Síðustu áratugi höfum við vanist umræðu um að það séu síðustu forvöð að bjarga hinu og þessu, ella stefni mannkynið í glötun. Aðrir upplifa mikið framfaraskeið víða um heim og sannarlega erum við að sjá miklar og hraðar breytingar. Ein sú mikilvægasta er án efa sú staðreynd að það er búið að aftengja mannfjöldasprengjuna sem lengi var helsta ógnunin við vistkerfi jarðarinnar. Eftir nokkra áratugi munu flest þjóðfélög heims verða eins og maður í of stórum fötum og hálftómar borgir færa með sér nýjar áskoranir. Bandaríska bílaborgin Detroit verður kannski sú fyrirmynd sem við ættum að horfa til. Sem gefur að skilja verða miklar breytingar meðal einstakra þjóða og er þar athyglisverðast að horfa til þess að Kínverjum mun líklega fækka um helming á innan við mannsaldri. Eðlilegt er að velta fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa. En mannkynið mun án efa halda áfram að skapa sér nýjar ógnanir og ný tækifæri.
Þetta tvennt sameinast í þróun gervigreindar sem er á fleygiferð og hugsanlega getur þróun hennar haft alvarlegustu afleiðingarnar fyrir mannkynið. Eðli gervigreindarinnar gerir það að verkum að þegar einu sinni hefur verið kveikt á henni hefst mikil óvissuferð og áfangastaðirnir virðast óteljandi. Um leið verður spurningin hver er við stýrið á þessari ferð? Stórþjóðir og stórfyrirtæki sá að ekki er hægt að sitja aðgerðarlaus hjá, svo miklir hagsmunir eru í húfi. Fyrir vikið leiða þau þróunina og gefa í þegar hugsanlega er ástæða til að staldra við. Er hægt að vera of dramatískur þegar rætt er um gervigreind og framtíð mannkynsins? Það er erfitt að segja því þessi ferð verður líklega aðeins farin einu sinni.
Í heimi biblíunnar
Segja má að mannkynið standi alltaf á einhverjum þröskuldi og þegar yfir hann er komið bíða nýjar hindranir og áskoranir. Þetta er ekki orðað svona til að slá skáldlegar keilur heldur einfaldlega til að benda á að braut þekkingarinnar er þyrnum stráð. Pétur Gunnarsson rithöfundur hefur bent á að biblían var „bókin“ í heimi miðaldakristninnar, sem gerði allar aðrar bækur ónauðsynlegar og úreltar um leið og hún lagði til efnivið í þær bækur sem síðan voru ritaðar. Helsta menntun sem gafst á miðöldum var klerkleg menntun eða einhverskonar guðfræðileg, segir Pétur. Þannig var maður sem kunni að skrifa og lesa sjálfkrafa innlifaður í heim Biblíunnar, og hinir raunar líka fyrir tilstilli boðunar kirkjunnar í máli og myndum.
Það var áfangi að brjótast út úr þessari heimsmynd og enn sjáum við að sum samfélög gera ekki greinarmun á veruleika trúarinnar og hinu veraldlega valdi. Það er líklega það sem helst hindrar framþróun þeirra.
Í heimi loftslagskirkjunnar
Í heimi loftslagsumræðunnar hefur vottað fyrir ákveðinni trúarsamfæringu þar sem stuðst er við skýrslur Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar er beðið eftir boðskapnum í hverri nýrri skýrslu sem er þó alltaf verri en sú síðasta. Niðurstöðurnar eru kynntar með þeim hætti að um þær ríki einhugur í vísindasamfélaginu og þeir sem trúa ekki eru að sjálfsögðu „afneitunarsinnar“, í verstu merkingu þess orðs því þeir munu afneita bæði staðreyndum og vísindum. Allt þetta sækir þungt á huga fjölda fólks.
Tveir norrænir fræðimenn hafa lagt sitt af mörkum við að koma skynsemi í þessa umræðu, annars vegar er það Björn Lomborg, forseti Copenhagen Consensus og gestafyrirlesari við Hoover-stofnun Stanford-háskólans, sem er mjög duglegur við að benda á að skynsamleg nýting fjármuna sé lykilatriði. „Að tengja allar hamfarir við loftslagsbreytingar og gefa ranglega í skyn að allt sé að versna verulega gerir það að verkum að við hunsum hagnýtar og hagkvæmar lausnir á meðan fjölmiðlar beina athygli okkar að dýrum loftslagsaðgerðum sem hjálpa lítið,“ skrifar Björn hann er reglulega með pistla í Morgunblaðinu.
Mengunarsprengjan aftengd líka?
Hinn er sænski fræðimaðurinn og rithöfundurinn Johan Norberg sem var hér á landi fyrir stuttu og flutti erindi á Viðskiptaþingi. Þar var hann spurður um dæmi um það að efnahagslegur vöxtur hafi leitt til bættra umhverfismála. Norberg benti á að ríkustu löndin séu í mun betri stöðu til að bæta umhverfið en önnur og kom um leið með athyglisverðar ábendingar.
„Ég er ánægður með þessa spurningu, því mannkynið hefur nýlega náð hápunkti mengunar samkvæmt gögnum frá Our World in Data við Oxford-háskóla. Frá árinu 2010 hafa alþjóðlegar útblásturstölur fyrir brennisteinsdíoxíð minnkað um meira en 30 prósent, kolmónoxíð um nærri 20 prósent, sótagnir um 14 prósent og köfnunarefnisoxíð um 11 prósent. Þetta er gríðarlega mikilvægt – eftir að hafa aukist gríðarlega í 300 ár minnkar mengunin nú skyndilega,” sagði Norberg.
Því má spyrja: Hafi mannfjöldasprengjan verið aftengd, hefur mengunarsprengjan verið það líka?