Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tókst að ná nokkurri athygli þegar hún óskaði eftir hagræðingartillögum frá almenningi og opnaði móttöku fyrir þær á island.is. Óhætt er að segja að almenningur hafi brugðist skjótt við og fyrr en varði voru komnar hátt í 4.000 tillögur í gáttina en um það var fjallað hér í grein á sínum tíma.
Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri vann úr umsögnum frá almenningi ásamt erindum frá forstöðumönnum ríkisstofnana (92 tillögur) og ráðuneytum (10 tillögur). Hópurinn leggur fram tæplega sextíu tillögur til hagræðingar sem kynntar voru ríkisstjórn og almenningi í gær. Samþykkt var að vinnuhópur forsætis- og fjármálaráðuneytis sem starfaði með hagræðingarhópnum muni vinna áfram að framkvæmd tillagna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og að ráðuneyti taki mið af vinnunni við gerð fjármálaáætlunar 2026-2030.
Sjálfsögð hagræðingarkrafa
Talsvert var gert úr því að ný ríkisstjórn ætlaði að hefja mikla hagræðingu í rekstri ríkisins og ýmis samtök svo sem Viðskiptaráð og Samtök atvinnurekenda gátu með góðri samvisku sent sínar tillögur sem lagðar eru fram árlega. Úr innsendum tillögum var unnið með aðstoð gervigreindar en alls voru kynntar tillögur um að spara samtals um 70 milljarða króna á næstu fimm árum eða um 15 milljarða á ári. Það gerir um 1% af útgjöldum ríkisins en árleg útgjöld ríkisins eru nálægt 1550 milljörðum á ári. Þungi sparnaðartillagnanna kemur fram á næsta kjörtímabili eins og sést af meðfylgjandi grafi.
Það er ekkert nýtt að ríkisstjórnir vilji hagræða í upphafi tímabils og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar kynnti hagræðingarnefnd undir stjórn þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Vigdísar Hauksdóttur sem skilaði af sér í nóvember 2013. Sú nefnd mætti talsverðri andspyrnu frá stjórnsýslunni en var með mjög margar tillögur þó að sumar væru óútfærðar. Í kjölfarið var sett hagræðingarkrafa á rekstur Stjórnarráðsins upp á 1%. Það er gjarna gengið út frá því að við undirbúning fjárhagsáætlana sé ætíð eðlilegt að gera ákveðna hagræðingarkröfu, jafnvel þótt fjármálin séu í þokkalegu jafnvægi.
Viðskiptaráð vildi spara 44,6 milljarða
Rifja má upp að í fjárlögum 2025 var áformað að reka ríkissjóð með 41 milljarða króna halla, sem væri sjöunda ár hallarekstrar í röð. Við flestum blasti að augljóst var að loka fjárlagagatinu. Viðskiptaráð lagði við það tilefni fram níu hagræðingartillögur sem bæta afkomu ríkissjóðs um 44,6 milljarða króna og leiða til 3,6 milljarða króna afgangs í stað halla. Eins og oft áður þá eru tillögurnar margar en annað hvað hið pólitíska vald vill gera. Talsmaður Sósíalistaflokks Íslands, Gunnar Smári Egilsson, gagnrýnir hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrir að líkjast tillögum Viðskiptaráðs!
Hagræðingarhópurinn núna segist hafa forgangsraðað skýrum og framkvæmanlegum tillögum við val sitt. Reynt hafi verið að snerta á sem flestum sviðum ríkisrekstrar enda eru tillögurnar af ýmsum toga og er þeim skipt í þrjá kafla: sameiningar og samrekstur, hagræðingu og aðhald og loks tillögur sem snúa að bættu regluverki.
Svo að dæmi séu nefnd er lagt til að sérkjör dómara og handhafa forsetavalds verði afnumin, nefndum og ráðum á vegum ríkisins verði fækkað verulega og að fyrirkomulag um svokallað skúffufé ráðherra verði aflagt. Það er ástæða til að skoða þessar tillögur rækilega og vonandi að ríkisstjórnin bjóði upp á samtal um áframhald á þessari vinnu. Í Bandaríkjunum er verið að framkvæma mikinn uppskurð á fjárlögum ríkisins undir stjórn utanaðkomandi ráðgjafa. Það er einnig mikilvægt að fylgjast með þeirri vinnu og eftir atvikum læra af henni.