c

Pistlar:

2. mars 2025 kl. 18:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

D-dagurinn og hlutverk USA í Nató

Bandaríski hershöfðinginn Dwight D. Eisenhower var æðsti yfirmaður hers bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni. Það hafði meðal annars í för með sér að hann hafði yfirumsjón með innrásinni í Normandí á D-deginum svokallaða, þann 6. júní 1944. Eftir langan undirbúning var ráðist í gegnum varnir Þjóðverja á ströndum Frakklands í aðgerð sem bar nafnið Operation Overlord. Eisenhower stýrði aðgerðinni sem tókst vel og hafði mun minna mannfall í för með sér en óttast var fyrirfram.dddeisenh

Valið á Eisenhower sýndi tvennt, hann hafði ótvíræða leiðtogahæfileika og Bandaríkjamenn leiddu aðgerðir Vesturveldanna. Árið 1944 hafði Eisenhower þegar stjórnað flóknum aðgerðum í Norður-Afríku og Ítalíu, sem sýndu að hann gat tekist á við þá skipulagslegu martröð að samræma herafla margra þjóða, bandaríska, breska, kanadíska og fleiri. Nokkuð sem menn ættu að hafa í huga ef talað er um fjölþjóðlega heri í Evrópu.

Vandi að stýra fjölþjóðaher

En diplómatísk kunnátta Eisenhowers skipti líka miklu. Hann gat haft taumhald á stórum persónuleikum eins og herforingjunum George Patton og Montgomery sem áttu erfitt með að starfa undir stjórn annarra. Eins og áður sagði leiddu Bandaríkin aðgerðir bandamanna og forseti Bandaríkjanna, Franklin Delano Roosevelt, treysti Eisenhower best til þeirrar forystu. Hafa verður í huga að vegna fjarlægðar og slitrótts sambands þýddi þetta í raun að Eisenhower hafði gríðarleg völd. Í Asíu var yfirstjórnin í höndum Douglas MacArthur hershöfðingja sem ekki sýndi sömu diplómatísku getu og Eisenhower og var MacArthur að lokum settur af þegar hann var orðinn of einráður og vildi ljúka Kóreustríðinu með kjarnorkuvopnum.

Hlutverk Eisenhower á sjálfum D-deginum snerist um skipulagningu og ákvarðanatöku. Hann ákvað að gefa grænt ljós á innrásina þrátt fyrir slæmt veður. Hann hafði þó undirbúið sig og var með ræðu tilbúna um að hann bæri fulla sök ef innrásin hefði mistekist. Sem betur fer gerðist það ekki og Atlantshafsmúr Hitlers hrundi og Vestur-Evrópa var frelsuð.aanatosigning

Upptaktur að stofnun Nató

Hinar sameiginlegu aðgerðir bandamanna í stríðinu höfðu mikil áhrif á stofnun Nató (North Atlantic Treaty Organization) 4. apríl 1949. Þegar þar var komið sögu gegndi Eisenhower embætti forseta Columbia-háskólans, eftir að hafa látið af störfum í hernum eftir síðari heimsstyrjöldina. Stofnun Nató var knúin áfram af leiðtogum eins og Harry S. Truman forseta, Dean Acheson utanríkisráðherra Bandaríkjanna og evrópskum leiðtogum sem sáu nauðsyn sameiginlegs varnarsáttmála til að vinna gegn ógn Sovétríkjanna í upphafi kalda stríðsins.

Bandaríkjamönnum var vandi á höndum á þessum tíma því samhliða enduruppbyggingu V-Evrópu voru þeir að glíma við vandasamt ástand í Japan en ekki síst á Kóreuskaganum. Í september 1950 hittust þeir Ernest Bevin, utanríkisráðherra Breta, Robert Schuman, utanríkisráðherra Frakka og Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Nató var þarna í árdaga og enn verið að þróa, meta og móta öryggisþarfir á Norður-Atlantshafinu og í Evrópu. Bandaríkjamenn voru í þann mund að dragast inn í Kóreustríðið og vildu minnka ábyrgð sína í Evrópu.

Endurhervæðing Þjóðverja

Á Nató-fundinum á Waldorf Astoria-hótelinu í New York tilkynnti Dean Acheson að Bandaríkin sæju ekki annað ráð en að leyfa Þýskalandi að hervæðast til þess að tryggja öryggi V-Evrópu. „Sprengjan á Waldorf“ var þessi stund kölluð en utanríkisráðherrar Breta og Frakka misstu andlitið. Þeir töldu sig geta gengið að stuðningi Bandaríkjanna vísum og að þau myndu tryggja öryggi V-Evrópu og enginn var tilbúinn að hugsa þá hugsun til enda að Þjóðverjar vopnuðust á ný, þó að það yrði nú sem samherji. Bevin endaði á að samþykkja tillöguna í þeirri trú að Robert Schuman myndi aldrei samþykkja hana.

Í desember 1950 var samþykkt að leyfa þýskar herdeildir, þó með þeim skilyrðum að þær yrðu aldrei meira en 20% af mannafla Vesturveldanna. Sovétmenn urðu æfir og hótuðu að hefja styrjöld á ný í Evrópu. Að endingu sátu samt Bandaríkjamenn uppi með stærstu ábyrgðina á öryggi Evrópu og framundan var þriggja ára stríð í Kóreu sem kostaði þrjár milljónir manna lífið. Svo halda margir að það sé nýtt að það þurfi að taka erfiðar ákvarðanir í öryggismálum.

Eisenhower fyrsti herforingi Nató

Eisenhower gegndi lykilhlutverki í mótun Nató. Árið 1951 skipaði Truman forseti hann sem fyrsta æðsta herforingja bandalagsins í Evrópu (Supreme Allied Commander Europe, skammstafað SACEUR). Þar með komst sú skipan á innan Nató sem hefur haldist æ síðan að æðsti herforingi Nató er Bandaríkjamaður en framkvæmdastjóri bandalagsins kemur frá Evrópu. Þessi skipan nær aftur til hlutverks Eisenhower á D-deginum og staðfesti hernaðarlega forystu og yfirburði Bandaríkjanna innan Nató. Í raun hefur enginn efast um þessa skipan mála.

Gegndi Eisenhower því embætti til ársins 1952 þegar hann var kosinn forseti Bandaríkjanna. Í þessu hlutverki átti Eisenhower stóran þátt í að breyta Nató úr bandalagi sem var ekki mikið meira en viljayfirlýsing á pappír í starfhæfa hernaðarstofnun. Hann vann að því að sameina ólíkar hersveitir aðildarríkjanna, koma á stjórnskipulagi og byggja upp trúverðugan fælingarmátt gegn hugsanlegri árás Sovétríkjanna. Forysta hans hjálpaði til við að efla stefnumótun Nató á spennutímabili og byggði hann á reynslu sinni frá því í síðari heimsstyrjöldinni við að samræma herafla bandamanna.

Áhrif Eisenhowers komu í gegnum hina hagnýtu og verklegu uppbyggingu frekar en að hann væri hugmyndasmiður. Hann leit á Nató sem nauðsynlegt tæki fyrir sameiginlegt öryggi, skoðun sem styrktist þegar hann varð forseti Bandaríkjanna (1953–1961). Þá studdi hann stækkun bandalagsins og leit á það sem einn af hornsteinum utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Því má segja að þó að hann hafi ekki komið að stofnun Nató þá var aðkoma hans ein af forsendum þess að bandalaginu farnaðist eins vel og raun bar vitni. Á myndinni ávarpar hann fyrsta leiðtogafund Nató.aanato

Hugmyndafræðingurinn Dean Acheson

Uppbygging Atlantshafsbandalagsins var mótuð af sameiginlegu átaki meðal stofnríkja þess, en Bandaríkin gegndu augljóslega langmikilvægasta hlutverkinu í stofnun þess og uppbyggingu. Hér hefur verið vikið að hlutverki Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna frá 1949 til 1953, en hann átti stóran þátt í samningagerð og gerð Norður-Atlantshafssáttmálans, sem var eins og áður sagði undirritaður 4. apríl 1949, í Washington, D.C. Acheson gegndi hugmyndafræðilegu hlutverki og átti til dæmis stóran þátt í því að skilgreina tilgang 5. gr. sáttmálans, árás á eitt ríki er árás á öll, sem hefur alltaf verið hornsteinn í uppbyggingu þess.

Harry S. Truman, þáverandi forseti Bandaríkjanna, var einnig fylgismaður bandalagsins og leit á það sem mikilsverðan hluta af stefnu ríkisstjórnar sinnar til að vinna gegn útþenslu Sovétríkjanna í upphafi kalda stríðsins. Á evrópsku hliðinni voru menn eins og áðurnefndir Ernest Bevin og Robert Schuman lykilmenn í því að afla stuðnings Vestur-Evrópu og tryggja að sáttmálinn endurspeglaði jafnvægi milli hagsmuna yfir Atlantshafið.

Þó að stofnríkin væru 12 (Belgía, Kanada, Danmörk, Frakkland, Ísland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Noregur, Portúgal, Bretland og Bandaríkin), þá höfðu Bandaríkin, í gegnum diplómatíska nálgun Acheson og stefnumótandi sýn Trumans, mest afgerandi áhrif á upphaflega uppbyggingu Nató. Höfuðstöðvar bandalagsins, hernaðarumgjörð (síðar styrkt með Dwight D. Eisenhower, æðsta herforingja bandamanna árið 1951) og áhersla á fælingarmátt mótuðust mjög af forgangsröðun Bandaríkjanna.

Donald Trump er maður sem er ekki upptekin af sögunni en hann gerði vel ef hann kynnti sér hana og kastaði ekki frá sér þessu merka varnarsamstarfi sem þrátt fyrir allt hefur reynst vel.