c

Pistlar:

4. mars 2025 kl. 11:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rússland er vondur nágranni

Það getur enginn efast um að Rússland er vondur nágranni en ógnar landið heimsfriðinum? Það er líklega það sem flestir öryggismálasérfræðingar heims glíma nú við að meta. Hvernig verður stríðinu í Úkraínu lokið og hvernig mun niðurstaðan líta út? Eftir uppákomuna síðasta föstudag í Hvíta húsinu virðist Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa misst frumkvæðið, að minnsta kosti um tíma.aaaselenski

Fram að þeim tíma var erfitt að sjá að nokkur niðurstaða fengist í stríðinu nema Bandaríkin kæmu að málum og augljóslega var Trump að byggja upp samband við Vla­dimír Pútín Rússlandsforseta með það í huga. Sumir gengu svo langt að halda því fram að samkomulag hefði náðst á ríflega klukkustundarlöngum símafundi forsetanna en það er ekkert sem styður það. Hugsanlega hafa þó útlínur samkomulagsins verið teiknaðar upp. Nú veit enginn hvernig framhaldið er og leiðtogar í Evrópu kalla eftir „nýjum leiðtoga hins frjálsa heims“ og forsætisráðherra Breta og forseti Frakka virðast komnir í keppni um titilinn. Macron Frakklandsforseti hefur lagt fram tillögu um vopnahlé í lofti og á legi sem erfitt er að sjá að nokkur sé að taka mark á, frekar en fyrri tillögur hans um að senda hermenn inn í Úkraínu.

Vopnahlé er ásættanleg niðurstaða

Það er skiljanlegt að það vefjist fyrir mörgum að skilja framvinduna og átta sig á því hver eru samningsmarkmið Bandaríkjanna, fyrir utan að koma á vopnahléi. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra í Rússlandi, hefur bent á að vopnahlé sé miklu líklegri niðurstaða heldur en friðarsamningar vegna þess að friðarsamningar kalla á uppgjör stríðsins sem hvorugur stríðsaðila er tilbúinn til, meðal annars vegna allra þeirra hroðaverka sem þar hafa verið framin. En það er einmitt þetta eðli stríðsátaka sem ætti að ýta á eftir því að reynt sé að stöðva stríðið í Úkraínu.

Við getum til hliðsjónar rifjað upp að Kóreustríðið stóð líka í þrjú ár, frá 1950 til 1953, og þar féllu þrjár milljónir manna í átökum um heimshluta sem enginn hafði talið mikilvægan áður en átökin hófust. Þegar Kóreustríð hófst tók það eigin stefnu og magnaðist upp þar til að endingu að það varð að fjarlægja Douglas MacArthur, hershöfðingja Bandaríkjanna, sem sá ekki annað úrræði en að hefja beitingu kjarnorkuvopna. Sem er góð áminning um að þegar kjarnorkuvopn eru á svæðinu er alltaf einhver tilbúinn að nota þau.aaastór

Landvinningastríð Rússa

Þá erum við hugsanlega komin að því að meta hvaða markmið Rússar höfðu með stríðinu og hvernig það gengur. Annar íslenskur sendiherra í Rússlandi, Gunnar Gunnarsson, benti á í aðsendri grein í Morgunblaðinu í síðustu viku að stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu væri landvinningastríð, nokkuð sem Rússar hefðu stundað í mörg hundruð ár. Gunnar telur að enn verði að líta á Rússland sem nýlenduríki og það móti samskipti landsins við nágranna sína. Hugsanlega getur það verið ásættanleg niðurstaða fyrir Rússa að ná 20% af Úkraínu en það er dýru verði keypt. Rússland hefur afhjúpað hernaðarlega veikleika sína og mun verða lengi að ná upp styrk sem getur ógnað Vestur-Evrópu og er fremur staðbundið herveldi en heimsveldi. Það ætti að gefa Nató-Evrópu tíma til að koma skikki á varnarmál sín.

Mulningsstríð

Á tímum núverandi upplýsingaóreiðu og skoðanagnóttar virðast vera endalausar skoðanir á framvindu stríðsins. Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur bendir á það í grein á Vísi 24. febrúar síðastliðinn að stríðið hefur þróast yfir í „kyrrstöðuhernað að mestu, og það sem kallast mulningsstríð (e. war of attrition) þar sem hernaðarlegt og pólitískt úthald stríðsaðila ræður úrslitum.“Skjámynd 2024-07-27 142929

Með öðrum orðum að stríðið er farið að minna á skotgrafahernað fyrri heimsstyrjaldarinnar og ef einhver skyldi vilja rifja upp út á hvað það stríð gekk þá geta sófasérfræðingar landsins horft á myndina Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum (All Quiet on the Western Front) á Netflix. Slík stríð eru martröð en tölur um mannfall eru í besta falli ágiskanir. Erlingur telur að Rússar hafi frá upphafi stríðsins alls misst um 800.000 hermenn (fallnir, særðir og teknir til fanga, þar af um 200.000 fallnir). Pistlaskrifari spurði hann um tölur Úkraínumegin og hann taldi að þar væru 45.000 manns fallnir. Margir hernaðarsérfræðingar benda á að lengd víglínunnar sé Úkraínu í óhag enda ráði þeir yfir færri mönnum og hafa ekki viljað lækka herskyldu úr 25 ára aldri niður í 18 ára aldur. Væntanlega til að hlífa ungum mönnum við þeim áföllum og hættu sem fylgja slíku stríði. Þetta er eitt þeirra atriða sem Trump bendir á þegar hann segir að Úkraínumenn hafi ekki mörg spil á hendi.

Vissulega hefur varnarbarátta Úkraínu verið gríðarlega kostnaðarsöm og erfið, en einnig er nauðsynlegt að velta fyrir sér hvaða árangur stríðið hefur til þessa fært Rússlandsforseta og hvað það hefur kostað eins og að var vikið hér að framan. Með hann í brúnni verða samskipti við vestrið aldrei eðlileg en lengst af hefur Pútin farið sínu fram eins og vikið var að hér í pistli.

Trump hefur valið þá taktík að útiloka hann ekki í þeim tilgangi að halda samtali opnu sem geti leitt til loka stríðsins. Hvort sú leið er fær ennþá er ómögulegt að segja en ár í viðbót af núverandi átökum getur orðið Úkraínu erfitt.