c

Pistlar:

22. febrúar 2025 kl. 14:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Í brekku í Austurríki

Austurríki er þriðja vinsælasta ferðamannaland heims þegar kemur að skíðaferðamennsku og ríflega 6% landsframleiðslu landsins kemur frá þessari starfsemi. Aðeins Frakkland og Bandaríkin taka á móti meiri fjölda en í Austurríki eru um 300 svæði sem hægt er að skíða á. Þangað sækja um þrjár milljónir skíðaferðamanna ár hvert og lætur nærri að hver skíðaferðamaður eyði ríflega 25% meira á dag en venjulegur sumarferðalangur.
Það er kannski bjartsýni fyrir mann sem er alinn upp í brekkunum við Selfoss (svo!) að reyna fyrir sér á skíðum í Ölpunum en margir hafa lýst þessu sem skemmtilegu fríi og því ekki að reyna? Látum vera með árangurinn á skíðunum en skíðabærinn Wagrein reyndist bjóða upp á skemmtilega upplifun. Bærinn er í ríflega klukkustunda akstursfjarlægð frá Salzburg (Saltboginni) og reyndist taka vel á móti fólki.austurríki

Ferðamenn taka yfir

Í Wagrein búa um 3.000 manns en að jafnaði eru um 9.000 skíðaferðamenn í bænum. Nokkur miðlungsstór hótel er þar að finna en annars gista flestir í litlum gesthúsum sem eru rekin af heimamönnum; í flestum tilfellum virðist vera um að ræða fjölskyldurekstur. Þessi hús eru vel búin og gisting ekki svo dýr utan eftirsóttustu daganna. Það vakti athygli að það var talsvert um byggingaframkvæmdir í bænum en freistandi var að halda að staðurinn væri fullbyggður en þarna hefur skíðaferðamennska í stórum stíl verið í um 50 ár. Lóðirnar eru verðmætar þarna og það er stöðugt verið að leggja meiri hömlur á að útlendingar kaupi sér hús eða íbúð á austurrísku skíðasvæðunum eins og hefur verið vinsælt hjá mörgum, meðal annars Íslendingum. Í Wagrein einni eru líklega um fjórar íbúðir í eigu Íslendinga sem hafa tekið ástfóstri við svæðið.
Þess má reyndar geta að það ku vera ekki síður fallegt þarna á sumrin og hin síðari ár hefur sumarferðamennska færst í aukana en það er fólk sem vill ganga á fjöll í þeirri paradís sem Alparnir sannarlega eru, jafnt sumar sem vetur.

Gríðarlegar fjárfestingar

Það er mikil fjárfesting í kringum rekstur sem þennan, brekkurnar þarf að undirbúa og leggja, skíðalyftur eru gríðarlegar fjárfestingar og svo er daglegur rekstrarkostnaður. Hann felst meðal annars í því að vinna brekkurnar og þjappa slóðir eftir að lokað er á kvöldin. Þá má sjá ljós snjótroðaranna uppi í brekkunum þar sem allt er á fullu inn í nóttina svo gestir komi að öllu í besta standi morguninn eftir.
Auknar kröfur samfara minna snjómagni af náttúrunnar hendi gerir það að verkum að nútímarekstur á vinsælum skíðasvæðum kallar á snjóframleiðslu. Það hefur reynst vera nauðsynlegt í Hlíðarfjalli og í Bláfjöllum, hvað þá á svæðum í Ölpunum þar sem fólk er er búið að fjárfesta í rándýrum vetrarfríum til þess að njóta þess að renna sér. Það mun kosta um 3 til 4 evrur að framleiða hvern rúmmetra af snjó og eins og gefur að skilja þarf ansi marga til þess að tryggja gott skíðafæri þar sem snjóar heldur stopult. Síðasta daginn sem pistlahöfundur var í Wagrein snjóaði en þá hafði ekki snjóað síðan í desember á svæðinu.austurríki2

Wagrein er í um 850 til 900 metra hæð yfir sjó en lyfturnar bera fólk upp í um 1800 til 2000 metra hæð. Þegar upp er komið er mikið af brautum sem geta flutt skíðafólk á milli svæða. Út um allt eru síðan skíðabarir, því merkilegt nokk, þá gera skíðamenn talsvert af því að fá sér neðan í því! Sumir jafnvel meira en góðu hófi gegnir og einstaka menn ílengjast á börunum eftir að þeir koma niður úr fjallinu.

Í ríki Blaufränkisch vínsins

Mikið er um ágæta veitingastaði í Wagrein sem þó bjóða upp á heldur staðlaða matseðla með snitselið vinsæla í öndvegi. Inn á milli eru staðir sem leita sér að sérstöðu og eru góðra gjalda verðir. Austurrísk víngerð lenti í miklu hneyksli árið 1985 en hefur tekið sig vel saman í andlitinu en helstu vínræktarhéröðin eru í kringum Vín og suður af höfuðborginni.austurríki3

Það eru 35 viðurkennd vínafbrigði í Austurríki, og þó að það hljómi ansi fjölbreytt, er megnið af framleiðslu Austurríkis tileinkað Grüner Veltliner, Zweigelt og Blaufränkisch.

Skíðaferð er ekki ódýr og auðvitað kostar þjónusta skíðasvæðisins sitt. Lætur nærri að kostnaðurinn við skíðapassa hafi verið jafn kostnaðinum við gistinguna. Og það eru rukkuð ýmis gjöld og skattar. Vaskur (Mehrwertsteuer) er 10% og leggst á gistingarkostnað. Einnig er innheimt gistigjald (Übernachtungssteuer) upp á 3,70 evrur og sérstakt gjald (Sonstige Gebühr) upp á 4 evrur.