Ein skemmtilegasta frétt vikunnar sagði frá því að fullorðnir menn hafi grátið af gleði þegar stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Newcastle United komu saman í Ölveri í Reykjavík síðasta sunnudag. Af hverju skyldi það vera? Jú, 70 ára bið félagsins eftir titli var á enda og stuðningsmenn félagsins eru enn að ná sér niður, mörgum dögum seinna. Skipti engu þó að stuðningsmenn annarra liða hafi reynt að gera lítið úr áfanganum og bent á að þetta sé nú bara þriðji titilinn í röðinni og þeir bröttustu sögðu að það tæki sig varla að beygja sig niður eftir honum. En bikar er alltaf bikar, sögðu stuðningsmenn Newcastle og það var sannarlega gaman að sjá myndir frá þessu atviki þar sem fullorðnir menn grétu sem börn, hoppuðu og skoppuðu og réðu sér einfaldlega ekki fyrir kæti. Hvernig stendur á því að enskt knattspyrnulið geti orsakað svona miklar tilfinningar hér uppi á Íslandi?
Það er auðvitað erfitt að skilja að fullu sálfræðina á bak við þau heljartök sem ensk knattspyrnulið hafa á stuðningsmönnum sínum, ekki bara á Íslandi heldur einnig víða um heim. Um hverja helgi þyrpast þúsundir stuðningsmanna hvaðan æva úr veröldinni á leikvelli í Englandi til að horfa á leiki liðanna í ensku úrvalsdeildinni og drekka í sig stemmninguna sem fylgir því að fylgjast með 22 fullorðnum og oflaunuðum mönnum hlaupa um grasbala og elta eina tuðru. Hvað er eiginlega hægt að lesa út úr þessu? Jú, fyrir suma er þetta eini hópurinn sem þeir samsama sig fullkomlega við og treysta. Áköfustu stuðningsmenn liðanna eyða allri vikunni í að ræða sína á milli um komandi leiki og hluti stemmningarinnar gengur út á að upphefja eigin leikmenn og tala niður önnur lið og leikmenn þeirra. Þetta þekkjum við stuðningsmenn Leeds United ekki og óskum að sjálfsögðu stuðningsmönnum Newcastle til hamingju með titilinn litla! Hér er mynd af sigurreifum stuðningsmanni Newcastle í langþráðu sjónvarpsviðtali.
Sykurpabbar liðanna
En þarna er að finna brauð og leiki samtímans og stuðningsmenn liðanna eru kröfuharðir. Stuðningsmenn stærri liðanna eru góðu vanir og heimta titil á hverju ári. Það að eiga knattspyrnulið er hins vegar ekki á öllum færi og liðin í Englandi ganga kaupum og sölum milli misauðugra og misfrægra einstaklinga. Newcastle United knattspyrnuliðið er í eigu hóps fjárfesta sem samanstendur að mestu af Public Investment Fund (PIF) frá Sádi-Arabíu, ásamt RB Sports & Media. PIF, sem er ríkissjóður Sádi-Arabíu undir stjórn krónprinsins Mohammed bin Salman, á meirihluta hlutafjárins í liðinu, eða um 80% af félaginu, á meðan RB Sports & Media heldur minni hlut. Þessi hópur keypti félagið í október 2021 frá fyrri eiganda, Mike Ashley, fyrir um 305 milljónir punda.
Sportvörusalinn Mike Ashley var ekki vinsæll meðal stuðningsmanna Newcastle enda fannst þeim hann nískur við að kaupa leikmenn en það er það sem allt gengur út á. Stuðningsmenn liðanna líta á eigendurna sem sykurpabba og því ríkari því betra. Því fannst stuðningsmönnum Newcastle þeir hafa dottið í lukkupottinn þegar Sádarnir keyptu félagið. Pistlaskrifari sá þó að einn íslenskur stuðningsmaður skipti yfir í Leeds vegna óánægju með eignarhaldið og byggði það á siðferðislegum forsendum. En þessi breyting á eignarhaldi hefur gert Newcastle að einu af fjárhagslega öflugustu félögum í enska fótboltanum, þökk sé gríðarlegum auði PIF, sem er metinn á hundruð milljarða punda.
Peningarnir skipta öllu
Í dag er það svo að peningarnir skipta öllu máli í heimi knattspyrnunnar og kröfur og aðstaða breyst mikið. Áður en Sádarnir komu inn í eigendahóp Newcastle voru eigendur Manchester City taldir meðal ríkustu eigenda í fótboltaheiminum. Manchester City er í eigu City Football Group (CFG), sem er að mestu leyti (um 81%) í eigu Abu Dhabi United Group (ADUG), fjárfestingarfyrirtækis sem er stýrt af Sheikh Mansour bin Zayed Al Nahyan, meðlim í konungsfjölskyldu Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Sheikh Mansour er varaformaður og varaforsætisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna og hefur gríðarlega fjármuni til umráða.
Persónulegt auðæfi Sheikh Mansour er oft áætlað á um 17-20 milljarða punda (u.þ.b. 22-26 milljarða dollara), en raunveruleg tala gæti verið hærri vegna takmarkaðra opinberra upplýsinga. Mikilvægara er þó að fjölskylda hans, Al Nahyan-konungsfjölskyldan, er sögð búa yfir heildarauði sem nemur allt að 300 milljörðum dollara (u.þ.b. 230 milljörðum punda), samkvæmt ýmsum áætlunum, þar sem Abu Dhabi er eitt af olíuríkustu ríkjunum í heimi.
Rússarnir út - Arabarnir inn
Rússneskir fjárfestar voru um tíma áberandi í ensku knattspyrnunni. Roman Abramovich, rússneskur milljarðamæringur og fyrrverandi oligarki, keypti Chelsea árið 2003 fyrir um 140 milljónir punda. Undir hans eignarhaldi varð Chelsea eitt sigursælasta félag Englands, með fimm Englandsmeistaratitla, tvo Meistaradeildartitla og fleiri bikara. Abramovich varð að selja félagið í maí 2022 til hóps undir forystu bandaríska kaupsýslumannsins Todd Boehly og fjárfestingarfyrirtækisins Clearlake Capital fyrir 4,25 milljarða punda. Salan átti sér stað eftir að bresk stjórnvöld frystu eignir hans vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Í dag eru það því bandarískir og arabískir fjárfestar sem hafa tekið við af Rússunum. Bandarískir fjárfestar hafa langa reynslu af því að reka íþróttafélög með hagnaði og hugsanlega gráta einhverjir stuðningsmenn af gleði yfir því. Gott ef það eru ekki Bandaríkjamenn sem eiga hið geðþekka lið Leeds United!