Fá verkefni eru arðbærari en Sundabraut og fá verkefni falla betur að einkafjármögnun. Hér hefur í pistlum margoft verið farið yfir sögu verkefnisins (eða verkefnaleysisins) og hvaða upplýsingar hafa legið fyrir um það hverju sinni. Tafir og mistök Reykjavíkurborgar hafa ein og sér verið nógu slæm en um leið hefur ríkisvaldið sýnt fullkomið ráðaleysi gagnvart svo stórri framkvæmd, meðal annars vegna þess að það hefur verið horft á verkefnið með röngum hætti. Sundabraut er nefnilega ekki eingöngu vegabót heldur ekki síður byggðaþróunarverkefni sem getur bætt samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verulega en um leið hjálpað byggðinni að þróast með heppilegum hætti. Ef rétt er staðið að málum getur Sundabraut skapað verðmæti sem réttlæta fjármögnun hennar, meðal annars með því að gera verðmætt byggingarland meðfram brautinni og aðstoða þannig við byggðaþróun höfuðborgarsvæðisins.
Það hefur ekki farið framhjá neinum það mikla tal sem hefur verið um innviðaskuld samfélagsins og bankarnir keppast núna við að fá til sín erlenda fyrirlesara og kynna möguleika á framkvæmdum sem lengi hefur verið beðið eftir með nýrri fjármögnun. Augljóslega er það fyrst og fremst vilji og skipulag sem vantar.
Starfshópur um fjármögnun tekur til starfa
Nú hefur starfshópur um fjármögnun Sundabrautar tekið til starfa en hann hefur það hlutverk að vera verkefnisstjórn Sundabrautar til ráðgjafar og er þar sérstaklega tilgreint að það sé vegna undirbúnings viðskiptaáætlunar, fjármögnunar og útboðsferlis. Í tilkynningu ráðuneytisins er tekið fram að Sundabraut er eitt þeirra verkefna sem tiltekið er í lögum um samvinnuverkefni um samgönguverkefni að megi vinna sem samvinnuverkefni milli hins opinbera og einkaaðila og verði fjármögnuð með gjaldtöku af umferð í takt við lög um samvinnuverkefni.
Í hópnum sitja Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, Sóley Ragnarsdóttir fyrir innviðaráðuneytið og Styrkár Jafet Hendriksson fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Fyrsti fundur hópsins var haldinn í vikunni.
Ráðgerð opnun 2031?
Unnið hefur verið að undirbúningi Sundabrautar um langt skeið en nú gera áætlanir ráð fyrir því að Sundabraut opni árið 2031 og þá verður heimilt að innheimta veggjöld en um þau var fjallað hér í pistli 2018. Sérstök verkefnastjórn tók til starfa árið 2022 til að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautarverkefnisins og frá þeim tíma hefur verið unnið að ýmsum hliðum málsins. Gert er ráð fyrir að umhverfismatsskýrsla verði tilbúin í vor og að ákvörðun um leiðaval liggi fyrir um mitt ár.
Þegar ákvörðun um leiðarval liggur fyrir og hún auglýst sem breyting á aðalskipulagi er unnt að hefja útborðsferli samvinnuverkefnisins segir í fréttatilkynningu. Verkefnið verður langstærsta einstaka verkefnið í samgöngukerfi landsins en miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir má gera ráð fyrir að árleg fjárfesting vegna verkefnisins geti numið á bilinu 20-25 milljörðum króna. Til samanburðar nema heildarframlög til framkvæmda og viðhalds á vegum um 27 milljörðum króna á fjárlögum fyrir árið 2025.
Jarðgöng eða brú?
Það er enn ekki ljóst hvort Sundabraut verður með jarðgöngum eða brú en talað er um að leiðarval liggi fyrir um mitt ár. Það, að sú ákvörðun liggi ekki fyrir, gerir allt tal um að opna hana árið 2031 frekar ótrúverðugt. Meðal annars vegna þess að íbúar í hverfum þar sem Sundabraut nemur land hérna Vogamegin eru þegar búnir að lýsa yfir andstöðu sinni við verkefnið. Við vitum að þegar svo háttar verður skipulag allt mjög tafsamt.
Með fréttatilkynningu ráðuneytisins fylgir yfirlit yfir helstu áfanga í Sundabrautarverkefninu. Þó að þessi greining nái ekki nema aftur til 2020 er sjálfsagt að láta hana fylgja hér með en pistlahöfundur byrjaði að fjalla um málið 2018.
Mars 2025 – Vinnuhópur um fjármögnun Sundabrautar tekur til starfa
2024 – Unnið að ýmsum verkefnum, þ.á m. jarðtæknirannsóknum á landi og sjó, umhverfismatsskýrslu, kostnaðarmati, útfærslu valkosta á legu Sundabrautar og gerð viðskiptaáætlunar.
2023 - Matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum. Verkefnastjóri ráðinn til að stýra verkefnum tengdum Sundabraut.
2022 – Verkefnastjórn skipuð til að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi Sundabrautar, skipuð fulltrúum innviðaráðuneytis, Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Félagshagfræðileg greining á lagningu Sundabrautar leiðir í ljós mikinn þjóðhagslegan ábata fyrir samfélag með minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þús. km á hverjum sólarhring.
2021 – Ríki og borg undirrita yfirlýsingu um lagningu Sundabrautar þar sem sammælst var um Sundabraut yrði lögð alla leið í Kjalarnes í einni framkvæmd og að brautin yrði tekin í notkun árið 2031.
Starfshópur um lagningu Sundabrautar, með fulltrúum Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, kynnti niðurstöður fyrsta áfanga.
2020 – Alþingi samþykkti lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir en Sundabraut er ein sex framkvæmda sem heimilt er að bjóða út sem samvinnuverkefni (PPP).