c

Pistlar:

1. apríl 2025 kl. 21:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Inngilding á Ráðhústorginu

Það er eins og yfir mannhaf yfir að líta á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn nú á ramödunni, helgasta tíma múslíma. Þar heyrist framandlegur hljómur frá mannfjöldanum sem rís og hnígur taktfast. Hin íslamska tilbeiðsla krefst samhljóms. Ef augunum er lokað og eingöngu treyst á heyrn þá verða þessi austrænu bænaköll eins og framandi heimur. Þegar augun eru opnuð og litið upp sjást grænlensku birnirnir uppi á Ráðhúsinu og þá áttar maður sig á að þetta er í Kaupmannahöfn, hinni gömlu höfuðborg Íslands. Í borginni þar sem einu sinni var tiltekið á skiltum við vertshús að hundar og Íslendingar væru ekki leyfðir innan dyra.Rådhuspladsen-Ramadan-Demo

En nú er hún Snorrabúð stekkur og fjöldabæn múslima tekur yfir Ráðhústorgið og innfæddir Kaupmannahafnarbúar stikla vandræðalega framhjá mannfjöldanum í sinni íslömsku tilbeiðslu þar sem öll truflun er illa þokkuð. Heimamenn vita ekki hvað í þessum nýja sið felst, annað hvort leggja þeir á sig nám í siðum íslam eða þeir bara draga sig í hlé. Ráðhústorgið er orðið að helgistað inngildingarinnar í Danmörku, landsins sem er með elsta krossfána í heimi.

Múslimir um 5% af íbúum Danmerkur

Danmörk skráir ekki opinberlega trúarbrögð íbúa sinna, svo nákvæmar tölur um fjölda múslima eru ekki til staðar. Hins vegar hafa fræðimenn eins og Brian Arly Jacobsen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla, rannsakað þetta. Samkvæmt greiningu hans frá árinu 2020 voru um 256.000 múslimar í Danmörku þann 1. janúar 2020 eða sem samsvarar um 4,4% af íbúum landsins.

Í dag telja margir að talan yfir fjölda múslima í Danmörku gæti verið á bilinu 300.000 til 350.000, eða um 5-6% af íbúafjölda Danmerkur, sem er um 5,97 milljónir. Þetta eru óstaðfestar áætlanir, og sumir nefna hærri tölur, allt að hálf milljón, en líta verður á það sem ágiskanir. Líklega eru um 170 til 200 moskur í Danmörku núna og íslam og múslimir farnir að setja verulega mark sitt á danskt þjóðlíf. Hugmyndir um aðlögun þeirra hafa vikið fyrir kröfunni um inngildingu, að danskt samfélag aðlagi sig nýrri trú.radhuspl

Gagnrýni á inngildingu í Danmörku

Í Danmörku hefur umræða um inngildingu múslima verið áberandi í áratugi eða allt frá níunda áratugnum þegar innflytjendur frá múslimaríkjum, eins og Tyrklandi, Pakistan og síðar stríðshrjáðum svæðum eins og Sýrlandi, fóru að setjast að í landinu í auknum mæli. Þessi gagnrýni tengist oft hugmyndum um að múslimar samlagist ekki dönskum gildum, svo sem veraldarhyggju (sekúlarisma), jafnrétti kynjanna og tjáningarfrelsi, sem margir Danir telja grundvallaratriði í samfélaginu. Mörg dæmi styðja þessa skoðun eins og hefur verið vikið að hér í pistlum.

Sá stjórnmálaflokkur sem helst hefur gagnrýnt inngildingu múslima er Danski þjóðarflokkurinn (Dansk Folkeparti, DF), sem hefur lengi haft áhrif á danska stjórnmálaumræðu. Flokkurinn hefur haldið því fram að múslimar, sérstaklega þeir sem halda fast við trúarlegar venjur eins og bænahald, hijab-notkun eða sjaría-reglur, vilji ekki aðlagast dönsku samfélagi. Til dæmis hefur Morten Messerschmidt, formaður DF, lagt til aðgerðir eins og að banna sjaría og takmarka áhrif íslamskra menningarhefða, með þeim rökum að þær ógni danskri lýðræðishefð. Søren Espersen, þingmaður DF, hefur einnig sagt að ekki eigi að gera greinarmun á íslam sem trú og íslamisma sem stjórnmálahreyfingu, og fullyrt að báðir þættir séu óæskilegir í Danmörku.

Harðari afstaða Jafnaðarmanna

Gagnrýnin kemur ekki bara frá hægri væng stjórnmálanna. Jafnvel Jafnaðarmenn (Socialdemokratiet), sem lengi voru þekktir fyrir mildari afstöðu til innflytjenda, hafa á undanförnum árum harðnað í málflutningi sínum eins og kunnugt er. Mette Frederiksen, leiðtogi flokksins, hefur kallað íslam „hindrun í samþættingu“ og sagt að sumar múslimakonur neiti að vinna af trúarlegum ástæðum, auk þess að gagnrýna „félagslegt eftirlit“ innan múslimasamfélaga. Þessi breyting í afstöðu Jafnaðarmanna endurspeglar víðtækari þróun í dönsku samfélagi, þar sem almenningsálitið hefur færst í átt að strangari kröfum um samþættingu og meiri efasemdir um einhvers konar inngildingu.

„Íslam er vandamál í Danmörku“

Inger Støjberg, fyrrverandi innflytjenda- og samþættingarráðherra frá Venstre (Hægriflokknum), sagði árið 2021: „Heiðarlega sagt – íslam er vandamál í Danmörku.“ Inger hefur lengi barist fyrir strangari innflytjendalöggjöf og talað gegn því sem hún kallar „of mikið umburðarlyndi“ gagnvart múslimum sem ekki tileinka sér danska menningu. Önnur rödd er Helle Merete Blix, rithöfundur og blaðamaður, sem hefur sagt að fjölmenning (multiculturalism) hafi mistekist í Danmörku vegna þess að hún leiði til „samhliða samfélaga“ frekar en raunverulegrar samþættingar.

Vilja banna gagnrýni á íslam

Rannsóknir sýna einnig áhyggjur meðal Dana. Samkvæmt könnun dómsmálaráðuneytisins árið 2020 töldu 76% múslima frá löndum eins og Tyrklandi, Líbanon og Sómalíu að gagnrýni á íslam ætti að vera bönnuð, sem stangast á við danska hefð um tjáningarfrelsi. Þetta hefur ýtt undir gagnrýni um að múslimar deili ekki grundvallargildum Dana. Auk þess hefur umræða um glæpatíðni meðal afkomenda innflytjenda frá múslimalöndum, auk atburða eins og deilna um Múhameðs-teikningarnar árið 2005 (Jótlandspósturinn birti teikningar sem sýna áttu spámanninn Múhameð) og hryðjuverkaárásir í Kaupmannahöfn 2015, magnaði upp þessa skoðun.ramadan

Hins vegar er gagnrýnin ekki einhliða. Sumir Danir, eins og Abdul Wahid Pedersen, imam í Kaupmannahöfn, hafa bent á að múslimar séu oft útilokaðir frá „danska draumnum“ vegna fordóma og óraunhæfra væntinga um algjöra aðlögun. Aðrir, eins og vinstri sinnaðir stjórnmálamenn og frjálslyndir, hafa gagnrýnt harða stefnu stjórnvalda sem mismunun gagnvart múslimum.

Þannig hefur gagnrýni á inngildingu þegar kemur að íslam í Danmörku komið frá ýmsum aðilum – stjórnmálamönnum, fræðimönnum og almennum borgurum – og snýst oft um spennuna milli íslamskra gilda og danskra hefða. Þessi umræða er enn mjög lifandi og endurspeglar djúpstæðar spurningar um hver á að laga sig að hverjum í danska samfélaginu.

Múslimar skyldir eftir í eigin heimi

Sómalska baráttukonan Ayaan Hirsi Ali starfaði sem túlkur fyrir hollensk yfirvöld og á þeim tíma kynntist hún skuggahliðum innflytjendaheimsins á nýjan hátt og hefur síðan verið hörð í afstöðu sinni gegn inngildingu. Hún skrifar þetta í bók sinni Frjáls:

„Ég hafði enn ekki öðlast styrk til að komast til botns í öllu þessu. Ég var ekki reiðubúin að horfa á hlutina úr fjarlægð og spyrja sjálfa mig hvers vegna svona margir innflytjendur - voru ofbeldishneigðir, lifðu á bótum, voru fátækir. En ég var farin að gera mér grein fyrir því að múslímum í Hollandi leyfðist að mynda sína eigin stoð í hollensku samfélagi, koma á fót eigin skólum og fylgja eigin lifnaðarháttum, rétt eins og kaþólikkar og gyðingar. Þeir voru kurteislega skyldir eftir í eigin heimi. Hugmyndin var sú að efla ætti sjálfsvirðingu innflytjenda og það væri best gert með því að þeir hefðu sterka samkennd með sínu upprunalega samfélagi. Það átti að leyfa þeim að stofna kóranskóla á hollenskri grund. Ríkisvaldið átti að styrkja félagssamtök múslímska samfélagsins. Það var álitið brjóta í bága við hollensk gildi að neyða múslíma til að aðlagast þeim; það átti að leyfa fólki að hafa þá trú sem það kaus og haga sér eins og það vildi… En niðurstaðan varð sú að innflytjendur lifðu út af fyrir sig, lærðu út af fyrir sig, umgengust hverjir aðra. Þeir sóttu sérstaka skóla, sérstaka múslímaskóla eða venjulega skóla í borgunum sem aðrar fjölskyldur síðan flúðu. (bls.324).

Það er því skoðun Hirsi Ali að inngilding leiði til þess að aðkomufólk loki sig af frá því samfélagi sem það hefur sest að í. Það hlýtur að vera umhugsunarvert fyrir þá sem vilja hafa hönd í bagga með hvernig vestræn þjóðfélög þróast.