Þær breytingar sem eru að eiga sér stað á alþjóðasviðinu kalla á mikil fjárútlát og líklega er það kjarninn í utanríkisstefnu Donalds Trumps að bandarískir skattgreiðendur séu ekki látnir taka reikninginn, þannig myndi hans sérstaki ráðgjafi Elon Musk án efa orða hlutina. Nú þegar hreyfing er komin á málin í Úkraínu og velta má fyrir sér endalokum stríðsins þar, þá væntanlega með vopnahléssamningum, blasir við að hið fjárhagslega uppgjör verður vandasamt.
Alþjóðabankinn áætlar að kostnaður af þriggja ára stríði í Úkraínu nemi um 500 milljörðum Bandaríkjadala og að endurreisn landsins næstu 10 árin kosti um 524 milljarða bandaríkjadala. Það er nánast þrisvar sinnum landsframleiðsla (GDP) Úkraínu en talið er að um 13% allra mannvirkja í landinu séu eyðilögð eða illa skemmd. Engum dylst að innviðir landsins eru í slæmu ástandi og landið eitt og sér ekki fært um endurreisnina.
Borga Rússar uppbyggingu Úkraínu?
Margir hafa stoppað við þá 300 milljarða dala sem hafa verið frystir af eigum Rússa í Vestur-Evrópu. Hvort þeir fjármunir verði notaðir í uppbygginguna er eitt þeirra samningsatriða sem þarf að fá botn í þó að enginn leið sé að segja hve ítarlegur vopnahléssamningur verður ef þá næst yfirhöfuð að koma honum á laggirnar. Friðarsamningur er líklega út úr myndinni enda myndi slíkur samningur hafa í för með sér ítarlegt uppgjör á átökunum sem engin leið er að leiða til lykta núna. Hafa má í huga að átökunum á Kóreuskaganum 1950 til 1953 lauk með vopnahléssamningi en þá lágu um þrjár milljónir manna í valnum. Uppbygging S-Kóreu síðan hefur verið ævintýri líkust en landsframleiðsla á mann þar er núna 100 sinnum meiri en hún er norðan vopnahléslínunnar.
Líklega myndu flestir anda léttar ef hægt væri að stöðva átökin í Úkraínu en mannfallið og hörmungarnar sem fylgja þessu stríði eru skelfileg.
Borga Arabar uppbyggingu Gaza?
Svo virðist sem átökunum sé lokið á Gaza og nú er verið að uppfylla vopnahléssamkomulag um afhendingu gísla. Nokkrar fréttir hafa verið um það hvernig uppbyggingu verður háttað á Gaza eins og hefur verið vikið að hér í pistli. Þar eru um 70% mannvirkja rústir einar en talið er að kostnaðurinn við endurreisn landsins verði að minnsta kosti 60 milljarðar Bandaríkjadala. Trump hefur ruglað hina línulegu hugsun þar með allskonar hugmyndum sem varð til þess að Arababandalagið tók málið til sín og virðist núna ætla að taka ábyrgð á uppbyggingunni. Það eru góð tíðindi fyrir bandaríska skattgreiðendur en engin leið er að segja til um hvernig uppbyggingunni verður háttað eða hve lengi hún stendur.
Uppbygging svæðisins mun haldast í hendur við aðra þróun svæðisins, svo sem hvernig Ísraelsmenn sjá öryggi sitt tryggt. Óvissa ríkir um framtíð Hamas en eins og mál hafa þróast á þessu svæði þá eru Ísraelsmenn með pálmann í höndunum, vel studdir af Trump. Hvað svo sem vakti fyrir Hamas með árásinni 7. október 2023 þá er ljóst að Ísrael hefur nánast þurrkað út alla mögulega andspyrnu á svæðinu samhliða því að hinni afskiptasömu hönd Írans hefur verið ýtt í burtu.
Hver byggir upp Sýrland?
Heimsbyggðin vonar að átökum sé lokið í Sýrlandi en þar bíður mikið uppbyggingarstarf. Sýrland átti um 17 milljarða bandaríkjadala í gjaldeyrissjóði árið 2010, nú er þessi sjóður um 200 milljónir dala. Landsframleiðsla Sýrlands féll um helming á tíma stríðsins og aðstæður almennings eru mjög erfiðar en nánast allar stofnanir landsins eru lamaðar. Assad-stjórninni var haldið gangandi af Rússum og Írönum á meðan þeir höfðu efni á því. Ólíklegt er að þær þjóðir komi að endurreisn landsins.
Forgangsverkefni er að huga að grunnþörfum landsmanna en Alþjóðamatvælaáætlunin áætlar að 13,1 milljón Sýrlendinga hafi ekki nóg að borða. Evrópusambandið hefur ákveðið að aflétta þvingunaraðgerðum gegn Sýrlandi en enginn hefur gefið sig fram til að taka þátt í uppbyggingu landsins enda má segja að nýir stjórnendur verði fyrst að sýna að þeir séu traustsins verðir.
Fyrir átökin voru Sýrlendingar um 21 milljón talsins en helmingur þeirra þurfti að flýja heimili sín til lengri eða skemmri tíma. Í skýrslu Alþjóðabankans frá 2020 var áætlað að endurreisn landsins muni kosta 250 til 400 milljarða Bandaríkjadala eða jafnvel 1 billjón Bandaríkjadala, allt eftir því hvernig verkefnið er skilgreint.