Portúgalar eiga sérstakan málshátt um aprílmánuð sem segir: „Í apríl, þúsund regndropar.“ Það er viðeigandi að hafa hann í huga þegar haldið er til Portúgals í þessum mánuði, þó að ætlunin sé að stytta aðeins veturinn hér heima. Málshátturinn vísar til þess hversu rigning er algeng á vorin, sérstaklega í apríl, og er oft notaður til að lýsa breytileika veðurs á þessum tíma. Að þessu sinni eru heimamenn sáttir við veðrið, því þegar leið að páskum þá hafði rignt meira í vetur en Portúgalar höfðu upplifað síðustu 20 ár. Fyrir vikið var jarðvegurinn rakur og mettur, gróðurinn að taka rækilega við sér og vötn, ár, mýrar og uppistöðulón full af vatni. Það eru góð tíðindi í þessu sólríka landi sem hefur verið hrjáð af gróðureldum undanfarin ár.
Flogið var til Faró og síðan lá leiðin til Silves (borið fram Shjílvs) sem er í um klukkustunda akstursfjarlægð frá flugvellinum. Silves er um 11 þúsund manna bær í Algarve-héraði í suðurhluta Portúgals, þekktur fyrir ríka sögu og menningararf. Hann var eitt sinn höfuðborg konungsríkisins Algarve (1249–1910) og gegndi mikilvægu hlutverki á tímum Mára (8.–13. öld). Bærinn er staðsettur á hæð við ána Arade, sem var siglingahæf áður fyrr og tengdi innlandið við hafið, sem auðveldaði verslun og samgöngur. Erfitt var að sjá að miklar siglingar fari um hana núna.
Hagstætt verðlag
Það er ekki mikil ferðamennska í Silves og við gistum í heimagistingu og reyndar sáum við ekki nema eitt hótel á svæðinu. Þegar pistlaskrifari fór út fyrsta morguninn í stuttbuxum með sólhatt mætti hann alls staða kappklæddu fólki. Veturinn var ekki farinn og ekki aðrir en Íslendingar treystu sér út í stuttbuxum í 15 stiga hita. Við vorum frædd um það af heimamanni að veturinn væri reyndar varla farinn enn þá en sem betur hafði hann sig á brott á meðan við vorum á staðnum, reyndar svo rækilega að það var 12 gráðum hlýrra þegar við fórum en þegar við komum. Það munar um minna enda segir reynslan að kjörhiti Íslendings sé innan við 25 gráður og skiptir engu þó að allir skuggar séu þræddir.
Silves tók vel á móti okkur eins og á reyndar við Portúgal yfirleitt. Miðbærinn er lítill og hlýlegur og þó að allmargir frídagar yfir páska ofan í þjóðhátíðardaginn (frelsisdaginn) rugluðu opnunartíma veitingastaða og verslana var alltaf hægt að fá borð og undantekningalaust fengum við góðan mat. Kvöldverður fyrir fjóra með vínglasi kostaði gegnumsneitt um 100 evrur eða 15.000 krónur. Á flugvellinum á leiðinni heim vorum við svo aftur tekin niður á jörðina í verðlagsmálum, sem undirbjó okkur undir íslenskt verðlag. En það er önnur saga.
Kastalabærinn
Saga Silves snýst öðru fremur um samnefndan kastala (Castelo de Silves) sem gnæfir yfir bæinn uppi á hæðinni yfir borginni. Við vorum staðsett við kirkjustræti þeirra Silves-búa, sem reyndist nánast algerlega miðsvæðis og stutt ganga í kastalann sem var vel þess virði að skoða enda er hann aðalaðdráttarafl staðarins. Eins og hann er í dag er hann einn best varðveitti kastali Algarve, byggður upphaflega af Márum á 8.–13. öld á grunni rómversks virkis. Kastalinn er sérstakur fyrir þá sök að hann er byggður úr rauðum sandsteini sem gefur honum óvenjulegan lit og yfirbragð. Frá honum er gott útsýni yfir bæinn og nærliggjandi sveitir. Kastalagarðurinn er stór og þar eru meðal annars tveir vatnsgeymar, þar af einn sagður tengdur ánni, og fornleifar frá járnöld. Í dag er þar kaffihús og skemmtilegt að ráfa um kastalaveggi, rýna í söguna og njóta útsýnisins.
Grafhýsi krossfara og biskupa
Í götunni okkar var svo Silves-dómkirkjan (Sé Catedral). Hún var byggð árið 1189 á grunni gamallar mosku en sameinar gotneskan og barokkstíl. Á páskadag fór mikil skrúðganga frá kirkjunni stuttan hring um bæinn undir seiðandi tónlist. Kirkjan varð illa úti í jarðskjálftanum mikla árið 1755 en var endurbyggð og geymir grafhýsi krossfara og biskupa. Reyndar fór kastalinn einnig illa út úr jarðskjálftanum mikla og var ekki endurbyggður að fullu fyrr en í seinni heimsstyrjöldinni.
Þá er enn eitt kennileiti þarna, Ponte Romana (Rómverska brúin), en hún er í mikilli endurbyggingu núna. Þrátt fyrir nafnið var brúin byggð árið 1445 sem er auðvitað alls ekki rómverskur tími. Brúin liggur yfir Arade-ána og er aðeins fyrir gangandi vegfarendur, táknræn fyrir menningararf bæjarins.
Inngangur að götunni þar sem við bjuggum var í gegnum Portas da Cidade sem er söguleg borgarhlið frá Máratímanum, hannað til að verja bæinn gegn árásum. Hliðið er efst í miðbænum við Largo do Município-torgið þar sem voru góð kaffihús og matstofa sósíalista!
Sögulega mikilvægur bær
Silves, sem kallaðist Shilb á Máratímanum, var mikilvæg borg í Al-Andalus á 10. öld og sjálfstæð taifa (smáríki) á 11. öld. Eftir innrás Mára árið 713 varð bærinn miðstöð verslunar og menningar. Í stuttri kynningu í menningarhúsi múslíma í bænum var okkur tjáð að það væri ekki um að ræða neina innrás. Þó að mönnum sé tamt að tala um reconquista hafi ekki verið nein conquista! Márarnir hefðu bara komið og slegið upp tjöldum og sest að.
Á 12. öld var bærinn vettvangur átaka milli kristinna Portúgala og Mára, en konungurinn Sancho I hertók bæinn árið 1189 með hjálp krossfara og fékk hann fyrir vikið risastóra styttu af sér við kastalann. Márarnir náðu bænum aftur árið 1191, en árið 1242 tóku kristnir hann endanlega. Íslömsk menning er áberandi og sterk í allri list, mannvirkjum og daglegri iðju í bænum. Það er arfleifð Máranna.