c

Pistlar:

21. janúar 2025 kl. 12:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fyrsti dagur Trumps í embætti

Þá er Donald Trump kominn aftur til starfa sem 47. forseti Bandaríkjanna, nokkuð sem fáir sáu fyrir þegar hann lét af embætti sem sá 45! Hvað svo sem hægt er að segja um Trump þá er ekki annað hægt en að undrast baráttuþrekið, einbeitnina og sigurviljann sem hefur nú fleytt honum aftur í Hvíta húsið, að hluta til í andstöðu við þá sem ráða umræðunni heima og erlendis. Strax eru greinendur og fjölmiðlamenn að vandræðast með hvernig eigi að taka orðum hans og skilja stefnu hans. Trump sjálfur boðaði „byltingu hinnar almennu skynsemi“ í innsetningaræðu sinni. Sagnfræðingar framtíðarinnar munu fá úr ýmsu að moða og menn greinir á um hvort fram undan séu eftirtektarverðir tímar eða hreinlega hættulegir? Það á eftir að koma í ljós en engum dylst að Trump verður mikið í mun að láta til sín taka og hann kemur reynslunni ríkari inn í embættið núna. Hér hefur áður verið fjallað um merkingu kosningar hans.aaatrump

Tímaritið Economist hefur verið mjög gagnrýnið á Trump en benti á að hann hafi hafið sinn fyrsta dag í embætti með óvæntri stillingu: í stað þess að skella nýjum og háum tollum á önnur lönd, gaf hann út sérstakt minnisblað forseta (presidential memorandum) þar sem kallað var eftir endurskoðun á ósanngjörnum viðskiptaháttum. Mörgum var létt og hlutabréf og gjaldmiðlar, utan þeirra tveggja sem hér voru áður nefndir, hækkuðu nokkuð. Hinir frægu markaðsaðilar önduðu léttar eða allt þar til Trump lýsti áhuga sínum á að leggja tolla á BRICS-löndin og Mexíkó og þá tóku mexíkóski pesosinn og kanadíski dollarinn að falla hratt.

Kann núna refskákina

Þegar Trump kom í Hvíta húsið síðast þekkti hann ekki nógu vel refskákina sem stunduð er í Washington, hann hélt að hann gæti skapað sér svigrúm inni í „feninu“ eins og valdakerfi Washington er gjarnan kallað en það reyndist ekki svo. Hann tók með sér bæði reynda og óreynda ráðherra og aðstoðarmenn en hafði ekki séð fyrir af hve mikilli ósamfellni valdakerfið réðist gegn honum. Fyrr en varði þurftu aðstoðarmenn hans að svara alls konar ásökunum og voru sumir fangelsaðir eða dregnir í gjaldþrot í gegnum málssóknir. Þessi leikur hafði þau áhrif að Joe Biden, fráfarandi Bandaríkjaforseti, sá sig til þess knúinn í gær að náða Anthony Fauci, ráðgjafa Hvíta hússins í heimsfaraldrinum, og Mark Milley, fyrrverandi formann herráðs Bandaríkjahers, til þess að hlífa þeim við „pólitískum ákærum“ eins og sagði í yfirlýsingunni. Þá fengu flestir þeir sem komu að rannsókn árásarinnar á þinghúsið 6. janúar 2021 einnig náðun. Biden sagði í yfirlýsingu sinni að viðkomandi hefðu þjónað þjóð sinni vel og að þeir ættu ekki skilið að verða „skotmörk óréttlætanlegra og pólitískra sakamála“. Um leið hefur Biden haldið áfram að náða eigin fjölskyldumeðlimi en sem kunnugt er fékk Hunter sonur hans eina víðtækustu náðun sem um getur.aaatrump

Náðanir á náðanir ofan

Allt er þetta heldur hlálegt því það eru fjölmargar fréttir og frásagnir áberandi fjölmiðlamanna og demókrata um það hve slíkar náðanir séu „ósiðlegar“. Nú kyngja þeir ákvörðun Bidens eins og ekkert sé. Trump sjálfur hefur ákveðið að náða þá sem tóku þátt í árás­inni á banda­ríska þing­húsið 6. janú­ar 2021. Náðunin nær til um 1200 manna og fá sumir lausn úr fangelsi sem er út af fyrir sig fagnaðarefni.

En það er margt sem er ólíkt núna eins og sást vel í innsetningarathöfninni. Hún varð auðvitað fámennari en síðast og ekki þarf að rífast um fjölda þeirra sem tóku þátt. En Trump var ekki hundsaður eins og í síðustu innsetningu þar sem lista- og menningarlið Bandaríkjanna opinberlega lýsti yfir andstöðu við hann. Fjölmiðlalandslagið hefur breyst og þá sérstaklega hjá samfélagsmiðlunum en Twitter-skjölin sýndu óvenju bíræfna ritskoðun sem beindist verulega gegn Trump. Aðrir samfélagsmiðlar tóku þátt í því og fjölmiðlaumræðan var honum andsnúin.ameríka2

Ríkisútvarpið breytist seint

Landslagið hefur breyst þó að Ríkisútvarpið hér heima breytist seint þegar Trump er annars vegar. Það virðist ófært um að birta óhlutdræga frásögn þegar Trump er annars vegar. Því var nánast spaugilegt að hlusta á pistil á Rás 1 í morgun frá Arthúri Björgvini Bollasyni, fréttaritara Rásar 1 í Þýskalandi, þar sem Trump var fundið allt til foráttu og dregin upp einhliða og fordómafull mynd af honum og samskiptum hans við þýska ráðamenn. Um leið var umfjöllun um menningarborg Evrópu, Chemnitz, áður Karl Marx Stadt í tíð Austur-Þýskalands fyrir fall Berlínarmúrsins árið 1989. Um allt þetta fjallaði Arthúr Björgvin af miklum skilningi svona í „ljósi sögunnar“ en í borginni má finna stærstu brjóstmynd sem til er af Karli Marx eins og meðfylgjandi mynd sýnir.aamarx

Ekki gat hann þess hve háum upphæðum var varið úr sameiginlegum sjóðum ESB-ríkja, til dæmis úr Byggðaþróunarsjóði Evrópu (ERDF), til að endurbyggja og -reisa úr rústum þessarar borgar sovéttímans sem áður var nefnd eftir föður kommúnismans. Í það verkefni hafa farið fleiri milljarðar evra til að leiðrétta mistök og sóðalegt stjórnarfar vinstri manna fyrri tíðar og gera hana aftur byggilega. Þetta er kannski nærtækt dæmi um hvernig menn geta nálgast hlutina með ólíkum hætti.

Eins og áður sagði er önnur stemmning núna þegar Trump tekur við í annað sinn. Hann nýtur stuðnings víða og hlaut sterka og óvefengjanlega kosningu. Hann nýtur víðtæks stuðnings í viðskiptalífi Bandaríkjanna og sérstaklega meðal forstjóra margra stærstu tæknifyrirtækjanna eða „tækni-ólígarkanna“ eins og Egill Helgason, þáttagerðarmaður Ríkisútvarpsins, kallar þá. Bloomberg-fréttastofan reiknaði út að auður að upphæð 1,3 trilljónir dala hafi verið við innsetninguna. Stuðningur Elon Musk er þar langfyrirferðamestur en framferði hans við innsetningarathöfnina varð kannski að stærstu fréttinni á samfélagsmiðlum. Sumir geta ekki beðið eftir að hann fari til Mars!