Sjálfsmynd okkar Íslendinga snýst að verulegu leyti um það að við séum herlaus þjóð í friðsömu landi. Við höfum haft trú á að það væri okkur nokkur vörn að vera varnarlaus. Sem er auðvitað ekki rétt, því við höfum útvistað vörnum landsins, erum ein af stofnþjóðum Nató auk þess sem við höfum gert varnarsamning við Bandaríkin. Við höfum því lifað í skjóli annarra og hagað okkur eftir því. Ísland á sér ekki herskáa andstæðinga og við getum því tekið undir með skáldkonunni Huldu sem fékk verðlaun fyrir hátíðaljóð sitt, Hver á sér fegra föðurland, í tilefni af stofnun lýðveldisins 17. júní 1944:
Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.
Fjarri vígaslóð, já, við höfum kosið að trúa því og þó var landið hertekið í maí 1940. Sem betur fer af Bretum en í fyrstu voru landsmenn ekki vissir um hverjir voru hingað komnir. Reyndar var vandasamt fyrir Þjóðverja að hertaka landið og ef þeir hefðu gert það hefði verið mjög erfitt fyrir þá að halda því vegna flotastyrks Breta og þess hve langt frá flutningaleiðum Þjóðverja við vorum. En það er saga sem ekki varð.
Lengst af í kalda stríðinu gegndi Ísland mikilvægu hlutverki sem Samtök herstöðvarandstæðinga sáu ofsjónum yfir. En svo sá pólitíkin til þess að um sjö ára skeið vorum við með forsætisráðherra sem fór fyrir flokki sem barðist fyrir útgöngu úr Nató. Katrín Jakobsdóttir sótti ótalmarga leiðtogafundi Nató og þessi sannfæring flokks hennar virtist ekki trufla mikið á þeim tíma eða sýndi hún hve litlu máli Íslendingar skiptu, þá sem nú? En núna telja margir innlendir hernaðarspekingar að við verðum að endurskoða varnarmál okkar og jafnvel svo að við þurfum að setja verulega fjármuni í varnir. Það er ekki skemmtileg tilhugsun enda virðist þessi umræða vefjast fyrir mörgum, hvort sem rætt er um markmið eða leiðir.
Stríð er kaótískt ástand
Halldór Armand heimspekingur rifjar upp í sunnudagsblaði Morgunblaðsins að stríð sé kaótískt og rifjar upp kaldranalega sýn liðþjálfans Edward Welsh í stríðsmyndinni The Thin Red Line frá árinu 1999: „Everything a lie … They want you dead, or in their lie.“ Halldór bendir á að liðþjálfinn Welsh telji stríð algjörlega merkingarlaust, „ekkert nema kaos og brjálæði – og ef þú færð í þig byssukúlu og deyrð þá er það fyrir ekkert.“ Bandaríski hershöfðinginn George S. Patton skyldi vel hið kaótíska ástand stríðsins og hafði sína speki. „Enginn vinnur stríð með því að deyja fyrir land sitt. Þú vinnur stríð með því að láta hinn gaurinn deyja fyrir sitt.“ Patton er einn fárra hershöfðingja til að deyja á vígvellinum þó að sumir vildu skrifa dauða hans á heldur klaufalegt umferðaslys.
Nánast öll stríðsátök staðfesta sjónarhorn liðþjálfarans Welsh. Það er frægur frasi í herfræðinni að „no plan survives contact with the enemy,“ eða að engin áætlun standist átök við andstæðinginn. Því fengu Rússar að kynnast í upphafi stríðsins í Úkraínu. Hnefaleikakappinn Mike Tyson orðaði þetta á sinn hátt: „Everybody has a game plan until they get punched in the mouth.” Þetta verður ekki betur orðað!
Er allt leyfilegt í stríði?
Halldór Armand veltir réttilega fyrir sér hvað við getum í raun vitað þegar kemur að stríði enda sannleikurinn fyrsta fórnarlamb hvers stríðs. Það kemur til af því að allt er leyfilegt í stríði og skiptir litlu þó að Genfarsamningarnir frá 1949 hafi verið samþykktir af öllum 196 þjóðum Sameinuðu þjóðanna. Þeir fjalla um:
Vernd særðra og veikra hermanna á landi (I).
Vernd særðra, veikra og skipbrotsmanna á sjó (II).
Meðferð stríðsfanga (III).
Vernd almennra borgara, þar á meðal í hernumdum svæðum (IV).
Þessir samningar banna ólöglegar aðgerðir eins og pyntingar, ómannúðlega meðferð og árásir á óbreytta borgara. Trúir einhver að eftir þessu sé farið í þeim stríðsátökum sem nú eru í gangi í Afríku, fyrir botni Miðjarðarhafsins eða í Úkraínu?
Menn tengja gjarnan stríð við endalok siðmenningarinnar og fyrir því eru margar ástæður. Að kasta kjarnorkusprengju á óbreytta borgara gæti virkað sem siðlausasta aðgerð mannkynssögunnar en þrátt fyrir það eru fyrir ákvörðuninni herfræðilegar ástæður, svo sem það gríðarlega mannfall sem bandarísk stjórnvöld sáu fram á við hernám Japan. Duga slík rök eða skipti að endingu mestu að Japanir voru af öðrum kynþætti? Hefðu Bandaríkjamenn einhvern tímann notað þetta vopn gegn evrópskri þjóð?
Tilgangslausasta stríðið?
Fá stríð sýna betur tilgangsleysi átaka en Kóreustríðið, en þar féllu þrjár milljónir manna í þriggja ára stríði sem skipti engu þar sem landamæri ríkjanna voru þau sömu að loknu stríðinu og fyrir það. Bæði Norður-Kórea og Suður-Kórea héldu sömu landamærum og fyrir stríðið, sem voru skilgreind meðfram 38. breiddarbaug eftir skiptingu Kóreuskagans í tvö svæði í lok seinni heimsstyrjaldarinnar 1945.
Þessi skipting var upphaflega tímabundin, gerð af Bandaríkjunum og Sovétríkjunum til að taka við uppgjöf Japana, en varð varanleg með stofnun tveggja aðskilinna ríkja árið 1948: Lýðveldisins Kóreu (Suður-Kórea) og Alþýðulýðveldisins Kóreu (Norður-Kórea). Stríðinu lauk án friðarsamninga og enn standa báðar þjóðir gráar fyrir járnum við 38. breiddargráðu. En vissulega hættu þeir að drepa hvorn annan.