c

Pistlar:

25. júní 2019 kl. 17:35

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Það er framsýni og sjálfbærni falin í því að segja NEI

Ég er einn af þeim sem hef sett mig upp á móti því að Alþingi samþykki svokallaðan Orkupakka 3. Ég hef ekki séð nein þau rök með þessu máli að ég telji að hægt sé að réttlæta þetta evrópska regluverk. Ég tel mig þó ekki vera sérstakan talsmann einangrunar og þjóðrembu eins og þeir sem aðhyllast samþykkt þessa sama orkupakka telja sig geta alhæft um.  Þeir sem hafa vondan málstað að verja og lítil haldbær rök, detta því miður af og til í þann freistnivanda að smána þá sem hafa andstæða skoðun í stað þess að nota rök og staðreyndir máli sínu til stuðnings.  

Ég held reyndar að þeir sem setja sig á móti þessum orkupakka séu aðilar sem aðhyllast framsýni og sjálfbærni, fólk sem hefur kjark til þess að standa á eign fótum með sterka framtíðarsýn og ábyrgðarkennd gagnvart meðbræðrum sínum og systrum.

Það er t.d. framtíðarsýn að nota innlenda orku til þess að stórauka hér ylrækt, í því felst líka gríðarleg umhverfisvernd því ávöxtur með kolefnisfótspor eftir flugferð til landsins er ekki sérlega umhverfisvænn. Nýsköpun hverskonar byggir á því að til staðar sé nægt framboð af orku á sem hagkvæmustu verði. 

Grundvöllur að því að hér sé hægt að hugsa í langtíma lausnum með léttan iðnað er að taka upp fyrri eigendastefnu Landsvirkjunar. Sem byggðist á því að láta landsmenn og fyrirtæki sem hér starfa, kaupa orku á sem næst kostnaðarverði til þess að efla hér nýsköpun og samkeppnishæfni. 

Fjótlega eftir ráðningu sína í ágúst 2009 breytti núverandi forstjóri Landsvirkjunar stefnu fyrirtækisins án þess að það væri borið undir eigendur þess (þjóðina) eða Alþingi (engin eigendastefna). Á vef Landsvirkjunar segir í dag:

“Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.“

Það að hámarka afrakstur orkulinda er ekki það sama og að almennir notendur hér á landi njóti lágs orkuverðs, þvert á móti. Afleiðingin af þessari stefnu er að raforkuverð hér á landi skapar ekki lengur samkeppnisforskot fyrir íslensk fyrirtæki líkt og það gerði áður. Þetta er staðfest í skýrslu Samtaka iðnaðarins sem gefin var út í mars á síðasta ári og heitir Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina.

Árið 1965 var Landsvirkjun stofnuð í þeim tilgangi að byggja og reka raforkuver sem gætu selt raforku til stóriðju og séð almennum markaði fyrir raforku á hagkvæmu verði. Þannig var arður af sölu til stóriðjunnar notaður til þess að greiða fyrir uppbyggingu á raforkukerfinu. Fram að þeim tíma hafði rafvæðing á Íslandi verið í uppnámi og stóð rekstur veitufyrirtækja ekki undir nýframkvæmdum í orkumálum. Rafmagnsskömmtun var daglegt brauð víða um land. Framsýni þeirra sem lögðu Landsvirkjun til stefnu á sínum tíma tryggði landsmönnum orkuverð sem var það lægsta í álfunni og svo tryggði þessi stefna líka íslenskum fyrirtækjum í erfiðri samkeppnisstöðu örlítið samkeppnisforskot. 

Þessi staða er nú í uppnámi vegna aðgerðaleysis þeirra sem hafa farið með vald yfir Landsvirkjun frá árinu 2010 og trú þeirra á það að allt sem kemur að utan sé betra en það sem áður var byggt á. 

Ég trúi því að flest viljum við farsælt alþjóðasamstarf, og að við viljum virða þá alþjóða samninga sem við erum hluti af. En við eigum að vera á móti hverskyns yfirgangi og ánauð erlendra ríkjasambanda á auðlindum okkar. Frekar sætti ég mig við það að vera kallaður talsmaður grámósku, einangrunarhyggju og ótta við hið óþekkta, en að bugta mig fyrir erlendu valdi yfir auðlindum þjóðarinnar líkt og mörgum þykir ægilega smart um þessar mundir. „Það er svo Cosmopolitan sjáðu“, sagði einn vinur minn um daginn. 

„En Viddi það er engin kapall að koma til landsins nema með leyfi Alþingis og þess vegna skiptir þetta engu máli.“ sagði annar félagi í vinahópnum. Vissulega er látið líta út fyrir það, en í næsta pistli ætla ég að draga upp sviðmyndir sem sýna að þetta er mögulega ekki alskostar rétt. 

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur