c

Pistlar:

17. febrúar 2025 kl. 15:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bandaríkin tala - Evrópa stynur

Það deilir enginn um hver hefur frumkvæðið í heimsmálunum núna. Bandarískir ráðamenn láta frá sér yfirlýsingar eða halda ræður og aðrir eru síðan í því að bregðast við. Nú er meira að segja svo komið að kosningar í lykilríkjum Evrópu mótast að einhverju leyti af orðum bandarískra stjórnmálamanna, sem hafa verið við völd í innan við mánuð. Oftast hefur verið nóg að fylgjast með orðum Donalds Trump en nú hafa menn eins og Pete Hegseth varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna, stigið fram á sjónarsviðið og sett umræðuna á hliðina. Fréttaskýrendur rýna í orð þeirra og sumir virðast telja að heimurinn sé að breytast hratt og rifja upp orð raunsæismannsins Henrys Kissingers (1923-2023) um að stundum gerist ekkert áratugum saman en svo geti allt breyst á nokkrum dögum.aaastór

Á slíkum tímum horfa margir til sögunnar og vilja sækja sér þangað fordæmi og jafnvel lærdóm. Þá finnst mörgum rétt að rifja upp þegar Neville Chamberlain (1869-1940) forsætisráðherra Bretlands stóð fyrir gerð München-sáttmálans í september 1938 og kom heim veifandi sáttmálaskjalinu og sagði að friður á okkar tímum hefði verið tryggður. Sagan sýndi að svo var ekki en stundum verða menn að rýna rétt í söguna.

Langur aðdragandi

Þegar Bretar og Frakkar viðurkenndu yfirráð Þriðja ríkisins í þýskumælandi hlutum Tékkóslóvakíu í september 1938 var enn heilt ár í að Þjóðverjar réðust inn í Póllandi, 1. september 1939. Samkvæmt skilmálum Breta og Frakka töldu þeir sig knúna til að lýsa yfir stríði við Þjóðverja. Það gerðist hins vegar lítið sem ekkert á milli Vesturveldanna og Þýskalands veturinn 1939-1940. Sovétríkin réðust hins vegar á Finna og vetrarstríðið hófst.

Þegar voraði tóku Þjóðverjar aftur við sér og réðust inn í Danmörku og Noreg 9. apríl 1940. Bretar og Frakkar gerðu vanmáttugar tilraunir til að senda herlið til Noregs en það varð frá að hverfa. Heimsstyrjöldin hófst í raun þegar Þjóðverjar réðust á Benelux-löndin (Belgíu, Holland og Lúxemborg) og Frakkland hinn 10. maí 1940. Sama dag tók Winston Churchill (1874-1965) við embætti forsætisráðherra í Bretlandi og Bretar hernámu Ísland.

Bretar og Frakkar gerðu ekkert í tvö ár

Þegar Neville Chamberlain gerði samning sinn í München var hann að reyna að koma í veg fyrir allsherjarstríð í Evrópu en þá voru ekki liðin nema 20 ár síðan milljónir ungra manna létust á vígvöllum Evrópu. Það skýrir afstöðu hans þó að nálgun hans hafi ekki komið í veg fyrir stríð. Hugsanlega voru þó stærstu mistökin að bregðast ekki strax við eftir München-samninginn og hefja vígvæðingu og andhæfa þannig hervæðingu Hitlers. Í raun höfðu Bretar og Frakkar hátt í tvö ár til þess áður en stríðið kom til þeirra. En þeir gerðu lítið sem ekkert. Einnig er hægt að gagnrýna að þau skyldu ekkert gera til að undirbúa bandamenn sína í Póllandi undir það sem koma skyldi þó erfitt hafi verið að sjá fyrir „griðarsáttmála“ Stalíns og Hitlers. Einu sinni sem oftar í aðdraganda styrjaldarinnar var tíminn illa nýttur.aaastór

Hvert er planið hjá ESB?

En hvað segir þetta allt okkur um þróun mála í Úkraínu, en þar hefur stríðið staðið yfir í þrjú ár og er í augljósri sjálfheldu. Hafa ríki Evrópusambandsins nýtt tímann og hvert er planið? Hvorki Rússar né Úkraínumenn geta bætt stöðu sína svo að séð verði, enda mun erfiðara að sækja en verjast og kostar mun meira mannfall. Þegar samtal Donalds Trumps við Vladímír Pútin þann 12. febrúar er gagnrýnt og ráðamenn Evrópu láta í ljós vanþóknun sína á því hvert stefnir mætti spyrja þá hver þeirra stefna er? Hvað sjá ráðamenn í Úkraínu og V-Evrópu fyrir sér að gerist? Telja þeir að vígstaða Úkraínu geti batnað og þá hvernig?

Á fyrra kjörtímabili sínu gagnrýndi Trump samherja sína í Nató harðlega fyrir það að standa ekki við skuldbindingar sínar í varnarmálum og er til fræg upptaka af fundi hans með Jens Stoltenberg, þáverandi framkvæmdastjóra, þann 11. júlí 2018. Trump fór ekki í felur með skoðanir sínar þar frekar en endranær þannig að fréttamenn núna ættu að fara sér varlega þegar þeir segja að hann sé ófyrirsjáanlegur og óútreiknanlegur. Er það svo? Þar fyrir utan er þetta síður en svo ný afstaða hjá Bandaríkjamönnum og meira að segja friðarverðlaunahafi Nóbels, Barack Obama, hafði uppi líkar umkvartanir.aaayalta

Að eiga sæti við borðið

„Eng­ar samn­ingaviðræður um Úkraínu verða haldn­ar án Úkraínu,“ hafði BBC eft­ir John Healey varn­ar­málaráðherra Breta á fundi varn­ar­málaráðherra ríkja Atlants­hafs­banda­lags­ins Nató í Brus­sel í Belg­íu í síðustu viku en með þessum orðum túlkaði hann viðhorf V-Evrópu um að Bandaríkjamenn gætu ekki einir samið við Rússa. Þessi orð hefur hver étið upp eftir öðrum, meira að segja íslenski utanríkisráðherrann.

Orð sem þessi eru heldur marklítil og menn ættu að vera minnugir þess að þegar heiminum var skipt upp í lok heimsstyrjaldarinnar síðari voru það í raun Franklin Delano Roosevelt (1882-1945) og Jósef Stalín (1879-1953) sem ákváðu nýja heimskipan. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, segir í pistli í dag að „sætið við borðið þegar fjallað er um brýna þjóðarhagsmuni og öryggismál skiptir miklu.“ Það er margt til í því en meira að segja Winston Churchill mátti sín lítils við borðið þegar þeir Roosevelt (síðar Truman) og Stalín skiptu upp heiminum enda fyrst og fremst mættur til að verja hagsmuni fallandi heimsveldis.

Fyrir Evrópu skiptir miklu að átökunum í Úkraínu ljúki, munum að þarna eru bæði kjarnorkuver og kjarnorkuvopn. Ef friður skapast þá geta þjóðir V-Evrópu hafið aðlögun að nýrri heimskipan og þá ákveðið hve mikil áhrif þar á þær ætli að hafa.