c

Pistlar:

15. apríl 2025 kl. 17:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ótrúleg umskipti í Argentínu

Javier Milei, forseti Argentínu, hefur undanfarna mánuði ekki getað hamið spennuna segir í viðskiptatímaritinu Economist. Ástæðan er sú að allt síðan í desember síðastliðnum, þegar síðasti samningur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Argentínu rann út, hefur forseti landsins leitað nýrrar björgunar. Síðan gerðist það síðasta föstu­dag að samningar náðust um að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn (AGS) veitti arg­entínska rík­inu 20 millj­arða dala lán til 48 mánaða. Svo virðist sem Argentínumönnum hafi orðið að ósk sinni því þann 30. mars hafði Luis Caputo, fjármálaráðherra Argentínu, sagt að ríkisstjórnin vonaðist eftir fá 40% af fjárhæðinni, sem gæti numið 20 milljörðum dala, fyrir fram. Þremur dögum síðar stökk Milei upp í flugvél til Mar-a-Lago til að hitta Donald Trump í von um að hann hjálpaði til við að loka samningnum. Allt virðist þetta hafa gengið eftir.milei

Fyrir AGS, neyðarsjóð heimsins, er þetta undarleg staða. Lántakendur hafa tilhneigingu til að koma örvæntingarfullir, niðurdregnir og jafnvel trylltir til sjóðsins sem oft er síðasta úrræðið í landi sem er nokkrum máltíðum frá byltingu. Frá því þegar Argentína leitaði fyrst á náðir sjóðsins árið 1958 hefur landið orðið þaulsetnasti og um leið erfiðasti viðskiptavinur sjóðsins, hafandi endalaust safnað upp skuldum, sem nú nema 44 milljarði dala (eða 28% af öllum útlánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins).

Þessi fyrsti samningur Milei hjá AGS verður sá 23 sem Argentína gerir við sjóðinn. Eðlilega eru starfsmenn sjóðsins tvístígandi þar sem eyðslutilhneiging Argentínu hefur alltaf haft betur en aðgerðaáætlun sjóðsins.

En Milei tókst ætlunarhlutverk sitt og er lán­inu ætlað að auðvelda Arg­entínu að ráða bet­ur við að koma jafn­vægi á greiðslu­jöfnuð lands­ins við um­heim­inn. Um leið og til­kynnt var um lán­veit­ing­una greindu arg­entínsk stjórn­völd frá því að dregið yrði veru­lega úr gjald­eyr­is­höft­um og gengi arg­entínska pesó­ans leyft að sveifl­ast á breiðara verðbili. Miðar þetta allt að því að auka aðgengi arg­entínska hag­kerf­is­ins að alþjóðleg­um fjár­magns­mörkuðum. Allt þetta bendir til þess að róttækar aðgerðir Milei séu að skila árangri.

Alþjóðabankinn einnig til hjálpar

En fleiri þurfa að koma að. Á föstu­daginn var einnig til­kynnt að Alþjóðabank­inn myndi veita Arg­entínu 12 millj­arða dala fyr­ir­greiðslu. Tæp­ur helm­ing­ur þeirr­ar upp­hæðar er eyrna­merkt­ur skattaum­bót­um, innviðaverk­efn­um og örvun einka­geir­ans, dæmigerð áherslumál hjá Javier Milei. Hinn helmingur fjárins er ætlaður verk­efn­um á sviði námu­vinnslu, land­búnaðar og orku­fram­leiðslu. Þessu til viðbót­ar mun Þró­un­ar­banki Rómönsku Am­er­íku (e. Bank of In­ter-American Develop­ment) leggja af mörk­um 10 millj­arða dala. Þar af á að nota sjö millj­arða til að fjár­magna út­gjöld hins op­in­bera og þrír millj­arðar verða notaðir til að örva einka­geir­ann.milei 3

Argentínski seðlabank­inn hyggst fleyta pesósnum og leyfa honum að veikj­ast um allt að þriðjung frá því sem nú er. Jafn­framt mun seðlabank­inn binda enda á gjald­eyr­is­höft af ýms­um toga og verður fyr­ir­tækj­um gert auðveld­ara að færa hagnað úr landi, en höft­in sem um ræðir hafa verið við lýði frá ár­inu 2019.
Á fundi með blaðamönn­um sagði Luis Caputo fjár­málaráðherra Arg­entínu að von­ir stæðu til að þess­ar aðgerðir gerðu arg­entínska gjald­miðil­inn „heil­brigðari“, að þær drægju úr verðbólgu og veittu stjórn­völd­um á end­an­um svig­rúm til að lækka skatta.

Er „áfallameðferð“ Milei að virka?

Það er smám saman að verða ljóst að Javier Milei, forseti Argentínu, er að ná árangri við að takast á við hin gríðarlegu efnahagsvandamál landsins en hann tók við embætti í desember 2023. Við það tækifæri var spurt hér í pistli hvort hægt væri að breyta Argentínu? Helstu atriðin í efnahagsstefnu hans, sem oft er kölluð „áfallameðferð“ (shock therapy), fela í sér niðurskurð á ríkisútgjöldum, afnám ríkisstyrkja, gengisfellingu pesósins og fækkun ráðuneyta. Milei vann óvæntan sigur en fáir höfðu trú á að honum tækist að snúa við efnahag landsins.

Milei erfði verðbólgu upp á yfir 200% á ári sem var ein sú hæsta í heimi. Með ströngum niðurskurði og aðhaldi í peningaprentun hefur mánaðarleg verðbólga lækkað verulega, úr 25,5% í desember 2023 niður í 3,7% í mars 2025, en árleg verðbólga er áætluð um 30%. Verðbólgan er því enn há en ekki lengur ógnvænleg.

Milei sjálfur lýsir þessu sem „ótrúlegum árangri“ og segir að stefnan sé að koma verðbólgu niður í sambærilegt horf og í öðrum ríkjum á næstu árum. Hann hefur einnig sagt: „Við erum að sýna heiminum að hægt er að sigra verðbólgu með réttri stefnu.“

Rak 51 þúsund opinbera starfsmenn

Ríkisútgjöld hafa minnkað um 30% í raunvirði, meðal annars með fækkun ríkisstarfsmanna en Milei rak 51 þúsund opinbera starfsmenn fyrstu 12 mánuðum valdatíma síns. Hann fækkaði ráðuneytum úr 18 í 9 og réðist um leið í niðurskurð á styrkjum til almenningssamgangna og orkufyrirtækja. Milei hefur oft endurtekið slagorðið „No hay plata“ („Það er enginn peningur“) til að undirstrika nauðsyn niðurskurðar. Í janúar 2024 skilaði Argentína fyrsta fjárlagaafgangnum í 12 ár. Þetta hefur styrkt fjárhagsstöðu ríkisins en vitaskuld hefur þetta hitt marga hart.

Efnahagur Argentínu fór í gegnum samdrátt á fyrri hluta árs 2024 vegna niðurskurðarins, en nýleg gögn benda til bata. Hagvöxtur var 3,9% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi 2024, og spár gera ráð fyrir um 4-5% vexti árið 2025. Þetta bendir til þess að landið sé að komast út úr kreppu, þótt batinn sé brothættur.milei 2

Enginn fer í grafgötur með að niðurskurðurinn hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir marga Argentínumenn. Fátæktarhlutfallið hækkaði úr 42% í 53% á fyrri hluta árs 2024 vegna minnkandi kaupmáttar og hærri verðlags. Síðari hluti ársins sýndi lækkun þessa hlutfalls í 38,1% en yfir 11 milljónir manna búa enn við fátækt. Laun í einkageiranum hafa ekki haldið í við verðbólgu, sem ýtir undir ójöfnuð.

Leiguverð lækkar og húsnæðisframboð eykst

Milei hefur ýtt undir afreglun, til dæmis með því að afnema stýringu leiguverðs, sem hefur lækkað leiguverð í Buenos Aires um nærri 50% og aukið framboð íbúða. Einnig hefur hann opnað fyrir erlenda fjárfestingu og sett fram áætlanir um einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem hafa mætt mótspyrnu í þinginu.
Stjórnmálaástandið er viðsjárvert og flokkur Milei, La Libertad Avanza, hefur takmarkaðan þingmeirihluta, sem gerir erfitt að koma stórum umbótum í gegn. Til dæmis var frumvarpi sem innihélt margar efnahagsumbætur hafnað í þinginu í febrúar 2024. Milei hefur þurft að semja við mið- og vinstriflokka til að halda stefnunni áfram.

Fjárfestar eru enn varkárir vegna óvissu um gjaldeyrishöft og stöðugleika en engum dylst að Milei hefur náð ótrúlegum árangri við að lækka verðbólgu og koma ríkisfjármálum í lag, en þetta hefur kostað mikla fórn hjá almenningi, sérstaklega þeim fátækari. Efnahagsbati er hafinn, en hann er brothættur og háður frekari umbótum og pólitískum stöðugleika. Langtímamarkmið Milei, eins og að afnema gjaldeyrishöft og hugsanlega dollaravæða hagkerfið, eru enn óljós og krefjast meiri framfara. Í heildina er þó hægt að segja að hann sé að ná nokkrum tökum á efnahagnum, en vegurinn fram undan er enn langur og óviss.