Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant taldi að þjóðríki með skýr landamæri væru nauðsynleg til að koma á stöðugleika en merkilegt er til þess að hugsa að Kant fjallaði um landamæri í tengslum við hugmyndir sínar um varanlegan frið, „Um eilífan frið“ (Zum ewigen Frieden, 1795). Hann lagði einnig til alþjóðlegt samstarf sem gæti dregið úr átökum milli ríkja þó að líklega hafi hann ekki haft Schengen-samstarfið í huga á þeim tíma! En Kant taldi augljóslega að landamæri væru í senn verkfæri til aðgreiningar og brú til samvinnu.
John Locke, annar mikilvægur pólitískur heimspekingur, fjallaði um eignarrétt og samfélagssáttmála í riti sínu „Tvær ritgerðir um stjórnarfar“ (Two Treatises of Government, 1689). Hann leit svo á að landamæri væru afleiðing af samkomulagi manna um að skipuleggja samfélög og verja sameiginlega hagsmuni, eins og eignir og frelsi þeirra sem lifðu í viðkomandi samfélagi. Íslendingasögurnar okkar sýna glögglega að landamerki voru mikilvæg fyrir eignarrétt og félagslegan stöðugleika og deilur um þau leiddu gjarnan til átaka.
Þurfum við að vakna?
Þegar þetta er skoðað er merkilegt að hlusta á Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, í viðtali við Eggert Skúlason, umsjónarmann Dagmála á mbl.is. Úlfar er yfirmaður landamæraeftirlits á Keflavíkurflugvelli ásamt tollinum. Hann er í raun sá embættismaður sem helst hefur með landamæravörslu hér að gera. Úlfar rifjar upp að við göngum inn í Schengen 2001 og segir að um langt árabil hafi löggæsla ekki verið sem skyldi á ytri landamærum.
„Við þurfum að vakna,“ segir Úlfar í viðtalinu og hlustendur hrökkva ósjálfrátt við. Hvernig má það vera, hjá þjóð sem hefur skýrustu og afmörkuðustu landamæri sem finnast? Af hverju þurfum við að vakna. Jú, við höfum byggt upp og haldið úti kerfi sem þjónar erlendu fólki betur en íslenskum almenningi.
Úlfar bendir á að frávísunum hefur fjölgað mikið en hann telur að gera þurfi betur. „Þá tel ég að fyrir sjálfstæða þjóð þá getum við, held ég, gert miklu miklu betur. Við þurfum stífari útlendingalöggjöf. Landamæralögin ég þyrfti, eða lögregla þyrfti að sjá allar þvingunar- og frávísunar- og brottvísunarheimildir í landamæralögunum sjálfum,“ segir Úlfar.
Skera þarf á þráðinn
Færa má rök fyrir því að flestir landsmenn æski þess að landamæri landsins séu tekin alvarlega og að hingað komi einungis þeir sem eigi erindi eða styðji við það samfélag sem hér er fyrir. En stjórnmálin hafa búið til kerfi sem gerir eftirlitinu erfitt að starfa. Úlfar tekur sem dæmi að ef útlendingi er frávísað á landamærunum og hann kærir frávísunina til kærunefndar útlendingamála þá er honum skipaður talsmaður og sá kostnaður fellur á íslenskan almenning. Úlfar telur rétt að afnema þetta fyrirkomulag. „Skera á þennan þráð,“ eins og hann orðar það.
Í máli Úlfars kemur fram að hann sé fyrst og fremst að horfa til þess að hægt sé að frávísa grunuðum brotamönnum eða fólki sem líkast til er að koma til að stunda svarta vinnu. Hann nefnir í viðtalinu fólk frá Albaníu, Georgíu og Norður-Afríku. Hann tekur fram að hann sé ekki að tala um þessar þjóðir í heild sinni en frá þessum löndum og svæðum hafa komið einstaklingar sem ekki eiga hefðbundin erindi til Íslands.
Úlfar telur Íslendinga enn geta snúið þróuninni sér í hag og víða séu sóknarfæri til að bregðast starfsemi erlendra glæpahópa hér á landi. Skilaboðin hans eru skýr, eins og kom fram hér að ofan. „Við þurfum bara að vakna.“
Fótfesta erlendra glæpaklíka
Verra er að erlendar glæpaklíkur hafa náð fótfestu á Íslandi eins og öllum má vera ljóst en að því hefur verið vikið að hér í pistlum. Eftir að hafa hlustað á viðtalið við Úlfar ætti enginn að fara í grafgötur með að ástandið er alvarlegt þó að íslenskir fjölmiðlar séu alla jafna tregir að beina kastljósinu að höfuðpaurunum. Í þeirri baráttu sem þarf að heyja fyrir öryggi landamæranna skipta einstaka burðadýr engu máli. Og þau segja aldrei frá höfuðpaurunum, viti þeir það á annað borð.
Í viðtalinu við Úlfar kemur fram að þessar glæpaklíkur sæki á lögregluembættið á Suðurnesjum með aðstoð íslenskra lögmanna. Hann er þó þeirrar skoðunar að við getum enn snúið stöðunni á þessu sviði okkur í hag. Úlfar bendir jafnframt á að það sé engin skylda af hálfu Íslands að vista hér á landi erlenda ríkisborgara sem hafi gerst brotlegir við lög. Það sé ekki hluti af samningum við Evrópusambandið.
Einhverra hluta vegna hafa erlendir glæpamenn náð fótfestu hér, og þá helst inni í höfuðborg landsins. Úlfar segist ekki þekkja ástæðu þess en segir að með markvissu átaki sé hægt að laga þetta. Hann segir að vegna túrismans þá skipti gríðarlega miklu í markaðssetningu landsins að geta boðið ferðamönnum upp á örugga vist hjá okkur.
Þarf meira fjármagn?
Eins furðulegt og það er þá eru enn nokkur flugfélög sem fljúga til Íslands sem ekki veita upplýsingar um farþega samkvæmt alþjóðareglum. Þessi ótrúlega staða hefur verið til umfjöllunar mánuðum saman eftir að Úlfar vakti fyrst athygli á þessu í viðtali við Morgunblaðið. Hann segist vonast til að þessari smugu verði lokað síðar á árinu. Hann bendir hins vegar á að tollayfirvöld hafi möguleika á að knýja á um að þessi flugfélög skili upplýsingum á tilsettum tíma. Þeim úrræðum hefur ekki verið beitt. Boltinn er hjá stjórnvöldum. Úlfar hvetur stjórnmálamenn til að hlusta á hvað embættismenn sem eru í framlínunni hafa að segja. Hann kallar eftir breytingum, segist ekki nóg að senda bara minnisblöð um ástandið. Allt kostar þetta fjármuni og Úlfar segist þurfa um hálfan milljarð króna í viðbótarfjárframlög til að hægt sé að sinna eftirliti á landamærunum sómasamlega. Hann kallar eftir tíu til fjórtán fangavörðum og stuðningi ríkisstjórnar, þings og þjóðar.