Nú get ég ekki lengur orða bundist. Mér finnst algerlega ósæmandi að samtök sem kalla sig „Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum“ geti vaðið fram í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum með rangar fullyrðingar og sleggjudóma án þess að færa rök fyrir máli sínu. Svo hart er gengið fram í vitleysunni að minnir um mjög á pólitísk áróðurssamtök þar sem engu skal vært til þess að koma höggi á andstæðinginn.
Ástæðan fyrir þessu skarki er umræðan um áfengi. Þar þorir engin að taka vitræna umræðu vegna hættu á því að lenda í orrahríð þeirra sem vaða fram með röngum fullyrðingum og útúrsnúningum. Þetta er ekki boðlegt í siðuðu þjóðfélagi.
Að þessu sögðu vill ég taka fram að ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem hafa aðra skoðun en ég á þessum málum. Ég ber hinsvegar enga virðingu fyrir þeim aðilum sem vaða fram með ofsa, rógi og órökstuddum fullyrðingum án þess að færa rök fyrir máli sínu líkt og ofangreind samtök leyfa sér ítrekað.
Þá að áfenginu.
Í fyrirhuguðu frumvarpi Dómsmálaráðherra sem enn er ekki komið til afgreiðslu Alþingis, er eitt atriði sem virðast fara mest fyrir brjóstið á þeim sem hafa haft sig í frammi varðandi þetta fyrirhugaða frumvarp. Það er hugmyndin um að leyfa sölu á áfengi í netverslunum hérlendis.
Síðan hefur vaknað á ný umræðan um hvort leifa eigi auglýsingar á áfengi. En það er ekki hluti af frumvarpi ráðherra eins og það hefur verið kynnt. Ég ætla hinsvegar að eyða nokkrum orðum í áfengisauglýsingarnar því þeim hefur verið blandað inn í þessa umræðu.
Byrjum á hugmyndinni að leyfa sölu á áfengi í netverslunum hér á landi. Í umræðu um málið er algengt að sjá fólk detta inn í þá rökvillu að þessi breyting myndi þýða stóraukið framboð á áfengi. Þetta er rökvilla vegna þess að í dag geta allir íslendingar eldri en 20 ára pantað sér áfengi úr þúsundum netverslana um allan heim og fengið sent heim að dyrum. Af þessum sökum er framboðsaukningin óveruleg, breytingin sára lítil (varla mælanleg) ef notast er við tölfræði.
Auk þess sem að regluverkið sem við búum við varðandi áfengisinnflutning og framleiðslu gerir nánast ómögulegt fyrir þá sem vilja leggja fyrir sig verslun með þessar veigar að aðgreina sig með verðum eða verðlagningu. Nýir aðilar verða líklegast að aðgreina sig með miðlun þekkingar til þeirra sem hafa aldur til að kaupa áfengi, til dæmis með betri þjónustu í formi fræðslu og upplýsinga, sem er vel, og mundi til lengri tíma styrkja og bæta vínmenningu landans.
Svo er það líka staðreynd að markaður með áfengi í öllum hinum vestræna heimi er mettaður markaður. Með öðrum orðum framboð vörunnar er meira en eftirspurnin. Við slíkar aðstæður er þekkt að neysla eykst ekki ef fjölgun verður á útsölustöðum. Þeir útsölustaðir sem eru fyrir á markaði selja minna sem nemur sölu þess sem inn á markaðinn kemur. Þetta er lykilatriði sem verður að halda til haga í umræðunni.
Þá að áfengisauglýsingum. (sem eru ekki hluti af fyrirhuguðu frumvarpi) Höfundur þessa pistils hefur lengi haft áhuga á þessu efni sem sérfræðingur í markaðsmálum og kynnt sér það vel, m.a. með því að viða að sér þeim vísindagreinum sem ritaðar hafa verið um málefnið og birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum víða um heim. Það verður að segjast eins og er að umræðan um þetta málefni hefur því miður einkennst of mikið af sleggjudómum og fullyrðingum. Mögulega er það eðlilegt þar sem málefnið er viðkvæmt og áfengi á án nokkurs vafa stóran þátt í ógæfu margra.
Það poppar hér upp í hugann setning sem Friðrik heitin Eysteinsson frumkvöðull í faglegu markaðsstarfi hér á landi skrifaði í Viðskiptablaðið 2004
„Þeir sem hlynntir eru banni við áfengisauglýsingum virðast telja að auglýsingar hafi mun meiri áhrif á neytendur en þær í raun hafa og að það eigi sérstaklega við um ungt fólk. Þeir sem eitthvað hafa kynnt sér virkni auglýsinga vita á hinn bóginn að mesta vandamálið er hið gagnstæða, þ.e. hvað þær hafa í raun lítil áhrif. Rannsóknir hafa t.d. sýnt að einungis um þriðjungur auglýsinga skila skammtímasölu og einungis fjórðungur söluaukningu til lengri tíma litið. Hvað ungt fólk áhrærir þá er það miklu læsara á auglýsingar en eldra fólkið var þegar það var ungt (hvort sem það man það eða ekki). Engar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl áfengisauglýsinga og þess hvort ungt fólk hefji neyslu áfengis eða ekki.“
Þrátt fyrir að þetta sé skrifað árið 2004 á þetta við í einu og öllu. Enn í dag er vandamál auglýsenda að virkni auglýsinga er minni en almennt er talið. Svo hitt sem er stærra atriði í umræðu dagsins. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl áfengisauglýsinga og þess hvort ungt fólk hefji neyslu áfengis eða ekki. Þetta er staðreynd sem ekki hefur verið hrakin fræðilega það ég best veit.
Það er líka einkennandi í umræðunni er sífellt verið að rugla saman áhrifum auglýsinga á einstök vörumerki annars vegar og heildarneyslu áfengis hinsvegar. Rannsóknir hafa sýnt að á mettum markaði eins og áfengismarkaðurinn á vesturlöndum er vissulega. Er hlutverk auglýsinga fyrst og fremst það að færa neytendur á milli vörumerkja. Vegna þess að framboð er meira en eftirspurnin eru líkur á því að heildarneysla aukist vegna auglýsinga óverulegar.
Afleiðingarnar af auglýsingabanni eins og hér ríkir, eru fyrst og fremst viðskiptahindranir sem koma niður á innlendum framleiðendum. Innlendir framleiðendur áfengis geta ekki reynt að fá neytendur til þess að kaupa frekar innlenda vöru en innflutta. Þetta er algerlega galin staða! Sérstaklega nú þegar það getur skipt sköpum í erfiðri stöðu þjóðarbúsins hvort við veljum það sem er innlent fram yfir það sem er innflutt.
„Áfengi er bara þannig vara að við getum ekki leyft þetta“ heyri ég stundum. Ég ætla að leyfa mér að vitna aftur í Friðrik og grein hans úr Viðskiptablaðinu frá árinu 2004. Því betra svar hef ég ekki heyrt við þessari fullyrðingu.
„Fyndnustu rökin fyrir því að banna áfengisauglýsingar ganga þó út á að aðrar reglur eigi að gilda um auglýsingar á áfengi vegna þess að það sé þannig vara. Þarna er ruglað saman þeim áhrifum sem misnotkun vara getur haft í för með sér annars vegar og áhrifum auglýsinga þeirra hins vegar. Þá lágmarkskröfu hlýtur að vera hægt að gera til fólks, þó það kunna að öðru leyti ekkert fyrir sér í markaðsfræðum, að það átti sig á því að það er munur á því sem verið er að selja og þeim áhrifum sem hægt er að hafa á sölu þess!“
Þetta er mögulega kjarni málsins. Þeir sem hafa verið að berjast gegn því að áfengisauglýsingar verði leyfðar eru í raun ekki að vernda unga fólkið eins og látið er líta út fyrir. Heldur er verið að vinna markvisst að því að skekkja samkeppnisumhverfi íslenskra framleiðenda og íslenskrar verslunar. Vinna gegn innlendum hagsmunum.
Ef þessum aðilum er í raun annt um lýðheilsu þjóðarinnar og unga fólkið, væri róttækasta og árangursríkasta aðferðin að banna áfengi alfarið og láta af forræðistilburðum við fullorðið fólk sem vill kaupa og selja löglegan varning.