Lengi vel gat hver sem er farið í Bláa lónið eða hvað það var sem affallsvatnið frá virkjuninni kallaðist áður en slyngir menn fóru að markaðssetja fyrirbærið. Þetta voru hálfgerðar svaðilfarir, engin búningsaðstaða, ekkert hreinlæti og ekkert eftirlit. Enda var það svo að þeir sem lögðu í að fara í „Bláa lónið” á þessum tíma voru heldur lítt skipulagðir og fóru þangað í hita augnabliksins. Allir voru sammála um að þetta væri fyrirkomulag sem engum hentaði og enginn hefði ábata af. Því var það svo að glöggir menn og ráðagóðir hófu að skipuleggja aðstöðuna með það fyrir augum að auka á upplifun gesta, skapa snyrtilega og örugga umgjörð um reksturinn og hafa af þessu nokkurn ábata. Í raun gat engin séð fyrir að upp úr þessu myndi rísa rekstur eins og er í Bláa lóninu í dag en óhætt er að segja að þar sé finna eitthvert best heppnaða framtak í íslenskri nýsköpun.
En vissulega gátu allir farið í lónið án nokkurs endurgjalds á sínum tíma og sannarlega er það ekki ókeypis að fara í Bláa lónið í dag. Þessi „auðlind“ skapar mikil verðmæti í dag fyrir eigendur, starfsmenn og ekki síst þjóðarbúið. Höfum hugfast, að í raun og veru hefði hver sem er getað farið af stað með rekstur þarna á sínum tíma þar sem enginn hafði áhuga á honum fyrr en frumkvöðlarnir fóru af stað. En að reka fyrirtæki utan um affallsvatn þarna í hrauninu leit nú ekki beinlínis út fyrir að geta orðið arðsamt á þeim tíma.
En hverfum til okkar tíma. Í dag vildu líklega allir eiga hlut í Bláa lóninu og nú er svo komið að ýmsir af þeim sem komu að rekstrinum hafa „selt sig út úr honum“ án þess að séð verði að nokkur tímann hafi verið greitt fyrir auðlindina. Já, „auðlindina“ segi ég, í dag líta flestir svo á að þarna sé um auðlind að ræða en það var sannarlega ekki svo í upphafi. Einn þeirra sem hafa selt sig út úr Bláa lóns-auðlindinni er Helgi Magnússon sem í dag er umsvifamikill fjárfestir. Hann á meðal annars Fréttablaðið og tengda miðla sem fjalla mikið um aðra auðlind, sjávarútvegsauðlindina, sem Helgi telur greinilega að hafi verið afhent án endurgjalds og ekki sé greitt fyrir hana sanngjarnt afgjald.
Fyrir daga kvótakerfisins voru of margir að veiða „pollinn” umhverfis landið. Sorgir sameignar kallast það þegar slegist er sameiginlega auðlind sem engin stjórn er á. Of margir voru við veiðar og alltof mikið var tekið úr fiskistofnunum. Með kvótanum var dregið verulega úr því sem menn máttu veiða og við það versnaði afkoman. Bátum fækkaði og fyrirtæki lögðust af. Þessi tími var sársaukafullur og erfiður bæði fyrir þá sem fóru á hausinn og hjá þeim sem þraukuðu. Þeir sem bölvuðu kvótakerfinu þá voru í útgerð en almenningur í landinu vildi lítið af útgerð vita. Það var enginn að afhenda einum eða öðrum, eitt né neitt. Það var verið að takmarka aðganginn. Áhyggjur fólks úti á landi voru hvort það fengi eitthvað fyrir húsin sín ef það þurfti að flytja úr þorpinu. Verbúðarfólkið hafði litlar áhyggjur, brennivínsflöskurnar voru senda í póstkröfu um allt land.
Er saga þessara tveggja auðlinda svo ólík? Allir gátu nýtt þær og arðsemi rekstrarins var í lágmarki. Þeir sem komu að umbreytingu hans sáu hins vegar tækifæri og þróuðu og bættu reksturinn og gerðu hann að því sem hann er í dag. En það var ekki beinlínis séð fyrir á þeim tíma sem Ísland var ein stór verstöð og ekki eru allar ferðir til fjár.