Grein birt í Morgunblaðinu 12 feb 2021
ESB sendimenn hika ekki við að arðræna fátækar þjóðir eða múta ráðamönnum.
Nýverið bárust fréttir af kaupum Evrópusambandsins á veiðiheimildum við Grænland. Slær vefritið Kjarninn því upp að, „ESB borg[i] mun meira fyrir fiskveiðar heldur en íslenskar útgerðir“ og reiknar einsog enginn sé morgundagurinn út þorskígildi og verð á kíló. Þetta er villandi samanburður og því vill ég fá að tiltaka nokkra þætti.
ESB er ekki útgerð eða fjölskyldufyrirtæki úti á land og gerir ekki út báta, hvorki í Evrópu né við Grænland. ESB borgar fyrir veiðiheimildir við Grænland úr sameiginlegum sjóðum ríkjasambands sem um leið styrkir og niðurgreiðir útgerðir í sínum löndum og styður þannig við óhagkvæmar útgerðir. ESB kaupir veiðiheimildir fyrir tugi miljarða króna á hverju ári, allt frá Grænlandi í norðri til Falklandseyja í suðri til handa útgerðum sinna landa og til að geta boðið „evrópskan“ fisk í sínum löndum. Túristar sem telja sig vera að snæða rækjur á suðurströnd Spánar er líklega borða fisk veiddan við Vestur-Afríku af spænskum togara eða frá Grænlandi. Á spænsku skipunum sem veiða við Angóla eru yfirmennirnir spænskir en sjómennirnir innfæddir. Þeir fá greidd laun eftir því hvort eitthvað fæst uppí kostnað við veiðarnar og ef vel veiðist og menn eru heppnir geta þeir fengið hátt í 2000 kr. fyrir daginn. Meira er það ekki.
ESB nýtir allar leiðir til að ná í fisk og að komast gjarnan yfir veiðiheimildir með gilliboðum um þróunaraðstoð og styrki til viðkomandi ríkisstjórna eða hreinlega múta ráðamönnum eða ráðandi öflum. Hika sendimenn ESB ekki við að arðræna auðlindir fátækra þjóða og henda fyrir borð því sem lítið fæst fyrir. Þannig kaupa þeir veiðiheimildir í Senegal, Angóla, Máritaníu, Fílabeinsströndinni og Marokkó, svo einhver lönd séu nefnd. Skráning á afla er oft og iðulega fölsuð og eftirlit með lönduðum afla verulega ábótavant. Fara þeir sjaldan eftir vísindalegri ráðgjöf um hámarksafla og ganga illa um auðlindir með skipulögðu brottkasti. Meira segja kaupir ESB veiðiheimildir við Sómalíu þar sem stjórnleysi ríkir og heimamenn einna þekktastir fyrir sjóræningjastarfsemi sína.
Íslenskar útgerðir geta ekki keppt við fjölþjóðasamsteypur eða ríki sem sniðganga reglur, þvert á móti þurfa þær að verjast þeim og keppa við undirboð þeirra, tæknilegar viðskiptahindranir og gæðakröfur sem meðal annars ESB setur á okkur. Er ég nokkuð viss um að flest skip sem Spánverjar, Frakkar og Grikkir nota við veiðarnar í Afríku gætu ekki komist inní íslenska skipaskrána eða fengið veiðileyfi hjá Fiskistofu vegna brota á öryggisreglum eða gæðaeftirliti og aldrei kæmust íslenskar útgerðir upp með að greiða þau laun sem þeir bjóða sínum sjómönnum.
Það hefur ekki reynst þjóðum vel að semja við ESB um veiðiheimildir eða að hleypa þeim inní sína landhelgi, en sumar þjóðir gera það þegar þeir sjá peningana og gilliboð ESB. Víða við strendur Vestur-Afríku ganga þeir svo nærri fiskistofnum að strandveiðimenn eru hættir að fá í soðið og svelta á meðan yfirvöld fitna á styrkjum og mútum frá ESB. Að bera saman fiskveiðistjórnun ESB við auðlindagjöld íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er hvorki rétt né sanngjarnt. Þvert á móti er nöturlegt að fylgjast með hvernig ESB gengur um auðlindir annarra ríkja. Það er ekki til eftirbreytni.