 2000 til 2016. Árið 2022 hafði hins vegar talan aðeins lækkað um 5 dauðsföll til viðbótar, niður í 37. Hlutur barna á grunnskólaaldri í skóla í lágtekjulöndum fraus í 81% árið 2015, en hafði hækkað úr 56% árið 2000. Sárafátækt heyrir sögunni til í mörgum löndum Evrópu og Suðaustur-Asíu en í stórum hluta Afríku lítur út fyrir að hún sé rótgróin og hafi verið í áratugi.
Peningarnir uppurnir?
Í stuttu máli má segja að fátækasti hluti heimsins hafi upplifað erfiðan áratug. Þróunarstofnanir hafa brugðist við með því að ausa peningum í menntun og heilbrigðisþjónustu, í formi neyðarstyrkja. Nú eru peningar að verða af skornum skammti og fá lönd sýna merki um að þau séu að taka við sér, þrátt fyrir bestu viðleitni stofnana eins og AGS og Alþjóðabankans. Um allan heim eru 700 milljónir manna enn afar fátækir og 2,8 milljarðar manna búa á svæðum sem eru bara alls ekki að nálgast lífskjör ríkra heimsins.
Hvað veldur þessu? Svarsins er kannski að leita í hagvexti. Fræðilega séð ættu fátæk lönd að vera fær um að koma tækni á fljótlegan hátt í notkun og forðast kostnað og mistök sem tengjast uppfinningum eða því að vera fyrstur að nota tæknina. Fjármagn ætti einnig að vera til staðar þar sem fjárfestar leita víða að bestu ávöxtun sem í boði er. Saman ættu þessir kostir að leiða til meiri hagvaxtar í fátæka heiminum, eða svo segir hagfræðin.
Árið 2021 staðfestu fræðimennirnir Dev Patel frá Harvard-háskólanum og Arvind Subramanian, fyrrverandi ráðgjafi indverskra stjórnvalda, nú við Brown-háskólann, að þessi tegund af „uppsveiflu“ hafi raunverulega átt sér stað í kringum 1995. Á hverju fimm ára tímabili sáu lág- og millitekjulönd landsframleiðslu á mann vaxa 0,1 prósentustig hraðar en hátekjulönd. Kína, Indland, Austur-Asía og Austur-Evrópuríkin sem komust undan Sovétríkjunum voru ábyrg fyrir miklum meirihluta þessara framfara.
Covid-19 heimsfaraldurinn örlagavaldur
Á næsta áratug reyndist vöxtur þeirra sem voru að elta ríku þjóðirnar nokkuð útbreiddur. Þannig juku 58 fátækustu lönd heims, þar sem búa 1,4 milljarðar manna, landsframleiðslu sína um 3,7% á ári á milli 2004 og 2014. Á sama tíma var meðaltal árlegs vaxtar aðeins 1,4% í OECD-klúbbnum sem telur aðallega rík lönd. Frá árinu 2015 hefur efnahagsleg staða hins vegar engin áhrif haft á hagvöxt, hefur Economist eftir Paul Collier við háskólann í Oxford.
Vissulega er það svo að stór hluti Austur-Asíu og Austur-Evrópu telst nú vera þokkalega ríkur, sem birtist einnig í því að öflugur vöxtur svæðanna stuðlar að mismun milli ríkari og fátækari hluta heimsins, frekar en einhverskonar samleitni. Þannig hefði mátt hafa væntingar um að ört vaxandi landa gæti hafa tekið upp slakann fyrir þróaðri ríkin ef ekki hefði verið fyrir röð áfalla. Covid-19 heimsfaraldurinn var hörmung fyrir öll lönd, en sérstaklega þróunarlöndin. Vaxtahækkanir sem fylgdu í kjölfarið þrengdu fjárveitingar og drógu úr fjárfestingum þó að þær hafi verið nauðsynlegar til að ná niður verðbólgu. Loftslagsbreytingar auka á þrýstinginn sem og fjölgun átaka um allan heim. Valdarán og spilling eru enn stór vandamál.
Niðurstaðan er sú að í lok síðasta árs var landsframleiðsla á mann í Afríku, Mið-Austurlöndum og Suður-Ameríku ekki komin nær því sem var í Ameríku árið 2015. Sérstaklega er erfið staða í Afríku. Verðbótaleiðréttar tekjur meðaltalsins sunnan Sahara eru aðeins rétt yfir því sem þær voru árið 1970. Neysla er enn dræm. Á síðasta ári fór innlendur sparnaður í álfunni niður í 5% af landsframleiðslu, en var 18% árið 2015.
Það er ekki von á neinni sérstakri aðstoð núna. Á sínum tíma voru jafn ólíkir aðilar og Bono, forsprakki U2, írskrar rokkhljómsveitar, og George W. Bush Bandaríkjaforseti að tala fyrir því að Vesturlönd bæru siðferðilega ábyrgð á því að hjálpa fólki komast út úr fátækt. Engin ástæða væri til að bíða eftir því að ofurhægur hagvöxtur skilaði verkinu. Árið 2005 fengu fátækustu 72 lönd heims fé sem jafngildir 40% af ríkisútgjöldum úr samblandi af ódýrum lánum, skuldaleiðréttingum og styrkjum. Enginn sér fram á slíka pakka núna.
Það er kannski umhugsunarvert að rifja upp að fátæktarhugtakið hjá klassísku hagfræðingunum (Smith, Ricardo og Malthus), snérist um einhverskonar skort á lífsgæðum. Nýja hugtakið byggir á því að fátækt sé andstæða auðs, fátækt þín sé ávallt hlutfallsleg. Það er sú fátækt sem við tölum um í vestrænum samfélögum og tengist ekki 300 króna framfærslunni sem vikið var að hér að framan.